Stofnendur og eigendur fyrirtækisins eru Árni Baldvin Ólafsson og Svanur Snær Halldórsson, sjúkraþjálfarar með framhaldsmenntun í hnykkingum, nálastungum og stoðkerfis-ómskoðun, ásamt Inga Birni Ágústssyni, sérfræðingi í snjalllausnum.

Árni segir að upphafið að HEALO megi rekja til ársins 2019 þegar hann fékk símtal frá gömlum bekkjarfélaga úr sjúkraþjálfuninni sem sérhæfði sig í fjarheilbrigðisfræðum í Svíþjóð.

„Hún vinnur hjá fyrirtæki sem er með þessa snjalllausn og vildi hitta mig og kynna hana fyrir mér. Þetta var fyrir Covid. En þegar Covid skall á vorum við nýbúnir að fá leyfi hjá landlækni til að nota HEALO sem verkfæri í sjúkraþjálfun. Við byrjuðum að nota HEALO mikið þegar við þurftum að loka vegna Covid og þá komst smá reynsla á þetta. En þegar allt var opnað fórum við aftur að vinna með fólki á staðnum og þessi lausn sat á hakanum,“ segir Árni.

„En svo nefnum við þessa lausn við Inga Björn félaga okkar. Hann hafði þá nýlega úlnliðsbrotnað og fékk blað frá spítalanum varðandi liðkun á úlnlið. Hann hugsaði að það gæti verið gott að hafa æfingar sjúkraþjálfara og aðgang að honum beint með appi og þá fórum við að þróa appið í samvinnu við sérfræðingateymið í Svíþjóð. “

Sérsniðin snjallþjálfun

HEALO virkar þannig að fólk fer inn á vefinn healo.is til að skrá sig í þjónustuna. Í kjölfarið fer fólk í gegnum staðlaðan spurningalista með aðstoð HEALO og út frá því metur kerfið hvaða æfingar henta viðkomandi og býr til persónumiðaðar æfingaáætlun. Æfingarnar eru í myndbandsformi og á rauntíma, einnig getur fólk haft samband við sjúkraþjálfara í öruggu spjalli og þeir geta þá leiðbeint því með æfingarnar.

„Kerfið metur hæfni einstaklings til meðferðar eða hvort nánari rannsóknir þurfi með því að gefa viðkomandi flagg, rautt, gult eða grænt. Ef þú færð rautt flagg þá þarftu að fara beint til læknis eða hitta sjúkraþjálfara. Þá höfum við samband og getum gripið einstaklinginn. Grænt flagg merkir að það megi byrja stafræna sjúkraþjálfun strax en gult flagg þýðir að hægt er að hefja endurhæfingu í gegnum appið en viðkomandi gæti samt þurft nánari skoðun. Þegar einhver skráir sig í kerfið fær sjúkraþjálfari tilkynningu um það og er í beinu sambandi við skjólstæðinginn sem gerir æfingar sem annað hvort kerfið velur eða við breytum,“ útskýrir Árni.

Hver meðferð er 3-5 æfingar sem yfirleitt taka um 2 mínútur hver, að sögn Árna. En hægt er að svara spurningum um fleiri en eitt vandamál í appinu. Þannig er til dæmis hægt að fara í meðferð vegna verks í öxl og mjóbaki á sama tíma ef vandamálin eru þar.

„Notendur meta verkina sína á skalanum 0-100 á mjög auðveldan máta í appinu, bæði fyrir og eftir hverja notkun. Þannig getum við fylgst með hvernig ástandið er að þróast yfir tíma og bætt við eða breytt æfingunum ef þess þarf. Þannig er fylgst með hvernig fólk er að bregðast við meðferðinni, hvort fólk er að gera ráðlagðar æfingar og þá gripið inn í ef þarf, verið með hvatningu, markmiðasetningu, skipulögð almenn hreyfing og annað heilsutengt, allt í samvinnu við notandann. Markmiðið er jú að gera hann verkjaminni, virkari og að hann geti stundað sín áhugamál án vandamála. Fólk er ekki alltaf að gera sömu æfingarnar því við erum að vinna í að bæta einstaklinginn.“

Enginn biðtími

„Kosturinn við HEALO-kerfið er að það hentar flestum, bæði sem endurhæfing en líka sem forvarnartæki, til að fyrirbyggja krónísk vandamál. Annar kostur er að þetta styttir biðtíma eftir sjúkraþjálfun töluvert. Þú þarft ekki að bíða eftir að komast að hjá lækni sem gefur þér tilvísun og bíða svo áfram eftir að komast að hjá sjúkraþjálfara. En það getur alveg verið nokkurra mánaða bið í að komast að í sjúkraþjálfun og á meðan er beðið er ekki verið að lækna eða meðhöndla verkina. Með þessu kerfi getur fólk strax hafið meðhöndlun á sínum vandamálum í samráði við sjúkraþjálfara og það getur gert æfingarnar á hvaða tíma sem því hentar. Æfingarnar miða við að þú getir gert þær í stofunni heima eða við skrifborðið í vinnunni, þú þarft ekki sal eða tæki,“ segir Árni.

„Kerfið getur fækkað endurkomum á sjúkrahús og heilsugæslur því skjólstæðingurinn þarf ekki að mæta á svæðið til að fá uppfærðar æfingar. Þar sem HEALO er samþykkt lækningartæki þá getur fólk treyst því að þjáfunin er fagleg, ekki YouTube-lækningar,“ bætir hann við og heldur áfram:

„Snjallsjúkraþjálfun er komin til að vera. Þjónustan er persónuleg. Hún er góð bæði sem forvörn og líka til að meðhöndla vanda sem er þegar til staðar. Hún er mikilvæg til að létta á heilbrigðiskerfinu til að stytta biðtíma og við getum alltaf gripið inn í ef við teljum þörf á að hitta skjólstæðinginn. Það að fólk geti sinnt endurhæfingunni sjálft, heima og undir eftirliti, hefur þegar fram í sækir haft áhrif til að minnka króníska verki. En algengustu orsakir krónískra verkja eru einhæfar endurteknar hreyfingar.“

Heilsufarspakki fyrir fyrirtæki

ÁS Snjöll Heilsa býður upp á heilsufarspakka fyrir fyrirtæki. Fyrirtæki fá þá aðgengi að HEALO fyrir starfsmenn sína. Því er fylgt eftir með fyrirlestrum um meðal annars stoðkerfi og vinnuvernd. Einnig er boðið upp á heimsóknir hjúkrunarfræðinga sem gera heilsufarsmælingar á starfsfólki. Allar mælingar eru skráðar í HEALO-appið.

„Starfsmaðurinn getur þá séð sínar niðurstöður í appinu og getur borið saman niðurstöðurnar á mælingum, jafnvel þótt hann skipti um vinnu. Upplýsingarnar eru alltaf til staðar í appinu,“ segir Árni.

„Tveir af hverjum þremur glíma við stoðkerfisverki og þurfa að nota sjúkraþjálfun að einhverju leyti. Fyrir íslenskan vinnumarkað þýðir það að um 125 þúsund manns glími við verki reglulega. Það er því mikill akkur fyrir fyrirtæki að geta boðið starfsfólki sínu upp á betri þjónustu með því að stytta tímann til að fara til sjúkraþjálfara.

Heilsa starfsfólks er forsenda góðs vinnuanda og afkasta, gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu og að geta tæklað vandamálin strax getur hjálpað fyrirtækjum að búa til frábært starfsumhverfi.“

Nánari upplýsingar á healo.is