Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjöríss, er sjálf ákaflega meðvituð um valið sem við stöndum frammi fyrir í hillum matvörubúða „Ég vel alltaf íslenskt ef ég get. Það er mikill kostur að geta keypt íslenskt grænmeti, kjöt, þvottaefni, salernispappír og annað. Með vali mínu veit ég að ég er að skapa störf hér heima. Sama gildir um fólk sem velur Kjörís fram yfir sambærilega, erlenda vöru.

Margfeldniáhrifin út í samfélagið út af þessari einu ákvörðun eru gríðarleg. Kjörís kaupir umbúðir og hráefni af íslenskum birgjum, sem stuðlar að atvinnusköpun hér heima. Og með því að velja Kjörís þá tryggirðu starfsfólki fyrirtækisins í Hveragerði, sem eru á sjötta tug, atvinnu,“ segir Guðrún.

Það skiptir máli

Sex rótgróin matvælafyrirtæki standa saman að átakinu Íslenskt skiptir máli, sem má segja að sigli í kjölfarið af „Íslenskt, láttu það ganga“, árvekniátaki atvinnulífs og stjórnvalda. „Við vildum beina kastljósinu á íslenska matvælaframleiðslu og styðja enn frekar fyrirtæki í matvælaiðnaði hér á landi. Þetta er gríðarlega mikilvægur iðnaður á Íslandi og skapar hér yfir 10.000 störf.“

Álíka átök hafa sprottið upp og gengið í bylgjum undanfarin ár. „Í faraldrinum sem skekur heimsbyggðina upplifum við nú eitt mesta atvinnuleysi sem sést hefur í áratugi. Þegar atvinnuleysisdraugurinn bankar upp á verður enn mikilvægara að standa vörð um störfin í landinu. Að velja íslenskt er áhrifarík leið til að styðja við atvinnuuppbyggingu hér á landi og hvert og eitt okkar getur tekið þátt.“

Ekki bara atvinnusjónarmið

Íslensk matvöruframleiðsla stenst fyllilega samanburð við erlenda framleiðslu hvað varðar gæði og verðlag. Aukning matvælaframleiðslu hér heima helst enn fremur í hendur við auknar kröfur neytenda um rekjanleika og hreinleika vara sem og heimsmarkmiðið um sjálfbærni. „Flest fyrirtæki geta framleitt mun meira en er gert í dag. Til dæmis er hægt að rækta mun meira af grænmeti hér heima og minnka innflutning á móti. Þá önnum við vel eftirspurn Íslendinga og umfram það. Kjörís framleiðir til dæmis ís fyrir færeyskan markað. Allur útflutningur er gjaldeyrisskapandi og vítamínsprauta inn í rekstur íslenskrar framleiðslu.“