Pósturinn er á spennandi tímamótum sem tengjast beint þeim breytingum sem eru að eiga sér stað í stafrænni þróun og breyttri kauphegðun neytenda,“ segir Sesselía Birgisdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu- og markaðssviðs Póstsins.

Sesselía kom til liðs við Póstinn á haustdögum og segir margt spennandi í farvatninu hjá fyrirtækinu.

„Það fer ekki leynt að Pósturinn stendur frammi fyrir ýmsum áskorunum, bæði í rekstri og þjónustu. Við sjáum að bréfasendingum fækkar jafnt og þétt og það er veruleiki sem blasir við alls staðar í heiminum með stafrænni þróun sem leitt hefur af sér nýjar áskoranir hjá póstfyrirtækjum. Á móti kemur að pakkasendingum hefur fjölgað verulega með aukinni vefverslun. Þar er Pósturinn mikilvægur hlekkur í framtíðarverslun og -þjónustu og við þurfum að mæta nýjum tímum, breyta þjónustu Póstsins og aðlaga hann að nýjum þörfum nútímans. Það er eitt stærsta verkefnið okkar á næstu misserum,“ segir Sesselía.

Nýtt app og heimasíða

Á höndum Sesselíu hjá Póstinum er sala, þjónusta, markaðsmál og upplifun viðskiptavina.

„Náin samvinna á milli sölu, þjónustu og markaðsmála skiptir öllu máli, við erum að leggja mikla áherslu á stafrænar lausnir ásamt hröðum afhendingarleiðum. Í farvatninu eru fjölmargar stafrænar nýjungar hjá Póstinum, eins og ný heimasíða sem fer í loftið í febrúar, app sem verður einkar handhægt í notkun, veflausn sem fyrirtæki og netverslanir geta tengt sig við og svo enn fleiri póstbox sem slegið hafa í gegn hjá neytendum,“ upplýsir Sesselía.

Hún sér fyrir sér enn meira samstarf Póstsins við netverslanir.

„Við erum í óðaönn að mæta breyttum kröfum neytenda um pakkasendingar og gerum okkur grein fyrir að Pósturinn gegnir stóru hlutverki þegar kemur að vexti íslenskra netverslana. Dreifileiðir eru þar mikilvægur þáttur. Þær þurfa að vera þéttar og skilvirkar, stafrænar lausnir traustar og góðar, og ferlið allt gegnsætt svo neytendur geti tekið upplýsta ákvörðun um hvort auðveldara og hagstæðara sé að kaupa vöruna að utan eða hér heima. Viðskiptavinir eiga alltaf að geta tekið upplýsta kaupákvörðun,“ segir Sesselía.

Sesselía segir Póstinn standa frammi fyrir ýmsum áskorunum í rekstri og þjónustu og að margar notendavænar og stafrænar lausnir séu framundan hjá Póstinum. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Enn hraðari dreifileiðir

Með dreifileiðum er átt við heimsendingar, afhendingarstaði og stafrænar lausnir.

„Hlutverk Póstsins er að efla dreifileiðir innan lands og utan. Þar gegnum við lykilhlutverki fyrir viðskiptavini og netverslanir sem geta sent viðskiptavinum sínum sendingarnar fjótt og örugglega, innanlands og út. Við vinnum því hörðum höndum að því að auðvelda innlendum netverslunum að dreifa erlendis og stækka þar með markaðinn hér heima,“ upplýsir Sesselía.

Hún segir heiminn sífellt að minnka og að nú færist í vöxt að íslenskar netverslanir fái heimsóknir og verslun að utan.

„Þar eigum við í alþjóðlegu samstarfi til að geta boðið upp á fyrirsjáanlegt verð og notendavænar stafrænar lausnir. Til að mæta þessari þróun erum við með ákveðna verðflokka, til dæmis fast verð innan Evrópu á sendingum undir tveimur kílóum, því það er lykilatriði að verð flökti ekki mikið eftir þyngd í grömmum og við leitumst við að gera góða alþjóðlega samninga. Því er hægt að gera góð kaup með hagstæðum sendingarkostnaði í íslenskum netverslunum og það eykur tækifæri þeirra á að selja vörur sínar út fyrir landsteinana á meðan Pósturinn sér um að koma pakkanum í hendur viðtakanda,“ útskýrir Sesselía.

„Með stafrænum dreifileiðum Póstsins er auðvelt að fylgjast með pökkum og senda þá stafrænt. Nú þegar mætum við þörfum íslenskra netverslana með stafrænum lausnum sem þær geta innleitt í netverslanir sínar. Þá stofna kaupendur póstsendinguna í kaupum sínum á netinu og sendingin fer strax í gegnum Póstinn sem sparar bæði tíma og fyrirhöfn.“

Ný póstbox um allt land

Markmið Póstsins á komandi misserum er að auðvelda neytendum öll kaup á netinu og afhendingu sendinga.

„Íslendingar eru töluvert á eftir nágrannalöndunum þegar kemur að hlutfalli innlendrar netverslunar. Netverslun á Íslandi, sem hlutfall af innlendri verslun, er í kringum 2,9 prósent af heildarsmásöluverslun á meðan nágrannalöndin eru í kringum 11 prósent. Fram undan hjá Póstinum eru mörg stafræn verkefni sem munu auðvelda netverslunarferlið í heild sinni og gera það eins gegnsætt og hægt er fyrir viðskiptavini,“ upplýsir Sesselía.

Hún segir aukna kröfu viðskiptavina að afhendingarleiðir séu sem næst þeim.

„Því mætum við með 43 nýjum póstboxum um land allt. Póstbox hafa notið gríðarlegra vinsælda á síðastliðnum mánuðum og þau átta box sem nú eru í boði anna ekki lengur eftirspurn. Nýju boxin munu þétta landið mikið og bæta þjónustuna; allir geta fengið afnot af boxunum og ekki þarf að panta þau. Maður óskar einfaldlega eftir því að sending sé borin út í póstbox og þegar sending kemur fær viðtakandinn sms og afhendingarkóða sem opnar honum boxið næstu 72 tímana,“ útskýrir Sesselía.

Hún er full tilhlökkunar fyrir bjartri framtíð Póstsins.

„Það eru virkilega spennandi tímar hjá Póstinum og okkur þykir gaman að mæta kröfum nútímans. Við vitum að Pósturinn spilar mikilvægt hlutverk í að dreifa bréfum og pökkum um land allt. Mjög stór hluti sendinga fer út á land því íbúar landsbyggðarinnar eru duglegir að nýta sér vefverslanir og vitaskuld er mikill kostur að geta nálgast verslun og þjónustu heiman úr stofu og fá vöruna senda heim að dyrum. Það á því eftir að verða bylting þegar nýju póstboxin bætast við víðsvegar um landið því þau eru ekki bundin opnunartíma og eru aðgengileg allan sólarhringinn.“

Pósturinn er á Höfðabakka 9. Sími 580 1000. Sjá nánar á postur.is