Bjórböðin eru hluti af bruggverksmiðjunni Kalda. Agnes Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri og eigandi, segir að allt frá stofnun fyrir fjórum árum hafi böðin verið ákaflega vel sótt bæði af Íslendingum og erlendum ferðamönnum. Sjálf kynntist hún bjórböðum á ferð um Tékkland árið 2008 sem var einstök upplifun.

Bjórböðin á Árskógssandi eru ekki einungis þau einu á Íslandi heldur á öllum Norðurlöndunum. Frábær veitingastaður er við bjórböðin þar sem boðið er upp á hráefni úr héraði. Fiskurinn kemur nýveiddur á borðið hjá gestunum enda er Árskógssandur sjávarstaður. „Við bjóðum líka góðar steikur og ýmsa smárétti. Flestir fá sér að borða eftir baðið og njóta ferðarinnar til fulls.“

Bjórböðin á Árskógssandi eru sérlega góð ef fólk vill láta streituna líða úr sér.

Gott fyrir sálina

Agnes segir að það sé vinsælt fyrir pör að koma í bjórbað enda geta tveir farið í einu. Kerið er fyllt af óáfengum bjór, vatni, humlum og geri. „Þetta er ungur Kaldi sem ekki hefur fengið að gerjast. Einnig erum við með ger sem gefur í raun töframátt í baðið. Síðan eru humlarnir róandi fyrir sálina. Loks notum við baðsalt sem er gert úr bjór,“ útskýrir Agnes.

Hvert bað er í sérrými og þar er engin truflun nema fólk hringi bjöllu. Mælt er með að fólk fari nakið í bjórbaðið þar sem það er einstaklega gott fyrir húðina. „Bjórinn er mjög B-vítamínríkur og húðin verður silkimjúk á eftir. Bjórbað er sérstaklega slakandi og eftir baðið bjóðum við fólki að fara inn í sérstakt slökunarherbergi til að fá fullkomna hvíld. Margir sofna þar,“ segir Agnes. „Böðin eru para- og vinavæn. Þetta er notalegt andrúmsloft og dekur. Við erum með bjórkrana við böðin og fólk getur fengið sér Kalda ef það vill,“ segir hún. „Við ráðleggjum fólki að fara ekki í sturtu strax eftir bjórbaðið heldur leyfa efnunum að setjast inn í húðina í að minnsta kosti sex tíma.“

Frábært veitingahús er rekið í bjórböðunum þar sem er boðið upp á ferskt hráefni úr héraði.

Fallegt umhverfi

Bjórinn Kaldi hefur verið fáanlegur í 15 ár og er afar vinsæll. Hægt er að fá hann í nokkrum bragðtegundum.

Agnes segist hafa lent í margvíslegum ævintýrum frá því hún stofnaði Kalda en það sé ávallt skemmtileg áskorun. „Það er til dæmis ekki hægt að vera með bjórböð nema eiga bruggverksmiðju,“ segir hún. Agnes segir að það sé góð hugmynd að byrja sumarfríið í bjórbaði og ná úr sér streitunni. Við bjórböðin er fallegt útsýni yfir til Hríseyjar en auk þess má sjá Kaldbak, Þorvaldsdal og Múlann. Á útisvæði eru heitir pottar.

Bjórböðin á Árskógssandi eru opin frá kl. 12-21 alla daga nema sunnudaga og mánudaga. Veitingahúsið og barinn er opið á sama tíma nema til kl. 22. Hægt er að panta tíma á heimasíðunni bjorbodin.is eða hringja í síma 414 2828. Einnig er hægt að senda póst á bjorbodin@bjorbodin.is

Bjórbaðið er í einkaklefa þar sem pör eru prívat.