Af því tilefni hefur Opni háskólinn í HR þróað sveigjanlegar, stafrænar fræðslulausnir sem er annars vegar ætlað að auka sérfræðikunnáttu og hins vegar að efla stjórnunar- og leiðtogafærni. Lausnirnar eru aðgengilegar gegnum fræðslukerfi ört stækkandi hóps viðskiptavina Opna háskólans í HR.

„Rétt fyrir Covid vorum við farin að átta okkur á því að það væri nauðsynlegt fyrir fólk að hafa aðgang að góðu, stafrænu fræðsluefni á íslensku, um þá færniþætti sem taldir eru nauðsynlegir fyrir íslenskt atvinnulíf.

Stafrænu fræðsluefni er oftast ekki ætlað að koma í staðinn fyrir staðnám í okkar tilviki heldur er það viðbót, til dæmis til þess að undirbúa fólk betur til þátttöku í vinnustofum eða í hefðbundnu námi í kennslustofu.

Námsefnið er hannað sérstaklega til þess að fólk geti farið gegnum það á eigin tíma, stað og hraða – og jafnvel á eigin vegum, óháð vinnustöðunum. Þetta tengist gríðarlegri eftirspurn eftir fjölbreyttari fræðsluaðferðum og kannski óhefðbundnum frá því sem við erum vön.

Mikilvægt er að framleiða í þessu skyni gæðaefni sem er kennslufræðilega rétt uppbyggt og hentugt fyrir fræðslukerfi fyrirtækja. Í þessu verkefni hefur fólkið okkar náð miklum árangri á skömmum tíma,“ segir Kristinn Hjálmarsson, þróunarstjóri Opna háskólans í HR.

Ögrandi verkefni

Kristinn segir að þetta hafi í upphafi verið spennandi og ögrandi nýsköpunarverkefni. „Við höfum á skömmum tíma komið okkur upp víðtækri tækniþekkingu og frábær hópur sérfræðinga hefur komið verkefninu í háan gæðaflokk. Háskólaumhverfið er kjörið fyrir þróun og framleiðslu á fræðsluefni þar sem við erum í náinni samvinnu við færustu sérfræðinga. Það er enn fremur lærdómsríkt að hafa hnökralaust aðgengi að fólki sem er að kenna alla daga og hefur jafnvel hlotið verðlaun fyrir kennsluaðferðir sínar.“

Mikilvæg mannauðsmál

„Fræðsla og þjálfun eru mikilvæg mannauðsmál og til þess ætluð að auðvelda mannauðnum að verða sér úti um þekkingu. Störf eru að þróast gríðarlega hratt með aðsteðjandi tæknibyltingum og öðrum samfélagsbreytingum og nauðsynlegt fyrir fólk að geta hratt og örugglega tileinkað sér nýja þekkingu. Það er einfaldlega miklu fljótlegra að gera það þegar efnið er stafrænt, eins og raunin er í nýjustu fræðslukerfum vinnustaða, heldur en að koma á staðinn og átta sig kannski á því að viðkomandi vantar einhvern grunn eða að eitthvert tiltekið nám er of auðvelt,“ segir Helgi Héðinsson, forstöðumaður Opna háskólans í HR.

Lausnir fyrir þriðja aðila

„Opni háskólinn í HR nýtir eigin þekkingu og aðgengilega kunnáttu sérfræðinga Háskólans í Reykjavík til þess að búa til fræðslulausnir og svokallaðar „on-boarding“-lausnir fyrir þriðja aðila, sem eru þá annaðhvort hýstar í fræðslukerfi okkar eða í fræðslukerfum viðskiptavina. Við erum komin með fjölbreyttan hóp viðskiptavina á þessu sviði og má þar nefna Sveitarfélagaskólann fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga, LS Retail Academy fyrir LS Retail á alþjóðavísu, Fjármálalæsi í samvinnu við Samtök fjármálafyrirtækja og örnámskeið um stafræna hæfniþætti í samvinnu við Stafræna hæfniklasann,“ segir Helgi að lokum.