Frá upphafi hefur starfsemi Sólheima einkennst af mikilvægu frumkvöðlastarfi. „Sólheimar í Grímsnesi voru fyrsti staðurinn á Norðurlöndum til að hefja lífeflda ræktun, sem þá hét (orðatiltækið lífrænt varð ekki til fyrr en seinna), árið 1930 og eru því brautryðjendur í lífrænni ræktun hér á landi,“ skýrir Jónas Hallgrímsson, sölu- og markaðsstjóri, frá.

Mikið úrval lífrænna vara

Starfsemin er afar fjölbreytt. „Það sem er lífrænt Tún vottað hjá okkur er Garðyrkjustöðin Sunna og þar undir er meðal annars Skógræktarstöðin Ölur. Svo erum við með lífrænt vottaða kaffibrennslu, jurtastofu sem framleiðir lífrænar sápur, baðsölt og krem og að lokum erum við með lífrænt vottað hænsnabú þar sem við fáum lífræn egg, sem við notum að mestu í okkar mötuneyti en seljum einnig í búðinni okkar á Sólheimum,“ segir Jónas. „Í hugum margra eru Sólheimar heimili fyrir fólk með fötlun, sem það vissulega er, og svo man fólk eftir lífrænum tómötum, en Sólheimar eru svo miklu meira en það, eins og sjá má á umfangi framleiðslu og vöruúrvali.“

Aukin dreifing gerir það verkum að nú gefst fólki frekari kostur á að nálgast lífrænt ræktað grænmeti frá Sólheimum í sínu nærumhverfi. „Garðyrkjustöðin Sunna er stærsta lífrænt Tún vottaða gróðurhús landsins. Við erum ekki með heilsárslýsingu þannig að uppskerutímabilið hjá okkur er frá apríl til nóvember. Bónus kaupir alla framleiðsluna af okkur og selur í sínum verslunum. Það samstarf hófst síðastliðið vor og verður því framhaldið í sumar. Í vor munum við einnig byrja að nota nýjar endurvinnanlegar umbúðir. Litlu Sólheimatómatarnir eru vinsælasta varan okkar, en einnig erum við með hefðbundna tómata, agúrku, papriku og einstaklega glæsileg eggaldin, svo dæmi sé tekið,“ segir Jónas.

„Svo erum við með Skógræktina Ölur, sem einnig er lífrænt vottuð sem hluti af garðyrkjustöðinni. Eitt stærsta verkefnið þar um þessar mundir er ræktun á öspum fyrir Skógræktina og svo eru líka ræktuð þar jarðarber. Einnig erum við með Kolefnisjöfnun Sólheima þar sem einstaklingum og fyrirtækjum gefst kostur á að kolefnisjafna í Sólheimaskógi, sem er lífrænt vottaður.“

Í Sólheimum í Grímsnesi er framleitt mikið úrval lífrænt vottaðra afurða.

Kröftug kaffibrennsla

Þá er mikill metnaður í kaffibrennslu Sólheima. „Við erum einnig með lífrænt vottaða kaffibrennslu. Flytjum inn óristaðar lífrænar kaffibaunir og ristum eftir ákveðnum aðferðum sem við höfum þróað og gerum okkar eigin Sólheimablöndu úr þremur mismunandi tegundum af kaffibaunum sem koma frá frá Eþíópíu, El Salvador og Hondúras. Við notum einungis lífrænt vottað og „fair trade“ hráefni,“ upplýsir Jónas.

„Við seljum bæði til einstaklinga og fyrirtækja, erum með kaffið í 250 gr og 1 kg endurvinnanlegum umbúðum, bæði baunir og malað. Svo seljum við líka eftir vigt til stærri notanda. Við notum kaffið að sjálfsögðu á kaffihúsinu okkar, Grænu könnunni. Okkur finnst frábært að geta boðið gestum okkar upp á hágæða lífrænt kaffi og þó ég sé nú ekki hlutlaus þá get ég staðfest að kaffið okkar er mjög gott.“

Undanfarna mánuði hefur aukinn kraftur færst í kaffibrennsluna. „Við byrjuðum með kaffibrennsluna fyrir um fimm árum, með kaffibrennsluofn sem afkastaði ekki miklu og var ekki mjög tæknilega fullkomin, en í nóvember síðastliðnum tókum við í notkun öflugan ofn sem er bæði mjög tæknilega fullkominn og afkastar miklu. Stöðugleiki skiptir öllu máli í kaffibrennslu og það er eitt af því sem nýi ofninn gefur okkur.“

Snyrtivörur og veisluhöld

Það eru ekki aðeins lífrænt vottuð matvæli sem framleidd eru á Sólheimum. „Svo erum við með Jurtastofu sem framleiðir nokkrar tegundir af lífrænt vottaðri sápu (bæði fljótandi og sápustykki), baðsölt, krem, varasalva og jurtanudd. Af fljótandi sápunum eru Sítrónugras og Lofnarblóm líklega vinsælastar. Við seljum mest í 250 ml umbúðum til einstaklinga og seljum einnig í eins lítra brúsum sem er hugsað til áfyllingar. Svo seljum við sápuna í 20 lítra umbúðum til stærri notenda til dæmis til veitingastaða og gistiheimila, auk þess sem við notum sápurnar að sjálfsögðu á okkar eigin gistiheimili,“ segir Jónas. „Að lokum erum við með lífrænt vottað hænsnabú, sem gefur okkur lífræn egg sem við notum bæði til eigin nota og seljum í versluninni okkar á Sólheimum.“

Það er nóg fram undan hjá Sólheimum á næstu mánuðum. „Í tilefni stórafmælis Sólheima verður svo efnt til veglegrar afmælishátíðar og menningarveislu í allt sumar. Það verða tónleikar alla laugardaga yfir sumarið auk þess sem fjórar sýningar verða settar upp. Þá er unnið að opnun nýrrar heimasíðu með vefverslun sem gerir fólki enn frekar kleift að kaupa lífrænt vottaðar Sólheimavörur.“