„Hamar er hamar hvar sem er í heiminum og vísindi eru í eðli sínu kynlaus. Það erum við sjálf, samfélagið, sem búum til óþarfa múra í atvinnulífinu með því að hlaða vægi á störf eftir lýðbreytum eins og aldri, kynjum og uppruna,“ segir Sigríður Hrund. „Slíkar tengingar eru til þess fallnar að hægja á nauðsynlegri blöndun og nýsköpun í atvinnulífinu. Störf eru bara störf sama hvers eðlis þau eru eða í hvaða atvinnugrein þau eru.“

Sigríður Hrund segir að við verðum að gera okkur grein fyrir hvert við séum að stefna. Ísland sé hluti af alþjóðaþorpinu og hingað leiti sem betur fer erlent vinnuafl í miklum og auknum mæli. „Á árunum 2010-2013 voru erlendir ríkisborgarar innan við 7 prósent af íbúafjölda hér á landi. Í ár eru þeir um 15 prósent. Frá 2010 hefur íslenskum ríkisborgurum fjölgað um 8,4 prósent á meðan erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað um 160 prósent. Augljóst er að Íslendingar fjölga sér ekki í takti við öra atvinnuþróun á landinu og að fólk mun velja að flytja til okkar á næstu árum og áratugum. Til að taka á slíkri örri þróun í fjölbreytni samfélagsins er eðlilegt að ræða um „konur á Íslandi“, ekki aðeins „íslenskar konur“.

Að sögn Sigríðar Hrundar mun eðli, vægi og virði starfa taka miklum breytingum á næstu áratugum og mikilvægt að sérhver einstaklingur eigi sem bestan möguleika á að finna og sinna starfi við sitt hæfi. „Það er hlutverk okkar allra að sýna samstöðu og velja hvernig atvinnulíf og samfélag við eigum hér á landi.“

Íslenskur vinnumarkaður er að sögn Sigríðar Hrundar enn mjög kynskiptur og afar hægt gengur að blanda kynjum innan og á milli atvinnugreina. „Séu árin milli 1991 og 2019 skoðuð, þá hækkaði rýrt hlutfall kvenna í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð einungis úr 4 prósentum í 7 prósent samkvæmt mælingu frá Hagstofu Íslands. Í sérfræðilegri, vísindalegri og tæknilegri starfsemi fór hlutfallið úr 33 prósentum í 38 prósent á umræddu tímabili og þátttaka kvenna minnkaði úr 44 prósentum í 27 prósent í framleiðslugreinum. Hlutfall kvenna á meðal skrifstofufólks var aftur á móti um og yfir 80 prósent á sama tímabili.“

Sigríður Hrund segir stöðuna þurfa að breytast hratt bæði innan atvinnumarkaðar sem og í skólakerfinu. „Samkvæmt samantekt Samtaka iðnaðarins eru nú 55 prósent nemenda í almennu bóknámi á framhaldsskólastigi kvenkyns, en í almennu starfsnámi eru stúlkur 32 prósent nemenda. Í Tækniskólanum eru nú 20 prósent nemenda kvenkyns og hlutfall kvenkyns nemenda í starfsnámi af heildarfjölda kvenkyns framhaldsskólanema er einungis rétt um 20 prósent, sem er það allra lægsta á Norðurlöndunum. Í Finnlandi er sama hlutfall 61 prósent, í Noregi 41 prósent, í Svíþjóð 34 prósent og í Danmörku 31 prósent. Betur má ef duga skal.“

Að sögn Sigríðar Hrundar voru alls 43 prósent útskriftarnema úr háskólanámi kvenkyns árið 2020, en einungis 15 prósent útskrifaðra kvenna brautskráðust úr STEM greinum (vísindi, tækni, verkfræði og stærðfræði) á móti 40 prósentum karlkyns útskriftarnema. Séu eingöngu skoðaðar tölur fyrir nemendur sem ljúka framhaldsnámi á háskólastigi, svo sem meistara- og doktorsgráðum, er hlutfallið enn lægra. Hlutfall kvenna sem starfar við þessar greinar er að sama skapi mjög lágt.

Úr rannsókn Hagstofu Íslands á launamun karla og kvenna 2008-2020 segir: „Mikilvægt er að skilja af hverju vinnumarkaðurinn er kynskiptur og af hverju tekjumunur og óleiðréttur launamunur er til staðar. Af hverju vinna karlar meira en konur? Af hverju er námsval og starfsval karla og kvenna ólíkt? Af hverju eru konur ólíklegri til að vera í stjórnunarstöðum? Og af hverju eru laun í svokölluðum kvennastéttum lægri en laun í hefðbundnum karlastéttum? Að hversu miklu leyti endurspeglar munur kvenna og karla á vinnumarkaði val? Hvaða hlutverki gegna viðhorf, félagsleg viðmið, fordómar og kynbundin mismunun? Til þess að svara þessum spurningum er ekki nóg að horfa á eina tölu sem lýsir launamun karla og kvenna, heldur er nauðsynlegt að horfa á heildarmyndina,“ segir Sigríður Hrund Pétursdóttir.

Vinnupallar ehf. þakka öllum konum sem prýða síðuna innilega fyrir að standa upp og stíga fram í samstöðu til að benda á að störf eru í eðli sínu kynlaus.

Sérstakar þakkir fá Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, lífeindafræðingur og framkvæmdastýra Raunvísindastofnunar Háskólans, Fida Abu Libdeh, umhverfis- og orkutæknifræðingur, MBA, stofnandi og eigandi Geosilica, Heiðrún Erika Guðmundsdóttir, hagfræðingur og deildarstjóri í verðvísitölum á Hagstofu Íslands og Jóhanna Klara Stefánsdóttir, lögfræðingur og sviðsstýra hjá SI.

Jafnrétti er ákvörðun.

Frá hægri: Dr. Elisa Piispa, jarðeðlisfræðingur og sérfræðingur hjá Jarðvísindastofnun, Kristbjörg Anna Þórarinsdóttir, doktorsnemi í eðlisfræði, dr. Sigríður Guðrún Suman, efnafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, dr. Eniko Bali, jarðfræðingur og dósent við Háskóla Íslands, dr. Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, lífeindafræðingur og framkvæmdastjóri Raunvísindastofnunar, dr. Anna Helga Jónsdóttir, tölfræðingur og dósent við Háskóla Íslands. MYND/KRISTINN INGVARSSON