Bændasamtök Íslands eru leiðandi afl í upplýstri umræðu um landbúnað og vilja tryggja framsækni og framþróun innan atvinnugreinarinnar með þekkingu, þróun og rannsóknum.

„Breytingar krefjast hugrekkis, þekkingar, staðfestu, lipurðar og skipulags. Þær krefjast einnig virðingar og skilnings á því sem gert hefur verið áður og því sem gert hefur verið vel,“ segir Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.

Hún segir samtökin standa á tímamótum.

„Við stefnum áfram ótrauð að einföldun á umfangsmiklu félagskerfi bænda, með það að markmiði að öðlast aukinn slagkraft innan samtakanna, auka skilvirkni, efla samráð og ná fram betri sérhæfingu starfsfólks.“

Mikilvægt að tryggja fæðuöryggi

Bændasamtökin ætla sér að auka sýnileika og ásýnd landbúnaðarins með fræðslu og vera leiðandi afl í upplýstri umræðu um landbúnað.

„Styrkleiki íslensks landbúnaðar og íslenskrar matvælaframleiðslu felst í gæðunum og tækifærunum sem liggja í því að geta framleitt búvörur við góð skilyrði. Hér á landi getum við státað okkur af því að framleiða hreinar vörur og er keppikefli allra sem starfa innan greinarinnar að framleiða gæðavörur. Eftirlit með matvælaframleiðslu er öflugt hér á landi og á Íslandi er í gildi mjög framsækin löggjöf um aðbúnað og velferð dýra,“ upplýsir Vigdís.

Ísland sé matvælaframleiðsluland þar sem framleiðslan byggir á landbúnaði, fiskveiðum og fiskeldi. Landbúnaðarframleiðslan skiptist í garðyrkju (grænmeti), jarðrækt (fóður og olíu) og búfjárrækt (kjöt, mjólk og egg).

„Vandi okkar er þó sá að framleiðslan er mjög háð innfluttum aðföngum, sérstaklega eldsneyti og áburði. Til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar þurfa stjórnvöld að skapa hér umhverfi sem tryggir að rekstrargrundvöllur sé til staðar fyrir matvælaframleiðendur,“ segir Vigdís.

Efla tengingu við grasrótina

Til viðbótar blasa nýjar áskoranir við matvælaframleiðendum, þar sem framleiðendur þurfa að bregðast við aukinni eftirspurn og breyttum umhverfisþáttum. Af því tilefni hafa Bændasamtökin hafið vinnu við kynningarherferð sem er ætlað að sýna fram á sérstöðu íslenskrar framleiðslu með gæðavitund og umhverfismál í huga.

„Við stefnum á að efla rannsóknir, nýsköpun og menntun á sviði landbúnaðar í samstarfi við menntastofnanir, MAST og MATÍS og fá til liðs við okkur nýja félagsmenn sem eru framarlega á sviði nýsköpunar og hátækni í landbúnaði og matvælaframleiðslu. Þannig náum við að efla tengingu við grasrótina, auka fjölbreytni matvælaframleiðenda og þétta raðir og tengsl bænda og þeirra sem stunda matvælaframleiðslu. Bændasamtök Íslands vilja tryggja framsækni og framþróun innan atvinnugreinarinnar,“ segir Vigdís.

Bændasamtök Íslands eru í Bændahöllinni, Hótel Sögu, Hagatorgi 1. Sími 563 0300. Nánar á bondi.is