En eru þessar lausnir eingöngu bundnar við faraldra eða eru þær komnar til að vera? Við þekkjum flest sjálfsafgreiðslukassa í matvöruverslunum og vefverslanir, en þessar lausnir komu fram fyrir tíð COVID-19 og áður en hverju mannsbarni varð tamt að ræða um heimsfaraldur. „Áhuginn á snertilausum sjálfsafgreiðslulausnum hefur aukist mikið upp á síðkastið vegna COVID-19, og áhuginn á bara eftir að aukast enda hefur fólk uppgötvað hversu hentugar og þægilegar þessar lausnir eru,“ segir Alfred B. Þórðarson, framkvæmdastjóri Rue de Net Reykjavík.
K3 Imagine og framtíðin í snertilausum lausnum
Verslanir og önnur fyrirtæki kjósa í auknum mæli að bjóða upp á snertilausar lausnir fyrir viðskiptavini sína, en slíkar lausnir auka bæði þjónustuhraða og getu til þjónustu, sem hefur hvort tveggja jákvæð áhrif á fyrirtækið og viðskiptavini þess. Snertilaus sjálfsafgreiðsla K3 Imagine er ný lausn á Íslandi og viðbót við fjölbreytt vöruframboð Rue de Net.
„K3 Imagine er glænýtt á markaðinum og kemur sérstaklega fram núna í framhaldi af COVID-19. Mikill áhugi er á lausninni og gaman er að segja frá því að Þjóðleikhúsið hefur undirritað samning um kaup og innleiðingu á K3 Imagine sem hluta af stafrænni vegferð sinni. Þjóðleikhúsið er svo sannarlega tilbúið til að stíga skrefið inn í framtíðina og við erum spennt að fá að fylgja þeim í þeirri vegferð,“ segir Guðrún Ólafsdóttir, þjónustustjóri Rue de Net Reykjavík.

K3 Imagine er afar fjölbreytt afgreiðslukerfi sem hentar allt í senn verslunum, veitingastöðum, viðburðastöðum, tónleikahöldurum og fleiri aðilum af ólíkri stærðargráðu. Kerfið býður upp á sjálfsafgreiðslustöðvar, hefðbundna kassa, einfalda vefverslun ásamt snertilausri sjálfsafgreiðslu.
„Í tilviki veitingastaðar eða kaffihúss þá kemur viðskiptavinur inn á staðinn, sest við borð, tekur upp símann sinn og leggur upp að nema, sem er til dæmis staðsettur í borðinu eða á standi við borðið. Við það opnast pöntunarsíða þar sem viðskiptavinurinn pantar kaffið sitt, meðlæti og slíkt, og borgar svo í símanum. Pöntunin færist sjálfkrafa yfir á skjá þess sem tekur vörurnar saman og færir viðskiptavininum það sem hann pantaði. Allt þetta gerist án samskipta viðskiptavinar og þjónustuaðila. Við sjáum einnig fyrir okkur að kerfið sé tilvalið fyrir til dæmis hótel þar sem boðið er upp á herbergisþjónustu,“ segir Guðrún.
Biðraðir heyra sögunni til
K3 Imagine er alger bylting þegar kemur að því að selja inn á viðburði eins og tónleika, leikhús eða íþróttaviðburði. „Lausnin myndi þannig koma í veg fyrir hvimleiðar biðraðir sem geta myndast fyrirvaralaust við slíkar aðstæður. Margir af okkar viðskiptavinum eru algerlega á þeirri skoðun að í því tækniumhverfi sem stendur til boða í dag, þá sé nauðsynlegt að bjóða upp á snertilausar lausnir. Þetta takmarkar allt í senn ónauðsynlega bið viðskiptavinar, óþarfa samskipti sem og fækkar snertiflötum á milli þjónustuaðila og viðskiptavinar,“ segir Alfred.
Unglingurinn á markaðnum
„Rue de Net er íslenskt fyrirtæki sem var upphaflega stofnað á eyjunni Jersey í Ermarsundi 2003, en hefur verið starfandi í núverandi mynd frá 2007. Við höfum vaxið og dafnað með breyttu markaðsumhverfi og má segja að við séum hálfgerður unglingur í dag. Rue de Net er öflugt þjónustufyrirtæki sem þjónustar íslensk fyrirtæki með viðskipta- og verslunarkerfi frá Microsoft, LS Retail og nú líka K3. Yfir þennan tíma höfum við sankað að okkur frábæru fólki og búum nú yfir miklum mannauði sem hefur gríðarlega þekkingu á sínu sviði.
Okkar söluvara eru viðskipta- og verslunarkerfi sem og öll sú uppsetning, umsjón og aðstoð sem fylgir slíkum kerfum. Þá sjáum við um að aðlaga kerfin að þörfum viðskiptavina þegar svo ber undir, enda koma kerfin stöðluð í grunninn. Við þjónustum mismunandi fyrirtæki af afar fjölbreyttri stærðargráðu með mjög ólík verkefni og höfum snert á flestum hliðum íslensks atvinnulífs,“ segir Guðrún.

Í dag starfa um 35 manns hjá Rue de Net og er góður starfsandi eitt af lykilmarkmiðum fyrirtækisins. „Stefnan er sú að ráða inn ungt hæfileikaríkt fólk sem vex og dafnar í starfi hjá fyrirtækinu. Til dæmis höfum við í einungis eitt skipti ráðið starfsmann beint í stjórnunarstöðu. Frekar viljum við gefa okkar fólki færi á að vinna sig upp og taka meiri ábyrgð eftir því sem á líður,“ segir Alfred.
Byltingarkennd skýjaþjónusta fyrir allar rekstrargerðir
Microsoft Dynamics 365 Business Central er alhliða viðskiptakerfi í skýinu sem gerir fyrirtækjum auðveldara að halda utan um reksturinn, hvort heldur er bókhald, framleiðslu, birgðastjórnun eða annað sem fyrirtæki þurfa til þess að tryggja góðan og skilvirkan rekstur. „Við höfum hvatt fyrirtæki, sem eru í viðskiptum við okkur, og nýja viðskiptavini til að færa viðskiptakerfi sitt upp í skýið. Þar kemur Business Central í hýsingu hjá Microsoft sterkt inn,“ segir Guðrún.
Business Central er hluti af Dynamics 365 og einn aðalkostur kerfisins er að það er í hýsingu hjá Microsoft. „Ekki þarf lengur að setja upp sérstakan búnað á hverri vél fyrir sig, þú bara opnar Business Central í vafra og byrjar að vinna, hvar sem er. Nýjustu útgáfur og uppfærslur koma sjálfkrafa, það er enginn falinn aukakostnaður við að fá þær, og enn fremur sér Microsoft um afritunartöku og að sjálfsögðu er öllum öryggisstöðlum fylgt í hvívetna,“ segir Alfred.

Guðrún segir að COVID-19 hafi sýnt fram á að þau fyrirtæki sem hafa viðskiptakerfið í skýinu séu mun betur í stakk búin til að vinna úr þeim vandamálum sem koma upp þegar starfsmenn geta ekki mætt til vinnu. „Starfsmenn fara til dæmis í sóttkví, vinnustöðum er lokað vegna smita og í sumum tilfellum eru starfsmenn fastir hinum megin á hnettinum. Nú er auðvelt að vinna hvar sem er og hvaðan sem er í heiminum því þú kemst alls staðar í gögnin. Ég er viss um að margir sem hafa unnið í eldri viðskiptakerfum kannist við að reyna að skrá sig inn á kerfi sem eru bundin við ákveðna staði eða hýsingu. Vandamálin sem koma upp við slíkt eru óteljandi og tímafrek og oft er þörf á sérfræðingum til að leysa úr þeim,“ segir Guðrún.

LS Central eitt vinsælasta verslunarkerfi í heiminum
LS Central verslunarkerfið er byggt ofan á Business Central og er sérstaklega hannað fyrir atvinnugreinar á sviði matvöru, tískuvöru, verslunar og veitinga, sem og sérvöru. „LS Central verslunarkerfið er íslenskt hugvit og eitt vinsælasta verslunarkerfið í heiminum í dag. Kerfið er í notkun í yfir hundrað löndum og hentar verslunum af nánast hvaða stærðargráðu sem er. Til dæmis keyra langflestar matvörubúðir á Íslandi á þessu kerfi og höfum við flest notað það sjálf í einhverri mynd,“ segir Alfred.
„Við höfum verið að selja LS Central kerfið í þrettán ár, eða allt frá stofnun Rue de Net, og erum stolt af því að vera LS Retail Gold Partner fyrir framúrskarandi árangur í sölu og þjónustu á vörum LS Retail. Til að verða samstarfsaðili LS Retail þurfa fyrirtæki að standast strangar kröfur ásamt því að hljóta þjálfun í lausnum félagsins,“ segir Guðrún.

Það besta fyrir þitt fyrirtæki
Business Central, LS Central og K3 Imagine eru allt kerfi sem bjóða upp á það besta og nýjasta í hugbúnaðarheiminum fyrir fyrirtæki af fjölbreyttri stærðargráðu. „Það er augljós kostur að allur þessi hugbúnaður er í skýinu. Fyrirtæki spara því í kaupum á tölvum og hýsingu. Annar kostur er að þessi kerfi eru öll einföld í notkun og uppsetningu. Aðgengið er líka algert og geta starfsmenn unnið verkefni sín hvar sem er í heiminum,“ segir Alfred.
Nánari upplýsingar á ruedenet.is Rue de Net, Suðurlandsbraut 4, 108 Reykjavík /ruedenet@ruedenet.is / Sími: 414-5050