Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, hefur verið forstjóri fyrirtækisins síðan árið 1996 og leitt félagið í gegnum gríðarlegan vöxt, frá því að það var einnar vöru fyrirtæki yfir í að vera leiðandi fyrirtæki á heimsvísu í heilbrigðistækniiðnaði.

„Ég hef verið forstjóri í 25 ár núna, ég byrjaði 1. apríl 1996. Ég held að á þeim tíma hafi ég verið starfsmaður númer 40, en núna erum við orðin um 3.500 um allan heim,“ segir Jón. „Kveikjan að fyrirtækinu kom frá Össuri Kristinssyni, sem kom heim sem nýútskrifaður stoðtækjafræðingur og stofnaði vinnustofu til að sinna aflimuðum á Íslandi, í samvinnu við Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra. En það má ekki gleyma að í dag er þetta bara að litlum hluta gamli Össur, þar sem við höfum keypt fleiri en 50 fyrirtæki í gegnum árin.“

Þáttaskil um aldamótin

„Össur þróaði silíkonhulsu sem er notuð í stoðtæki og var það fyrsta vara fyrirtækisins og sú uppgötvun sem kom fyrirtækinu á kortið. Þegar ég kom inn í reksturinn var fyrirtækið ekki með margar vörur né víðtæka dreifingu og enga sölustarfsemi.

Það breyttist árið 2000 þegar við keyptum bandaríska fyrirtækið Flex-Foot, sem var þónokkuð stærra á þeim tíma. Í gegnum Flex-Foot fengum við fleiri vörur og sölukerfi í Bandaríkjunum,“ útskýrir Jón. „Það var byrjunin á þessari miklu stækkun og aðal þáttaskilin í sögu fyrirtækisins.

Jón segir að það hafi orðið þáttaskil í sögu fyrirtækisins árið 2000 þegar það keypti bandaríska fyrirtækið Flex-Foot. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Síðan höfum við keypt sirka 2-3 fyrirtæki á ári og það hefur verið góður vöxtur í fyrirtækinu, 18% á ári, sem er bæði vegna innri vaxtar og vegna kaupa á fyrirtækjum. Í dag erum við með heildstæða vörulínu – allt frá silíkonhulsum, í gervihné, gervifætur- og hendur, auk fjölda stuðningsvara,“ segir Jón.

Eitt af tveimur stærstu í heimi

Jón segir að Össur hafi komist í leiðandi stöðu í heilbrigðistækniiðnaði á árunum rétt fyrir hrun.

„Það er engin ákveðin dagsetning, en á árunum 2005-2007 vorum við komin mjög langt á þessu sviði. Núna eru tvö fyrirtæki sem eru langstærst í þessum geira og við erum annað þeirra,“ segir hann.

„Okkar aðalsmerki hefur verið þróun og tækniuppfærsla á okkar vörum og til þess að geta það þurfum við mjög mikla stærð,“ segir Jón. „Þar sem við erum komin í þessa sterku stöðu getum við staðið undir gríðarlega kostnaðarsamri og umfangsmikilli þróun, sem er ekki á færi minni fyrirtækja. Þess vegna eiga minni fyrirtæki sífellt erfiðara með að fylgja okkur í þessari tækniþróun.“

Gera það sem þau kunna

„Við höfum alltaf fylgt meginstefnu okkar. Við erum fyrstu útrásarvíkingarnir en við höfum alltaf verið innan þess geira sem við þekkjum best og öll þessi fyrirtæki sem við höfum keypt hafa verið innan þess geira,“ segir Jón. „Þegar við kaupum fyrirtæki þá erum við það fyrirtæki sem er tilbúið til að borga mest fyrir það og þá verðum við líka að vera besta fyrirtæki í heimi til að reka það.

Ég held að þessi stefnufesta hafi skilað miklum árangri. Við höfum markað okkur ákveðna stefnu frá árinu 1999 og alltaf fylgt henni,“ segir Jón.

Össur var skráð á almennan hlutabréfamarkað í Kauphöll Íslands árið 1999 og frá 2009 í Kauphöll NASDAQ í Kaupmannahöfn.

Tvöföldun á þriggja ára fresti

„Við höfum líka lagt mikla áherslu á fyrirtækjamenningu, sem ég held að sé vanmetið. Það er ákveðin menning innan Össurar sem við skilgreindum mjög fljótt og höfum haldið okkur við. Þessi menning byggist á þremur gildum: hagsýni, heiðarleika og hugrekki. Þetta eru H-in þrjú,“ útskýrir Jón. „Hagsýni snýst um sparsemi, að við eyðum ekki í óþarfa, og við erum heiðarleg í öllu sem við gerum og lofum aldrei hlutum sem við getum ekki staðið við.

Svo þurfum við að hafa mjög mikið hugrekki til að ráðast í allar þessar gríðarlegu breytingar sem fylgja því að fyrirtækið tvöfaldast að stærð á þriðja hverju ári. Það þarf hugrekki til að gera hluti öðruvísi og fyrirtækið er allt öðruvísi núna en fyrir þremur árum,“ segir Jón. „Fyrir vikið er mjög mikilvægt að tapa ekki þessum grundvallargildum, þau mega ekki breytast.

Þessi menning og gildi hafa hjálpað okkur í gegnum ýmsa erfiðleika, eins og t.d. COVID-faraldurinn. Við höfum nánast engu breytt í okkar stefnu í gegnum þessa erfiðleika, heldur bara stutt við okkar viðskiptavini og starfsfólk og verið trú því sem við lögðum upp með,“ segir Jón.

Stoltastur af menningunni

Jón segir að það sem hann sé stoltastur af eftir öll þessi ár sem forstjóri sé þessi fyrirtækjamenning og hún sé stór þáttur í velgengninni og ánægju viðskiptavina og starfsfólks Össurar.

„Allar þær mælingar sem við framkvæmum sýna að það er mikil almenn ánægja meðal viðskiptavina og starfsfólks okkar og ég held að þessi menning eigi stóran þátt í því,“ segir Jón.

Jón segir að það sem er fram undan hjá Össuri sé fyrst og fremst að huga vel að nýsköpun, þörfum viðskiptavina og góðum starfsanda. „Við erum gríðarlega stolt af 50 ára sögu Össurar og mig langar sérstaklega að þakka starfsfólkinu, viðskiptavinum og öllum velunnurum félagsins í gegnum árin,“ segir hann að lokum.