„Ég á skemmtilega sögu úr námi mínu og lífi sem náms- og starfsráðgjafi. Ég hóf námið 1991 og gekk þá með dóttur mína fyrstu mánuðina. Nú í vor útskrifaðist hún úr sama námi og byrjaði að vinna við fagið í haust. Því má segja að dóttir mín hafi byrjað að læra í móðurkviði og víst vildi hún feta í fótspor móður sinnar,“ segir Hildur Elín Vignir, framkvæmdastjóri Iðunnar.

Hildur er kennari að mennt en heillaðist af náms- og starfsráðgjöf í Kennaraháskólanum og ákvað að fara beint í námið eftir útskrift.

„Mig langaði til að vinna að frekari þróun kennarastarfsins í stað þess að vera eingöngu í kennslu. Eftir útskrift starfaði ég þó ekki lengi í skólakerfinu heldur réð mig sem fræðslufulltrúa hjá Eimskip í janúar 1995 og þaðan fór ég í starf fræðslustjóra hjá Íslandsbanka. Síðan starfaði ég um sex ára skeið við ráðgjöf, eða þar til ég réð mig til Iðunnar fyrir fimmtán árum. Það sýnir hvað náms- og starfsráðgjafar koma víða við í atvinnulífinu, en starfsvettvangur okkar hefur breikkað mikið síðan við í fyrstu hópunum voru að útskrifast og hefja okkar störf.“

Stöðug eftirspurn eftir fagfólki

Í starfi framkvæmdastjóra starfar Hildur ekki við náms- og starfsráðgjöf í dag, en hjá henni í Iðunni starfa fimm náms- og starfsráðgjafar.

„Við sjáum um fræðslumiðlun og símenntun fyrir iðnaðarmenn og höldum utan um framkvæmd raunfærnimats og ráðgjöf til þeirra sem starfað hafa sem iðnaðarmenn en ekki lokið formlegu námi. Við förum með það fólk í gegnum raunfærnismatsferli og hjálpum því að læra og taka sveinspróf. Einnig sjáum við um framkvæmd sveinsprófa og tökum þátt í ýmiss konar þróunarverkefnum sem stuðla að aukinni þekkingu í íslenskum iðnaði,“ upplýsir Hildur.

Iðan heldur líka úti vefnum namogstorf.is, sem og öflugu kynningarstarfi um nám og námskeið í iðnaði, til dæmis með verkefninu Verkin tala.

Nám og störf er mjög öflugt verkfæri sem náms- og starfsráðgjafar um land allt nota í námsráðgjöf fyrir ungt fólk, en í dag er mikill skortur og stöðug eftirspurn eftir tæknimenntuðu fólki og fagmenntuðum iðnaðarmönnum í flestöllum greinum og fyrirsjáanlegt í komandi framtíð,“ greinir Hildur frá.

Vel hægt að opna augu allra

Hildur mælir hiklaust með því að ungt fólk og leitandi sæki sér ráðgjöf hjá náms- og starfsráðgjöfum.

„Mjög oft erum við að horfa úr þröngum ranni á framtíðarhorfur okkar og erum þar af leiðandi ekki nógu opin fyrir öllum möguleikunum og tækifærunum á atvinnumarkaði. Að mínu mati er hægt að opna augu allra fyrir náms- og starfsmöguleikum. Tækifærin eru gríðarlega mörg í dag og fjölbreytni á vinnumarkaði mun meiri en áður var. Því ættu allir að geta fundið farveg fyrir áhugasvið sitt og hæfni, og hægt að hjálpa öllum með góðum árangri, svo að fólk finni sína hillu, sama hversu blint það var áður á möguleika sína,“ segir Hildur.

Gefandi að sjá fólki farnast vel

Það sem heillar Hildi hvað mest í náms- og starfsráðgjöf er að vinna með fólki og geta leiðbeint því á þroskaferli þess og starfsleið.

„Mér finnst langmest gefandi að sjá fólk þróast og þroskast á sinni vegferð og farnast vel. Það sem stendur upp úr núna er allur sá fjöldi sólskinssagna sem maður hefur upplifað í gegnum starfið þegar við höfum hjálpað einstaklingum að fara í gegnum raunfærnimat og klára sitt nám. Það eru svo margir sem koma til okkar með skert sjálfstraust eftir að hafa mætt erfiðleikum í skólagöngu sinni og því verður svo mikil upplifun, gleði og jákvætt skref fyrir einstaklingana að klára loks námið og taka á mót bjartri framtíð með sveinspróf upp á vasann,“ segir Hildur, sæl í sínu starfi.

„Starf náms- og starfsráðgjafa getur líka tekið á, bæði í skólakerfinu og atvinnulífinu. Þeir þurfa oft og iðulega að vinna að þungum og erfiðum persónulegum málum, með einstaklingum í erfiðum aðstæðum og vanlíðan, og þar sem fólk hefur til dæmis misst vinnu og lífsviðurværi sitt.“

Afmælisósk til félagsins

Á fjörutíu ára afmæli Félags náms- og starfsráðgjafa skilar Hildur kærri afmæliskveðju.

„Félagið hefur þróast mikið síðan það var stofnað á sínum tíma og ég vil gjarnan sjá það halda áfram á sömu braut, sem öflugt félag sem heldur áfram að styðja við framhaldsnám og störf náms- og starfsráðgjafa, til að efla færni félagsmanna sinna og tileinka þeim nýjustu leiðir í ráðgjöf. Ég óska félaginu innilega til hamingju með afmælið og óska þess að því haldi áfram að farnast vel og dafna.“

Sjá idan.is