„Við erum alltaf á tánum og bregðumst við þegar neytendur kalla. Neyslan hefur verið að færast meira í léttari bjóra og við höfum mætt því með því að auka úrvalið verulega í framleiðslu á léttari bjórum,“ segir Áki og bendir á að bjórinn fylgi breyttum áherslum almennings hvað varðar heilsu og næringu. „Samhliða þessu höfum við aukið upplýsingagjöfina og nú má til að mynda sjá innihaldslýsingar á ytri umbúðum á mörgum af okkar vörum. Allt er þetta gert til að bregðast við kalli neytenda.“

Neytendur stýra ferðinni

Aukinn kraftur hefur verið settur í svokallaða handverksbjóra undanfarin misseri og eru markaðsgluggar hjá ÁTVR gjarnan nýttir til að kynna þá til leiks. „Það sem virkar vel og fær góðar viðtökur er svo framleitt áfram en Bóndi Session Ipa, er gott dæmi um slíkan bjór. Sá bjór byrjaði sem þorrabjór um árið en sló í gegn og er því í boði allt árið um kring. Neytendur stýra ferðinni en það er okkar að halda áfram að prófa eitthvað nýtt og sjá hvað virkar og hvað ekki.“

Fólk er farið að velja léttari bjóra og brugghúsin reyna að koma til móts við þær óskir.

Sjálfbærni í forgangi

Umhverfismál hafa lengi verið á oddinum í bjórframleiðslu Víkings brugghúss en sem dæmi má nefna að allt kornhýði sem fellur til við framleiðsluna, og var áður fyrr hent, hefur nú um árabil verið gefið til nautgripabænda í Eyjafirði sem nýta það í fóður. Þetta voru um 1.800 tonn á síðasta ári. „Við setjum sjálfbærni í forgang og fylgjum þar metnaðarfullri, tímasettri sjálfbærniáætlun. Fyrirtæki eins og okkar hafa mikinn skriðþunga og þegar um mikið magn er að ræða skipta litlir hlutir miklu máli. Eftir að við léttum lokin á áldósunum okkar um 0,3 grömm þá notum við til að mynda um 5,8 tonnum minna af áli á ári. Þá má nefna að við framleiðum okkar eigin kolsýru á Akureyri sem sparar um 230 tonn af CO2 á ári. Mörg svona atriði skipta heldur betur máli þegar við horfum á heildarmyndina og við munum halda áfram að gera enn betur í þessum málum.“ ■