Fyrir jólin eru glæsilegar gjafakörfur í boði í Frú Laugu og bændunum. „Við byrjum að selja körfurnar í nóvember en við erum tilbúin til að setja í gjafakörfur allt árið eftir óskum viðskiptavina okkar,“ segir Dóra Þorvarðardóttir verslunarstjóri og bætir við að veitt sé persónuleg þjónusta í Frú Laugu og bændunum og oft séu vænlegustu körfurnar þær sem fólk velur sjálft og ákveður bæði stærð og innihald. „Einnig bjóðum við fyrir fram valdar körfur, jafnt stærri sem minni,“ segir hún.

Glæsilegar gjafakörfur. Hægt er að velja um margs konar sælkeravörur til að setja í körfurnar.

Úrvalið af innlendum sælkeravörum er mjög fjölbreytt í versluninni og hægt að útbúa frábæra gjafakörfu. „Það er algengt að fyrirtæki kaupi gjafakörfur fyrir jólin fyrir starfsmenn sína eða viðskiptavini. Þá er oft um stórar pantanir að ræða. Einstaklingar velja gjafakörfur til tækifærisgjafa eða af einhverju öðru sérstöku tilefni,“ útskýrir Dóra. „Allir geta fundið sælkeravörur við hæfi. Fólk getur valið persónubundnar uppáhaldsvörur, við erum til dæmis með úrval af íslenskum ostum, hvort sem er kúa eða geita en þar er af mörgu að taka. Við erum með vörur frá íslenskum smáframleiðendum en þeim hefur fjölgað mikið á undanförnum árum og bjóða upp á mjög góða vöru. Þetta eru bæði landbúnaðarvörur og aðrar sælkeravörur. Sömuleiðis bjóðum við upp á ostabretti og -skera.“

Frú Lauga og bændurnir hafa alla tíð lagt ríka áherslu á sérvörur, sælkeravörur og lífrænt ræktaðar vörur. „Við virðum og metum hreinleika í vinnsluaðferðum. Megináherslan undanfarin misseri hefur verið að vera í sambandi við bændur. Okkar mikilvægasti metnaður er að koma hollum og heilbrigðum afurðum beint frá bónda í hendur á neytanda. Við erum með hrávörur eins og grænmeti, egg og kjöt, mjólkurafurðir og aðrar unnar afurðir. Þá erum við sömuleiðis í sambandi við hollenskt fyrirtæki, Eosta, með grænmeti og ávexti, sem er í beinu sambandi við bændur um allan heim og hefur það sama markmið að stytta flutningsleiðir og stytta tímann sem það tekur að koma matvælum á borð neytenda,“ segir Dóra og bætir við að ítalskar lífrænar vörur séu einnig á boðstólum eins og hefur verið allt frá opnun verslunarinnar.

Það er ekki slæmt að fá svona flottar vörur í jólagjöf.

„Við reynum að gefa fólki góð ráð og svara spurningum um hollustu og heilbrigði og góðar afurðir. Við sem störfum í Frú Laugu og bændunum erum hugsjónafólk og veitum viðskiptavinum okkar persónulega ráðgjöf og þjónustu. Hér er mikil breidd í vörum frá alls kyns framleiðendum og við erum stolt af því að bjóða upp á lífrænt ræktað,“ segir Dóra.

Frú Lauga og bændurnir er staðsett að Laugalæk 6 en síminn er 534 7165. Opið er alla virka daga frá 11-18. Einnig erum við með netverslun, verslun.baenduribaenum.is/