„Hátíðarhöldin í Hafnarfirði verða með óhefðbundnu sniði á sjómannadaginn í ár vegna samkomutakmarkana sem enn eru í gildi,“ segir Andri Ómarsson, verkefnastjóri menningar- og markaðsmála hjá Hafnarfjarðarbæ.

„Þrátt fyrir það hvetjum við Hafnfirðinga og gesti þeirra til að gera sér ferð niður að höfn og njóta þess sem höfnin, sem bærinn er kenndur við, hefur upp á að bjóða.“

Hátíðardagskráin lokkar og laðar, eins og hafið.

„Þar má nefna fiskasýningu Hafrannsóknastofnunar sem verður á svæðinu fyrir framan höfuðstöðvarnar á Háabakka. Þar verður hægt að skoða sýnishorn af fiskum og hryggleysingjum, allt frá algengum nytjafiskum eins og þorski og ýsu, til sjaldséðari tegunda eins og tunglfisks og bjúgtanna,“ upplýsir Andri.

Í hlýlegum verslunum og listagalleríum við höfnina verður hægt að nálgast hönnun og handverk hafnfirskra listamanna.

„Vinalegir veitingastaðir og kósí kaffihús í nágrenni hafnfirsku hafnarinnar eru rómuð fyrir gestrisni og góðar veitingar og Litli-ratleikur Hafnarfjarðar leiðir áhugasama um spennandi staði í nágrenni hafnarinnar sem er tilvalið að skoða,“ segir Andri.

Kraftakeppni og kappróður

Það verður sannkallað ævintýri að fagna sjómannadeginum með heimsókn á Flensborgarhöfn.

„Við tökum daginn snemma og drögum fána að húni klukkan átta að morgni sjómannadags á hátíðarsvæði við höfnina. Klukkan tíu leikur Lúðrasveit Hafnarfjarðar við Hrafnistu og blómsveigur verður lagður að minnisvarða um horfna sjómenn við Víðistaðakirkju klukkan 10.30. Klukkan 11 verður sjómannamessa, heiðrun sjómanna og ferming í Fríkirkjunni,“ upplýsir Andri.

Dagskrá við Flensborgarhöfn hefst klukkan 11 með fiskasýningu Hafró á Háabakka og kraftakeppnin Sterkasti maður á Íslandi 2021 hefst á sama tíma á Óseyrarbryggju.

„Þar munu aflraunamenn etja kappi við hrikalegar aflraunir sem byrja með trukkadrætti klukkan 11, þá tekur við drumbalyfta klukkan 13 og blönduð grein klukkan 16,“ segir Andri um ofurspennandi keppnina.

Opið hús verður hjá Siglingaklúbbnum Þyt frá klukkan 13 til 17 og verða kajakar og árabátar tiltækir sem og búningsaðstaða fyrir þá sem blotna. Kappróðrarkeppni verður frá klukkan 13 til 14.

Hátíðarhöldin á sjómannadaginn í Hafnarfirði fara fram á Flensborgarhöfn fyrir framan litríku og fallegu húsin hjá Hafrannsóknastofnun. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Þorri og Þura í Hellisgerði

Hafnfirskir listamenn opna vinnustofur fyrir gestum og gangandi á sjómannadaginn, eins og verslanir og veitingastaðir.

„Þar má nefna opið hús í brúðarkjólabúðinni Loforði, Sign, Gáru handverki og sýningarlok hjá málaranum við höfnina, Soffíu Sæmundsdóttur. Þá verður opið hús í Íshúsi Hafnarfjarðar sem samanstendur af þrjátíu verkstæðum og vinnustofum einyrkja og minni fyrirtækja í skapandi greinum. Flóran er afar fjölbreytt og meðal annars er í húsinu stunduð keramíkhönnun, myndlist, vöru- og textílhönnun, ritlist, tréskipasmíði og gullsmíði,“ lýsir Andri.

Kaffihlaðborð Kænunnar verður á sínum stað með dýrindis brauðtertum og tilheyrandi, frá klukkan 13 til 17. Þá verður fjölskylduviðburðurinn Þorri og Þura í Hellisgerði frá klukkan 14 til 15.30, og Margrét Arnardóttir harmonikkuleikari og Gunnella Hólmarsdóttir leikkona flytja þjóðlega tóna víðs vegar um bæinn.

„Í sex húsum Byggðasafns Hafnarfjarðar ber margt fróðlegt og forvitnilegt fyrir augu, og nýrri ljósmyndasýningu hefur verið komið fyrir á Strandstígnum um Bæjarútgerð Hafnarfjarðar. Á sýningunni „Þannig var ...“ í Pakkhúsinu á Vesturgötu 6 er saga sjávarþorpsins Hafnarfjarðar rakin frá landnámi til okkar daga, og í Bookless Bungalow á Vesturgötu 32 er sýning um tímabil erlendu útgerðanna á fyrri hluta 20. aldar á heimili Bookless-bræðra,“ útskýrir Andri þar sem hann skoðar sig um í Siggubæ á Kirkjuvegi 10.

„Siggubær er varðveittur sem sýnishorn af heimili sjómanna í Hafnarfirði frá fyrri hluta 20. aldar. Þar er hægt að upplifa og kynnast því hvernig alþýðufólk í bænum bjó á þeim tíma.“

Dagskrá getur breyst án fyrirvara og viðburðir bæst við eða frestast. Gestir eru beðnir um að virða fjöldatakmörk á viðburðasvæðum, tveggja metra nálægðarmörk, huga að einstaklingsbundnum smitvörnum og nota andlitsgrímur þegar við á. Sjá nánar á hafnarfjordur.is