„Ég strengdi áramótaheit í fyrsta sinn á ævinni um áramótin 2021: ég var ákveðin í því að einfalda líf mitt. Ég vissi samt ekki hvernig, en svo kom þetta starf upp í hendurnar á mér og mér tókst virkilega að einfalda tilveruna,“ segir Helga Margrét Friðriksdóttir sem tók við stöðu framkvæmdastjóra Landnámsseturs Íslands í fyrrahaust.

Landnámssetrið stendur á fögrum stað undir klettum við ströndina í Borgarnesi.

„Ég flutti í Borgarbyggð þegar ég hóf nám við Háskólann á Bifröst árið 2012, eitt leiddi af öðru og við festum kaup á húsi í Borgarnesi. Að námi loknu vann ég við mannauðsmál hjá Gæðabakstri og Coca Cola á Íslandi, og keyrði daglega á milli. Að vera nú komin með draumastarf í Borgarnesi er ótrúleg einföldun á lífinu, vinnan er fjölbreytt og spennandi, og sannkölluð forréttindi að vera til staðar fyrir börnin og ekki í klukkustundar fjarlægð ef eitthvað kemur upp á,“ segir Helga Margrét sæl. Hún segir stöðu sína á Landnámssetrinu sýna að tækifærin séu líka úti á landi.

„Fyrst eftir útskrift taldi ég fá atvinnutækifæri vera á landsbyggðinni miðað við fjárfestinguna sem ég setti í menntun mína, en komst svo að raun um að það væri ekki rétt. Það er fullt af spennandi atvinnutækifærum víðs vegar um landið og auðvitað yndislegt að búa úti á landi og ala upp börn. Það bætast við fleiri klukkutímar í sólarhringinn og sparar til að mynda heila vinnuviku í mánuði fyrir mig, sem áður fór í akstur á milli Borgarness og Reykjavíkur. Þann tíma nýti ég nú í staðinn með börnunum mínum og finnst ég standa mig betur á öllum vígstöðvum; í vinnunni, á heimilinu og gagnvart sjálfri mér.“

Vinnufundir og hópefli

Borgarnes er yndislegur viðkomustaður. Bæjarstæðið er rómað fyrir náttúrufegurð og bæjarlífið hefur á sér heimsborgaralegan blæ þótt þorpið sé rammíslenskt. Þar skipar Landnámssetrið stóran sess.

„Við erum með tvær ómótstæðilegar sögusýningar, Egilssögusýninguna og Landnámssýninguna, sem heilla jafnt fullorðna sem börn, en líka frábæra aðstöðu og þjónustu fyrir vinnudaga, námskeið og vinnufundi,“ segir Helga Margrét, sem nýtur þess að taka á móti gestum.

„Hér er tilvalið að eiga frábæran vinnudag sem endar á ratleik og hópefli og dýrindis málsverði á vinsælum veitingastað hússins, eða sækja tónleika og sagnaskemmtanir. Allt er þetta þjónusta sem Landnámssetrið býður upp á. Borgarnes er undurfagur áfangastaður í klukkustundar akstursfjarlægð frá borginni og bæði endurnærandi og uppörvandi að kúpla sig frá hefðbundnu vinnuumhverfi og sækja fund eða önnur störf í Borgarnesi. Á sama tíma er hægt að læra um söguna, leika sér og hafa það gaman saman, því fólk fær mikið út úr því að skipta um umhverfi og brjóta upp vinnudaginn,“ segir Helga Margrét.

Í tilefni veganúar er boðið upp á vegan matseðil á veitingastað Landnámssetursins þar sem kokkarnir matreiða krásir í tilefni árstíða og alltaf eitthvað nýtt og spennandi í pottunum.

„Hér er notalegt að lifa og starfa. Í Borgarnesi er líka hægt að eiga æðislegan fjölskyldudag með skemmtilegum sveitabíltúr, gera sér glaðan dag í Landnámssetrinu, fara á Bjössaróló og í eina bestu sundlaug landsins.“

Landnámssetur Íslands er á Brákarbraut 13-15 í Borgarnesi. Sími 437 1600. Opið alla daga frá 10 til 21. Hafið samband á landnam@landnam.is. Sjá landnam.is

Þetta viðtal birtist fyrst í sérblaði Félags kvenna í atvinnurekstri sem fylgdi Fréttablaðinu fimmtudaginn 20. janúar 2022.