Rahimi er rannsóknarblaðakona. Hún fer til hinnar heilögu írönsku borgar Mashhad til að rannsaka raðmorðingja sem telur sig vera að vinna verk guðs með því að myrða vændiskonur og hreinsa þannig götur hinnar heilögu borgar.

Eftir því sem líkin hlaðast upp og Rahimi færist nær því að bera kennsl á morðingjann verður sífellt erfiðara að eiga við kerfið, sem virðist verja raðmorðingjann, og landlægir fordómar og kreddur trúarríkisins birtast. Raðmorðinginn var álitinn hetja sem væri að vinna ákveðið hreinsunarstarf.

Sagan er byggð á hryllilegum og sannsögulegum atburðum sem áttu sér stað í Íran er raðmorðinginn Saeed Hanaei myrti 16 konur árin 2000 og 2001.

Leikstjórinn og handritshöfundurinn, Ali Abbasi, sem áður hefur leikstýrt Border, hefur hér skapað magnaðan spennutrylli sem beinir kastljósinu að samfélagi sem umvefur óréttlæti og fordóma.

Abassi fæddist í Íran en flutti rúmlega tvítugur til Svíþjóðar til að læra arkitektúr. Eftir að hann lauk námi sneri hann við blaðinu og fór í danska kvikmyndaskólann og lauk þaðan gráðu árið 2011. Hann er búsettur í Kaupmannahöfn en hefur enn íranskt vegabréf.

Holy Spider var frumsýnd á Kvikmyndahátíðinni í Cannes 22. maí í fyrra og valin til að keppa um Gullpálmann. Myndin er á persnesku og Zar Amir Ebrahimi fékk verðlaun sem besta leikkona í aðalhlutverki. Holy Spider var framlag Dana til Óskarsverðlaunanna í ár og komst á desember-stuttlistann.

Bíó Paradís

Fróðleikur

  • Raðmorðinginn Saeed Hanaei var verkamaður og hermaður í stríðinu milli Írans og Íraks. Sagt er að hann hafi byrjað morðferil sinn þegar einhver tók misgrip á eiginkonu hans og vændiskonu.
  • Zar Amir-Ebrahimi var upphaflega ráðin til að velja leikara í myndina en var valin í aðalhlutverkið eftir að önnur leikkona neitaði að leika það hlutverk án þess að ganga með slæðu.
  • Eftir að Zar Amir-Ebrahimi hlaut verðlaunin sem besta leikkona í aðalhlutverki í Cannes sökuðu írönsk stjórnvöld hana og leikstjóra myndarinnar um guðlast.

Komin í bíó

Aðalhlutverk:

Zar Amir-Ebrahimi, Mehdi Bajestani og Arash Ashtiani

Handrit:

Ali Abbasi og Afshin Kamran Bahrami

Leikstjórn:

Ali Abbasi

Tungumál:

Persneska með ýmist íslenskum eða enskum texta.

Bönnuð innan 16