Samkaup opnuðu sína fyrstu lágvöruverðsverslun á netinu undir merkjum Nettó árið 2017. Síðan hefur veltan tífaldast og sölumet verið slegin ótt og títt.

„Þá þegar settum við okkur markmið til fimm ára um vöxt í netverslun og vorum á flottri leið með að ná þeim markmiðum þegar gríðarleg aukning varð í heimsfaraldrinum. Því höfum við nú þegar náð markmiðunum sem við stefndum að árið 2023 og höfum tekið heljarstökk heil þrjú ár fram í tímann,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.

Gunnar Egill segir innviði vegna netverslunar Nettó langt í frá hafa verið í stakk búna til að mæta aukningunni sem varð í netpöntunum þegar kórónaveiran herjaði fyrst á Ísland í marsmánuði 2020.

„Á þeim tíma vorum við að tína til pantanir í verslunum og keyra þaðan út vörur til viðskiptavina, en önnuðum ekki eftirspurn með því fyrirkomulagi. Við fluttum því afgreiðslu heimsendra pantana úr verslununum yfir í miðlægt vöruhús, sem jók sveigjanleika og gerði okkur kleift að stórauka fjölda pantana frá því sem var, ásamt því að draga verulega úr biðtíma viðskiptavina.“

Á línuritinu sést hvernig kóróna­veiru­faraldurinn hefur breytt kauphegðun fólks í netverslunum.

Samkaup hafa sett sér ný og metnaðarfull markmið til ársins 2025. Gunnari Agli þykir spennandi að leiða hugann að þróun netverslunar með dagvöru næstu fimm til tíu árin. Hann telur veirufaraldurinn hafa skapað verulega breytingu á kauphegðun fólks og þykir ólíklegt að hún fari aftur í fyrra horf, eins og sjá má á línuritinu hér á síðunni.

„Löndin í kringum okkur spá því að 10 til 25 prósent matvörusölu verði komin á netið árið 2030 og þar held ég að Íslendingar verði engir eftirbátar,“ segir Gunnar.

Árið 2020 hafi skrifað sig í sögubækurnar sem stökkpallur netverslunar með mat og sérvörur.

„Ef skoðuð er greining Rannsóknarseturs verslunarinnar fyrir árið 2020 sést að ýmiss konar sérvörusala stendur fyrir um 80 prósentum af veltu á netinu. Samkaup eru með sterkt sölunet um allt land og víða er framboð af vörum takmarkað. Þar getum við nefnt allt frá ilmvötnum yfir í sófasett, og þar liggja mikil tækifæri fyrir okkur.“

Hallur Geir Heiðarsson, rekstarstjóri Nettó sem hefur náð að tífalda veltu netverslunar Nettó á innan við þremur árum. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Sölumet toppuð aftur og aftur

Nýverið kom út skýrsla McKinsey & Company um stöðu evrópsks matvörumarkaðar. Þar sjást greinilega breytingar sem nú eiga sér stað þegar horft er til mats stjórnenda sem og væntinga viðskiptavina.

„Á komandi árum er því meðal annars spáð að netverslun verði viðtekin venja hjá stórum hópi neytenda, ásamt breyttum neysluvenjum í átt að heilsusamlegri lífsstíl,“ upplýsir Hallur Geir Heiðarsson, rekstrarstjóri Nettó, sem hefur náð því markmiði að tífalda veltu netverslunar Nettó á innan við þremur árum.

„Netverslun Nettó er að ná þeirri stærðarhagkvæmni sem hún þarf til að verða arðbær og fyrirtækið býr sig undir að samkeppnin harðni á komandi misserum,“ segir Hallur.

Hann hefur séð stöðugan vöxt frá því netverslun Nettó fór í loftið.

„Síðustu mánuði höfum við toppað sölumetin ótt og títt. Á sama tíma höfum við vísvitandi reynt að stjórna vextinum til að passa upp á gæðin og forðast of mörg mistök. Allir sem verslað hafa á netinu vita að ekki þarf mikið til að fæla viðskiptavini frá kaupum og þá er erfitt að ná þeim til baka. Okkur hefur tekist þetta með afbrigðum vel og nú förum við að stíga á bensíngjöfina,“ segir Hallur, fullur eftirvæntingar.

„Það tekur á bilinu þrjú til fimm skipti fyrir fólk að byrja að tileinka sér regluleg innkaup á netinu og við höfum reynt að hanna kerfið þannig að innkaupin séu eins auðveld og mögulegt er. Til dæmis man kerfið hvað keypt var áður og auðveldar viðskiptavinum að velja vörur sem þeir kaupa í hverri viku. Ef þeir vilja svo bæta einhverju við er leitarvélin mjög skilvirk og þægileg í notkun.“

Gunnar Egill Sigurðsson er framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Eftirsóknarverð verslunarstörf

Samkaup leggja áherslu á að auka virði verslunarstarfa til framtíðar.

„Stafræn þróun og sjálfvirknivæðing styður við þá sýn,“ segir Gunnar Egill. „Innleiðing okkar á sjálfsafgreiðslukössum hefur fækkað unnum tímum við afgreiðslu á kassa, en án þess þó að fækka unnum tímum í verslunum okkar. Störfin hafa einfaldlega breyst. Netpantanir hafa þannig fært störf frá hefðbundinni afgreiðslu yfir í afgreiðslu pantana, og með því að auka skilvirkni og sjálfvirkni í pöntunarferlinu, áfyllingum og verðmerkingum, sparast mikill tími sem hægt væri að nýta í meira virðisaukandi þjónustu. Þannig getur starfsfólk einbeitt sér í auknum mæli að sölu og þjónustu við viðskiptavini í verslun. Aukin sjálfvirkni gerir verslunarstörf einfaldlega meira spennandi til framtíðar og leiðir síst til aukins atvinnuleysis. Þvert á móti skapar hún verðmætari störf.“

Undanfarin sextíu ár hafa Samkaup átt í góðu innkaupasambandi við danska verslunarrisann Coop. Nýverið gerðu fyrirtækin með sér stefnumarkandi samstarfssamning á breiðari grundvelli hvað innkaup varðar, og Gunnar Egill sér í því gríðarleg tækifæri.

„Coop er eitt stærsta dagvöruverslunarfyrirtæki Danmerkur. Fyrirtækið veltir um 42 milljörðum danskra króna, sem er þrisvar sinnum meira en velta íslenska dagvörumarkaðarins. Fyrirtækið rekur yfir þúsund verslanir og er með fjörutíu þúsund starfsmenn, þannig að fyrir okkur í Samkaupum, að eiga í samstarfi við svo stórt alþjóðlegt fyrirtæki, felast ákaflega stór tækifæri,“ segir Gunnar.

Hann sér einnig mikil tækifæri fyrir Samkaup í tækniþróun sem nú á sér stað hjá Coop.

„Samstarf okkar nær yfir tæknilausnir og stafræna þróun, innkaup, vöruhúsarekstur og markaðsmál, og getur í raun og veru leitt okkur hvert sem er, jafnvel hvað starfsmannamál varðar, þjálfun og svo framvegis. Það væri sannarlega spennandi fyrir okkar starfsfólk að geta farið í starfsnám til Danmerkur og öfugt, því danskir verslunarstarfsmenn geta líka komið í starfsnám til Íslands, til lengri eða styttri tíma.“

Hallur Geir, Helga Dís og Gunnar Egill við einn af sendibílum AHA sem sjá um útkeyrslu heimsendinga úr netverslun Nettó. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Einfaldlega lúxusvandmál

Sérfræðingar á sviði netverslunar hafa bent á að fá dæmi séu um arðbærar netverslanir en Gunnar Egill svarar því játandi þegar hann er spurður hvort hann sjái fram á að rekstur netverslunar Nettó verði arðbær.

„Það er vel hægt að reka arðbæra netverslun ef viðskiptavinir fást til að sækja vörurnar, en ef netverslun ætlar að bjóða upp á heimsendingar þarf að ná stærðarhagkvæmni sem ég held að við séum að ná núna. Viðskiptavinir greiða fyrir þá þjónustu og við höfum vaxið í góða stærð á flestum okkar afhendingarstöðum.“

Gunnar Egill nefnir þrjú atriði sem hann telur að muni gera Nettó kleift að reka arðbæra netverslun til framtíðar litið.

„Fyrir arðbæran rekstur þarf skilvirkni í tínslu pantana, breitt vöruframboð sem stækkar sendingar og að fjölga afhendingarstöðvum til að viðskiptavinir sæki sendingar sínar eða greiði fyrir þær heim að dyrum.“

Hann segir íslenska markaðinn lítinn og því hafi Samkaup til að byrja með ákveðið að fara þá leið að tína vörur til afhendingar í verslunum fyrirtækisins, í stað þess að reka miðlægt vöruhús.

„Við fundum Aha sem samstarfsaðila og gátum notað tæknigrunn þeirra sem var þegar til staðar frekar en að byggja upp okkar eigin með tilheyrandi fjárfestingu þar sem netverslun með mat var ekki til á þeim tíma,“ segir Gunnar Egill.

„Ég tel að við höfum náð ákveðinni stærðarhagkvæmni en nú er helsta verkefnið að besta tínsluna. Á ákveðnum tímum dags getur myndast mikið álag og þá er meiri hætta á að einhver geri mistök, en ég lít á það sem lúxusvandamál.“

Helga Dís Jakobsdóttir, þjónustu- og upplifunarstjóri Nettó, segir upplifun notenda skipta mestu máli. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Gleðilegar hliðarsögur

Vefverslun er umhverfisvænn valkostur í innkaupum.

„Til að mynda notar Aha, sem keyrir út vörur til viðskiptavina Nettó, rafbíla og á síðasta ári var milljónasti kílómetrinn ekinn í heimkeyrslu. Þá er tímasparnaður sömuleiðis stór kostur fyrir viðskiptavini, sem sést vel í viðhorfskönnunum,“ upplýsir Hallur.Samkvæmt niðurstöðum bandarískra rannsókna ver hver viðskiptavinur um fjörutíu mínútum í netverslunum á fimm daga fresti.

„Eldri borgarar, sem og slasað eða veikt fólk, segir okkur reglulega sögur af því hvernig netverslun Nettó hefur létt því lífið. Það eru ánægjulegar hliðarsögur sem ekki voru í hugmyndafræðinni okkar til að byrja með,“ segir Hallur glaður.

Helga Dís Jakobsdóttir, þjónustu- og upplifunarstjóri Nettó, segir upplifun notenda skipta öllu máli.

„Það eru þættir sem við vinnum hvað mest í núna og okkur er hjartans mál að gera upplifunina að versla á netinu eins góða og mögulegt er. Það snýr fyrst og fremst að gæðum vara og afhendingaröryggi. Einföld og góð heimasíða, með uppskriftum og flýtileiðum, skiptir viðskiptavini okkar miklu máli. Okkar markmið er að það verði eins gott að versla í gegnum netið og það er að koma í verslanir okkar um allt land,“ segir Helga.

Gerðu þér ánægjulega búðarferð í netverslun Nettó á netto.is