Það er alltaf rífandi stemning í Melabúðinni í kringum þorrann. „Við erum með kjötborð þar sem við seljum þorramatinn í lausu. Viðskiptavinir koma þá og velja það sem þeir vilja hafa í þorratroginu sínu. Við sjóðum svið og slátur allan daginn og það verður eflaust mikið fjör hjá mörgum á bóndadaginn, sem er einmitt í dag,“ segir Pétur Alan Guðmundsson, einn eigandi Melabúðarinnar.

Hvað er til af þorramat í kjötborðinu?

„Í kjötborðinu erum við með súra hrútspunga, lundabagga, bringur, sviðasultu, grísasultu, hvalrengi og hákarl. Í nýmeti er sviðasulta, svið, blóðmör, lifrarpylsa og grísasulta og magáll. Nýsoðin alvöru svið og slátur frá Fjallalambi er í boði hjá okkur alla daga. Svo er náttúrulega rófustappa og kartöflumús, rúgbrauð, flatkökur og hangikjöt, einnig úrval af harðfiski, pilsner og allt tilheyrandi. Þorramaturinn kemur bæði frá stóru framleiðendunum og mörgum litlum víða um land. Hákarlinn er til dæmis handskorinn gæðahákarl frá Hafurð á Blönduósi, hvalrengið frá Hval og svo mætti áfram telja. Það má segja að við séum með brot af þessu allra besta,“ segir Pétur.

Úrvalið er með því besta og fæst sviðasultan bæði súr og ekki súr, nýsoðið slátur og margt fleira í kjötborðinu.

Tískustraumar í mysunni

Þorramaturinn segir Pétur að sé í eðli sínu klassískur og hefðbundinn. „En það koma þó inn nýjar vörur á meðan aðrir bitar falla í vinsældum. Til dæmis erum við ekki lengur að selja selshreifana. Þá vill fólk fá sýrt hvalrengi úr langreyði frekar en sýrt hrefnurengi. Það koma tískubylgjur í þessum mat eins og öðrum mat, en þetta helsta er alltaf eins. Sjálfur er ég mjög hrifinn af þorramatnum og finnst þetta sýrða og hákarlinn alveg ómissandi. Margir kalla nýmeti eins og sviðasultu og hangikjöt þorramat en þorramatur fyrir mér verður eiginlega að vera súr að upplagi. Langhrifnastur er ég af lundabagganum.

Við erum með allt þetta helsta og vinsælasta sem fólk vill fá á þorranum. Sumir vilja meira af einhverju ákveðnu og minna eða ekkert af öðru. Það hentar því flestum afar vel að geta bent á og valið sína uppáhaldsbita í kjötborðinu.“

Þorramaturinn til allt árið

„Nú eru orðnar tvær vikur síðan þetta kom í kjötborðið til okkar og fólk hefur verið að koma og kaupa sér smakk af hinu og þessu. Svo kemur það aftur og kaupir meira. Sumir eru með fötur af mysu heima hjá sér, sem við seljum auðvitað einnig, til að geyma matinn í. Fólk er eitthvað í því að koma snemma og kaupa fyrir tilefni eins og bóndadaginn, bæði til að eiga og vera viss um að allt sé til þegar að stóra deginum kemur.

Þorramaturinn er í kjötborðinu hjá okkur þar til konudagurinn rennur upp. En það er í raun alltaf hægt að nálgast þorramatinn hjá okkur í Melabúðinni, enda reynum við að vera með flest af þessu í sölu allt árið um kring. Við erum með tunnur af mysu baka til þar sem við geymum ýmislegt góðgæti og viðskiptavinir geta spurt um hvort til sé. Við eigum það til að bjóða túristum upp á smá íslenskt smakk ef svo má segja, gefa þeim hrútspunga, hákarl og sviðasultu, og eftir það sýnum við þeim heitu sviðin og útskýrum fyrir þeim að það sé hráefnið í sviðasultunni sem þau voru að borða.“

Pétur segir að súrmaturinn sé ómissandi á þorranum. Hér má sjá dýrindis hvalrengi, lundabagga og súra hrútspunga.

Súrt eða nýtt kviðsvið?

Pétur segir að þau í Melabúðinni hafi boðið upp á þorramatinn alla tíð. „Alveg frá því pabbi tók við búðinni á sínum tíma eftir að hafa rekið Kjörbúð Vesturbæjar. Þetta er hreinræktað fjölskyldufyrirtæki og í dag rekum við bræðurnir Melabúðina, Snorri og ég.

Maður man nú þegar fínu frúrnar voru að koma í Melabúðina að kaupa í þorratrogið. Þegar kom að hrútspungunum áttu þær stundum erfitt með að segja orðið, og báðu því í staðinn um „millifótakonfekt“ eða „kviðsvið“. Þá spurði maður bara hvort þær vildu fá það súrt eða nýtt,“ segir Pétur og skellir upp úr.

Þorrabúbblan í stað stórra blóta

Pétur segist taka eftir að faraldurinn hafi gert það að verkum að fólk er ekki lengur að fara á eða halda þessi stóru blót eins og var áður. „Í stað þess eru fjölskyldurnar og vinir að hittast heima og borða þorramatinn saman og fá stemninguna þannig. Þetta er hin svokallaða þorrabúbbla. Við sjáum að fólk er í meira mæli farið að versla við okkur þar sem maturinn fæst í stykkjatali að eigin vali.

Við höfum einnig verið að senda þorramat sem og annan íslenskan mat úr landi til Íslendinga sem búsettir eru erlendis. Núna um daginn var ég að senda pakka af þorramat til Bretlands með DHL. Þetta er ekki algengt en það er alltaf eitthvað um þetta,“ segir Pétur og bætir við: „Það er ekkert mál að senda þorramatinn á milli landa því þetta er jú allt verkað.“

Þorramaturinn í Melabúðinni er herramanns- og hefðarfrúarmatur.

En verður skreytt eitthvað fyrir bóndadaginn?

„Við erum ekki beint að skreyta fyrir þorrann, en þorrinn er þó allsráðandi í Melabúðinni í þessum mánuði. Við drögum fram þennan hefðbundna þorramat og höfum sýnilegan hér í búðinni. Annars er stemningin einfaldlega skreytingin,“ bætir hann við.

Melabúðin er að Hagamel 39. Sími: 551-0224. Sjá nánar á melabudin.is. og fésbókarsíðu Melabúðarinnar.