Þórir Haraldsson lögfræðingur tók við stöðu forstjóra Heilsustofnunar í Hveragerði um síðustu mánaðamót. Þórir hafði áður starfað hjá Íslenskri erfðagreiningu í nítján ár, meðal annars sem lögfræðingur og fjármálastjóri. Þórir var aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra 1995-2001 og hefur setið í ýmsum stjórnum og nefndum, þar á meðal í stjórn Heilsustofnunar um árabil, svo hann er vel kunnugur starfinu.

Þórir segir að ávallt sé mikið að gera í starfsemi Heilsustofnunar og þannig verði það áfram. „Það eru endalausar áskoranir í svona starfsemi, sérstaklega núna á tímum COVID-19. Við þurfum að halda starfseminni gangandi með tilheyrandi sóttvörnum og okkur hefur tekist að komast hjá smitum og halda uppi öflugri endurhæfingu innan þeirra marka sem sóttvarnareglur setja. Þá höfum við einnig boðið upp á endurhæfingu fyrir fólk sem veikst hefur af COVID. Umhverfið getur breyst hratt með nýjum þörfum,“ segir hann. „Heilsustofnun er með samning við Sjúkratryggingar að sinna endurhæfingarþjónustu og það hefur verið mikil eftirspurn eftir endurhæfingu í Hveragerði,“ bætir hann við. „Undanfarin ár hafa verið stöðugar áskoranir í rekstri stofnunarinnar og rekstrarumhverfið er auðvitað þungt. Við höfum ítrekað bent á að við erum að veita mjög góða þjónustu og höfum aldrei fengið athugasemdir við þjónustuna sem við veitum, en fáum samt sem áður lægri greiðslur en aðrir. Ríkisendurskoðun staðfesti í skýrslu í febrúar 2018 að Sjúkratryggingar greiða Reykjalundi meira en tvöfalt hærri greiðslu en Heilsustofnun, fyrir sambærilega þjónustu. Þetta teljum við óeðlilegt og viljum að við sitjum við sama borð þegar um er að ræða greiðslu fyrir sambærilega þjónustu,“ segir hann.

Fagleg heilbrigðisþjónusta

„Okkar helsta markmið er að sinna þeim sjúklingum sem þurfa á öflugri endurhæfingu að halda. Daglega eru um 110 – 120 skjólstæðingar í endurhæfingu en heldur færri yfir sumartímann. Það er afar jákvætt og gefandi að heyra frá þakklátum gestum eftir dvöl hér. Þeir eru virkilega ánægðir með hversu endurhæfingin skilar góðum árangri. Á Heilsustofnun er rekin mjög fagleg heilbrigðisþjónusta með þverfaglegu teymi lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfurum, sálfræðingum, íþróttafræðingum, sjúkranuddurum og fleirum. Þá er lögð áhersla á gildi hreyfingar og heilsusamlegs mataræðis sem er auðvitað ein af grunnforsendum fyrir því að fólk beri ábyrgð á eigin heilsu. Hér eru rúmlega 100 starfsmenn og margir með langa starfsreynslu. Starfsfólk er ánægt í starfi og það skilar sér til skjólstæðinga,“ segir Þórir. Fólk sem kemur í endurhæfingu hjá Heilsustofnun kemur flest eftir tilvísun frá lækni, oft eftir skurðaðgerðir en einnig vegna verkja, síþreytu, streitu og kulnunar svo dæmi séu tekin um fjölbreytta meðferð.“

Uppbygging á afmælisári

„Það þarf alltaf að vera uppbygging og endurnýjun. Elstu húsin hér eru orðin 65 ára gömul og í misjöfnu ástandi. Við höfum lagt mikla vinnu í að undirbúa uppbyggingu og settum af stað hugmyndasamkeppni arkitekta um uppbyggingu hér á svæðinu og úrslitin voru kynnt í júní. Fyrsta skrefið verður að byggja íbúðir fyrir fólk 55 ára og eldra, sem fær aðgang að ákveðinni aðstöðu og þjónustu á svæðinu. Með því erum við að búa til fleiri stoðir undir reksturinn. Við erum nú þegar með litla byggð á svæðinu og það hefur verið mikill áhugi hjá fólki á að fá íbúðir hér. Þá erum við að undirbúa byggingu á nýju meðferðarhúsi sem er brýn þörf á fyrir faglega starfsemi svo sem viðtöl, þjálfun og fræðslu fyrir dvalargesti. Framtíðarsýn okkar er að hér rísi heilsuþorp í kringum stofnunina,“ segir hann.

„Heilsustofnun hefur einnig á undanförnum áratugum boðið upp á fræðslu og námskeið sem eru mikilvæg í að ná því markmiði að hjálpa almenningi að ná betri tökum á eigin lífi,“ segir Þórir og bætir við að starfið sé gefandi og margt spennandi á döfinni í framtíðinni. „Fyrst og fremst veitum við góða og faglega þjónustu við íslenskt heilbrigðiskerfi.“