Ölgerðin er 109 ára framsýnt fyrirtæki í stöðugri þróun og vexti. Hún stefnir á markað í júní og hefur sett sér það metnaðarfulla markmið að starfsánægja mælist 85 prósent eða hærri.

„Ölgerðin Egill Skallagrímsson var stofnuð af ungum sveitamanni, Tómasi Tómassyni, í kjallara Þórshamars við Templarasund í miðbæ Reykjavíkur í apríl 1913 og var fyrirtækið upphaflega í tveimur herbergjum í kjallara hússins sem Alþingi á í dag. Þar hóf Tómas að framleiða og selja Malt í gleri og Hvítöl, ásamt fleiri drykkjum, með örfáa starfsmenn, en vörurnar slógu í gegn og fyrirtækið óx hratt í framhaldinu,“ upplýsir Heiðdís Björnsdóttir um tilurð Ölgerðarinnar sem orðin er 109 ára. Heiðdís er annar tveggja mannauðsstjóra hjá Ölgerðinni; hinn er Jóhanna Laufdal Friðriksdóttir.

En hvernig vinnustaður ætli Ölgerðin hafi verið í árdaga og skyldi hafa verið hugsað út í mannauðsmál fyrir meira en öld síðan?

„Tómas þótti góður og sanngjarn yfirmaður sem hugsaði vel um starfsfólk fyrirtækisins og lagði þannig hornstein að mikilvægi mannauðsmála innan Ölgerðarinnar. Hvort sem allir hafa áttað sig á því eða ekki, hefur eitt af einkennismerkjum fyrirtækisins frá stofnun verið að mikið sé lagt upp úr því að Ölgerðin sé góður vinnustaður, samkeppnishæfur og að ánægður starfsmaður sé góður starfsmaður,“ svarar Heiðdís.

Eins og ein stór fjölskylda

Hjá Ölgerðinni starfa um 400 starfsmenn í mjög fjölbreyttum störfum.

„Við mannauðsstjórar Ölgerðarinnar stýrum sameiginlega mannauðsmálum hjá fyrirtækinu, höfum ábyrgðarskiptingu okkar á milli og skiptum við með okkur sviðum og deildum. Fyrirkomulagið virkar mjög vel fyrir fyrirtækið og starfsfólk þess. Stjórnendur og starfsfólk geta leitað til okkar beggja með öll sín mál, og við höfum hvor aðra til að leita til, bæði til að ræða erfið málefni sem koma upp og spegla okkur í viðfangsefnum sem við tökumst á við hverju sinni,“ útskýrir Jóhanna.

Hún segir Ölgerðina fjölbreyttan og skemmtilegan vinnustað, en þess má geta að Ölgerðin og Danól, dótturfyrirtæki Ölgerðarinnar, hlutu á fimmtudaginn, 19. maí, nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki VR árið 2022.

„Það sem einkennir Ölgerðina er sterk liðsheild og hátt orkustig. Hjá Ölgerðinni starfar fjölbreyttur hópur fólks með ólíkan bakgrunn og sem hefur mikinn metnað fyrir starfi sínu. Starfsandinn einkennist af stolti og virðingu gagnvart samstarfsfólkinu og fyrir hvað fyrirtækið stendur. Við lifum gildin okkar sem eru jákvæðni, áreiðanleiki, hagkvæmni og framsækni, og þó svo að vinnustaðurinn sé stór þá erum við eins og ein stór fjölskylda og tölum oft um að Ölgerðarhjartað slái,“ segir Jóhanna.

„Ölgerðin hefur alltaf haldið vel utan um starfsfólk sitt og er með skýra stefnu og markmið sem allir eru samstiga um að vinna að. Við sjáum og heyrum að starfsfólkið er ánægt. Lykilþættir þar eru til að mynda fólkið okkar, liðsheildin og orkustigið. Hinn dæmigerði starfsmaður er í vinnunni í átta klukkustundir á dag og það á að vera gaman í vinnunni. Við leggjum mikla áherslu á að vera dugleg að gera okkur dagamun, hvort sem það er á vegum starfsmannafélagsins eða Ölgerðarinnar. Við klöppum okkur á bakið fyrir það sem er vel gert og eru stjórnendur duglegir að sýna þakklæti í orðum og verkum,“ greinir Jóhanna frá.

Öðruvísi væntingar í dag

Óhætt er að segja að mannauðsstjórn hafi breytt vinnumenningu íslenskra vinnustaða.

„Með mannauðsstjórnun kom aukin áhersla á aðbúnað starfsfólks, menningu, fræðslumál og starfsánægju. Vinnustaðir voru, og eru enn, misjafnir og um áratugaskeið álitu margir að starfsmannastjórnun snerist eingöngu um kjaramál og laun, en ekki endilega þarfir starfsfólksins. Breytt hugarfar á sviði mannauðsstjórnunar leiddi svo til aukinnar starfsánægju og slíkt skapar eftirsóttari vinnustaði sem laða að sér gott og hæft fólk. Stjórnendur eru nú farnir að gera sér grein fyrir því að með ánægðu starfsfólki nái fyrirtæki frekar þeim markmiðum sem þau ætla sér. Kynslóðir sem í dag eru að koma inn á vinnumarkaðinn gera því öðruvísi væntingar en fyrri kynslóðir og hafa sterkar skoðanir á því hvernig hlutirnir eru gerðir,“ greinir Heiðdís frá.

Í mannauðsmálum Ölgerðarinnar hafa helstu áherslur verið á fjölbreytileika, starfsánægju og jafnrétti á öllum sviðum.

„Við höfum lagt áherslu á að allir séu meðvitaðir um að starfsfólkið er okkar stærsta auðlind og teljum að með fjölbreyttum og ánægðum hópi fólks náum við betri árangri sem fyrirtæki. Við viljum að Ölgerðin sé vinnustaður fyrir alla og að við getum tekið á öllum þeim áskorunum sem fylgja fjölbreytileikanum,“ segir Heiðdís og heldur áfram:

„Við teljum jafnframt mikilvægt að vera til staðar og hlúa vel að starfsfólki og stjórnendum, sérstaklega eftir Covid-19. Við finnum að stjórnendur leita í meira mæli til okkar, bæði til að spegla sig og ræða málin. Síðustu tvö ár hafa verið mörgum þung.“

Eftirsóttasti vinnustaðurinn

Ölgerðin hefur nú sett sér það metnaðarfulla markmið að starfsánægja mælist 85 prósent eða hærra.

„Við vitum vel að við getum náð slíku markmiði. Fjórum sinnum á ári gerum við púlsmælingar og var afar ánægjulegt að sjá að meðaltalið á síðasta ári reyndist yfir markmiðinu, eða 86,2 prósent. Síðasta mæling sem við gerðum var í mars og þar mældist starfsánægjan 91 prósent, sem er ótrúlega ánægjulegur árangur og sýnir okkur að hér er bæði gott og gaman að starfa. Það leiðir til betri starfsanda og enn betri vinnustaðar,“ segir Jóhanna.

Á næstu fjórum árum verður lögð áhersla á fjölbreytileika sem eitt af fjórum lykilmarkmiðum Ölgerðarinnar, sem eru vöxtur, stafræn þróun, sjálfbærni og fjölbreytileiki.

„Við höfum gildi Ölgerðarinnar hugföst í öllu sem við gerum og þau eru vegvísir okkar til ársins 2024. Fjórða markmiðið, fjölbreytileiki, er ótrúlega mikilvægt atriði. Það liggur fyrir að fjölbreytni á vinnustað er gríðarlegur styrkleiki. Fjölbreytni nær til svo margra þátta; þar með fjölbreytni í vinnu, vinnuumhverfi, starfsfólki og svo mætti áfram telja. Sem starfsmenn tökum við tillit hvert til annars, virðum hvert annað, tölum saman, upplýsum hvert annað og gætum jafnræðis. Við gætum þess líka að allir hafi aðgang að sömu upplýsingum og sendum meðal annars allt efni frá okkur út til starfsfólksins bæði á íslensku og ensku,“ upplýsir Jóhanna.

Heiðdís bætir því við að fjölbreyttur hópur starfsfólks hafi fleiri sjónarhorn og hugmyndir, eigi auðveldara með að greina þarfir viðskiptavina og aðlaga þjónustu fyrirtækisins að þeim.

„Við leggjum áherslu á að laða til okkar starfsfólk með mismunandi viðhorf, ólíkan bakgrunn, af mismunandi kyni og á öllum aldri. Við höfum enn fremur breytt öllu orðalagi í starfsauglýsingum þannig að þær nái til allra kynja. Með fjölbreytileikanum náum við betri árangri og sköpum eftirsóttari vinnustað. Í dag er helsta áskorun atvinnulífsins að manna stöður og fyrirsjáanlega er skortur á vinnuafli. Við verðum því að skara fram úr og skapa eftirsóttasta vinnustað landsins, og við trúum því að með þessum fjórum áherslum séum við einmitt að því,“ segir Heiðdís.

Ölgerðin er á Grjóthálsi 7. Sími 412 8000. Netfang: olgerdin@olgerdin. Sjá nánar á olgerdin.is