Controlant er brautryðjandi á sínu sviði. „Við þróum og framleiðum hug- og vélbúnað sem mælir meðal annars raka, hitastig og staðsetningu ásamt því að senda frá sér rauntímaupplýsingar sem hægt er að fylgjast með til að tryggja gæði á viðkvæmum vörum bæði í flutningi og geymslu. Með þessari tækni gefum við einnig framleiðendum lyfja og matvæla mikilvæg gögn í rauntíma til að geta brugðist við óvæntum uppákomum og komið í veg fyrir sóun. Markmið fyrirtækisins er að tryggja öryggi sjúklinga og þjónustu við neytendur með því að minnka lyfja- og matarsóun í aðfangakeðjunni um 90%,“ útskýrir Gísli.

Tryggja öryggi og virkni bóluefna

„Hjá Controlant erum við að koma á fót nýjum markaði af tæknilausnum í aðfangakeðjunni. Cold Chain as a Service® – sem dregur nafn sitt frá hinu þekkta viðskiptamódeli Software as a Service. Okkar lausn er þrískipt: þráðlausir, internettengdir og endurnýtanlegir gagnaritar (e. data loggers) sem settir eru hjá vöru og sjá um að vakta gæði hennar og staðsetningu (hitastig, rakastig, breytingu á birtustigi o.fl.). Þá sendir vélbúnaðurinn rauntímagögn í hugbúnaðarlausn okkar sem hýst er í skýinu. Auk þessa bjóðum við upp á vöktunarþjónustu allan sólarhringinn og sjáum einnig um að endurheimta aftur endurnýtanlegu gagnaritana frá viðskiptavinum okkar til að lágmarka sóun og hagræða í rekstri. Lausnin vaktar meðal annars alþjóðlega dreifingu á Pfizer-BioNTech mRNA Covid-19 bóluefninu, ásamt því að miðla tilkynningum og viðvörunum í rauntíma til að tryggja öryggi og virkni bóluefnanna og koma í veg fyrir sóun á þessum dýrmæta varningi. Frá byrjun september þessa árs hefur okkar lausn tryggt öryggi yfir 1,3 milljarða skammta af bóluefni Pfizer og séð til þess að 99,99% af skömmtunum hafi komist örugglega á áfangastað án þess að sóun hafi átt sér stað,“ greinir hann frá.

Stöðug þróun og nýsköpun

Gísli bendir á að vegferð fyrirtækisins hafi verið ansi kaflaskipt til byrja með og fyrstu árin oft hörð barátta við að halda fyrirtækinu gangandi. „Baráttan síðustu ár hefur fyrst og fremst verið að ráða við vöxtinn, straumlínulaga starfsemina og viðhalda þeim góða kúltúr sem hefur einkennt okkur frá upphafi. Okkar vegferð er gott dæmi um hvernig tækni og nýsköpun getur skipt sköpum í lífi fólks. Hvort sem það er með því að styðja við aðfangakeðjuna sem kemur lyfjum, bóluefnum og matvælum á áfangastað eða með því að stuðla að umhverfisvænni starfsháttum.“

Helstu viðskiptavinir Controlant starfa innan lyfja- og matvælageirans og framleiða og dreifa vörum víða um heiminn. „Hjá Controlant vinnum við með alþjóðlegum lyfjafyrirtækjum, flutningsfyrirtækjum og fyrirtækjum sem starfa innan matvæla- og drykkjariðnaðarins. Á meðal fyrirtækja sem við störfum með eru Pfizer, Teva, DHL og Procter & Gamble. Í dag starfa í kringum 300 manns hjá Controlant og eru þar á meðal alþjóðlegir starfsmenn sem starfa víðs vegar um allan heim. Við erum stöðugt að þróa vél- og hugbúnað okkar og komum til með að kynna hinar ýmsu nýjungar á næstu mánuðum. Þróun á vörum okkar og möguleikinn á að auka enn virði þeirrar þjónustu sem við veitum kemur til með að byggja að stóru leyti á úrvinnslu á gögnum og sjálfvirkri ákvörðunartöku. Ljóst er að við munum þurfa að halda áfram uppbyggingunni á fyrirtækinu á komandi mánuðum og inni í þeim plönum er fjölgun á starfsmönnum sem sinna vöruþróun sem og á öðrum sviðum innan fyrirtækisins,“ útskýrir Gísli og bætir við að Ísland sé góður staður fyrir nýsköpun. „Við höfum verið lánsöm að fá gott fólk til starfa, hvort sem það er með langa reynslu að baki eða nýútskrifað úr háskóla. Þrátt fyrir smæðina þá eigum við flott fyrirtæki á Íslandi og gott háskólaumhverfi sem hefur alla burði til að gefa af sér enn meiri nýsköpun á komandi árum.

Við vorum mjög lánsöm að fá styrk frá Tækniþróunarsjóði í upphafi sem gat gert okkur kleift að hefja vegferðina þar sem við stofnendur vorum á þeim tíma allir að koma beint úr námi. Þar á eftir fengum við góða íslenska bakhjarla svo sem Bessa Gíslason, Frumtak og TT Investments sem stóðu þétt við bakið á okkur til að byrja með og voru lykilþáttur í vexti fyrirtækisins. Þá skipti endurgreiðsla vegna rannsóknar og þróunar okkur mjög miklu máli þar sem langmesti kostnaðurinn okkar fyrstu árin var í nýsköpun og vöruþróun. Þegar við fórum að stækka og fjárþörfin að aukast þá sáum við hins vegar gat á markaðnum þegar kemur að fagfjárfestum og ég tel að það sé enn til staðar.“