Stafrænt forskot er bæði kennsluefni á netinu á forskot.nmi.is og vinnustofur sem settar voru upp víðs vegar um landið. Þetta er í raun og veru kennsla í markaðssetningu á netinu og nýtingu samfélagsmiðla auk aðstoðar við stefnumótun í markaðsmálum. Þetta hentar öllum litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem vilja nýta samfélagsmiðla, leitarvélabestun eða stafrænar lausnir í bókunum, verslun eða þjónustu,“ segir Hulda Birna.

Fyrstu vinnustofurnar voru haldnar í febrúar 2019 á nokkrum stöðum á landinu. Nú hefur það verið fært yfir á netið vegna ástandsins í þjóðfélaginu. Hulda segir að eftirspurnin hafi frá upphafi verið mikil. „Fulltrúar frá um 140 fyrirtækjum og stofnunum hafa setið vinnustofurnar og við erum enn að vinna með mörgum þeirra í áframhaldandi leiðsögn. Eftir svona vinnustofur hafa fyrirtækin betri yfirsýn yfir markmið og stefnu í markaðsmálum.Við höfum einnig nýtt þetta kennsluefni á öðrum námskeiðum sem Nýsköpunarmiðstöð hefur haldið fyrir frumkvöðla, Frumkvæði, sem er úrræði fyrir fólk í atvinnuleit sem vill stofna eigið fyrirtæki og einnig á Brautargengi sem er námskeið fyrir konur sem vinna að eigin viðskiptahugmynd. Það er nauðsynlegt og þarft að miðla þessari þekkingu, nú á tímum stafrænnar þróunar.“

Þegar Hulda er spurð út á hvað vinnustofurnar gangi, svarar hún: „Við greinum hvaða samfélagsmiðlar henta hverju fyrirtæki með tilliti til markhóps þess. Það eru til yfir 200 samfélagsmiðlar og nauðsynlegt að staðsetja sig rétt. Einnig ákveða hvaða stefnu fyrirtækið eigi að taka og hvort þetta séu miðlar sem henta ímynd þess.

Fyrirtæki vita í kjölfarið hvað þau vilja gera og á forskot.nm.is hafa ráðgjafar skráð sig eða fyrirtæki, til þess að veita þjónustu í áframhaldandi skrefum. Margir hafa spurt sig hvort þeir eigi yfirhöfuð erindi inn á þessa miðla, til dæmis stofnanir. Ég svara því játandi að allar stofnanir ættu að vera á samfélagsmiðlum, því það er auðvelt að nálgast markhópinn á miðlunum.Við förum í gegnum ýmislegt eins og efnisgerð, hvernig tíminn nýtist sem best og skoðum þær leiðir sem auðvelda fyrirtækjum að koma frá sér efni. Loks er farið yfir það hvernig miðlarnir virka,“ segir Hulda og bætir við að þeir sem sæki vinnustofur efli sjálfstraustið í notkun samfélagsmiðla.

„Með því að fá tilsögn og kennslu öðlast fólk gott veganesti til að prófa sig áfram og auka sýnileika fyrirtækja sinna.Stafrænt forskot er ókeypis núna í apríl og maí og fer fram á netinu. Kennt er í litlum hópum. Best er að skrá sig á forskot.nmi.‌is en þar er einnig stafrænt próf sem sýnir hvar fólk stendur.

Allt kennsluefni er fengið hjá Buisness Gateway og hefur verið þýtt og staðfært yfir á íslensku auk þess að vera uppfært reglulega.“ Stafrænt forskot er styrkt af samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti í gegnum byggðaáætlun.