Dagrún Ósk Jónsdóttir er doktorsnemi í þjóðfræði við HÍ. „Ég hóf námið 2018 og vinn nú að lokaverkefni um birtingarmyndir kvenna og kynferðisofbeldis í þjóðsögum,“ segir Dagrún.

Síðustu fjögur ár hefur Dagrún skoðað íslensku þjóðsögurnar út frá ólíkum þemum. „Ég er að skoða konur í þjóðsögunum sem fara gegn ríkjandi hugmyndum síns tíma um kvenleika. Konur sem brjótast gegn ríkjandi hugmyndakerfi, sinna karllægum störfum, búa yfir karllægum eiginleikum, afneita móðurhlutverkinu, tröllskessur og huldukonur. Einnig skoða ég hvernig heimilis- og kynferðisofbeldi gegn konum birtist í þjóðsögunum,“ segir Dagrún.

Spegill, spegill

Dagrún rakst á óvæntan kynjavinkil þegar við vinnslu BA-verkefnis í þjóðfræði um mannát í þjóðsögunum. „Ég var að skoða sögur um tröllskessur sem éta saklausa karlmenn. Út frá því fékk ég áhuga á að skoða þjóðsögurnar út frá kynjafræði sem og hvernig konur birtast í þeim almennt.“

Þjóðsögurnar sem Dagrún hefur til hliðsjónar var safnað á seinni hluta 19. og fyrri hluta 20. aldar. „Íslensku þjóðsögurnar voru lengi til í munnlegri geymd og var safnað á þessum tíma. Það er erfitt að segja til um hvernig lífið var þegar sögurnar voru fyrst sagðar. Ég get því einungis notað þjóðsögurnar sem spegil á þann tíma sem þeim er safnað á.“

Að sögn Dagrúnar er ákveðinn innbyggður kynjahalli og valdaójafnvægi í söfnun þjóðsagnanna. Flestallir safnarar hafi verið karlar. Þar er Torfhildur Hólm undantekning. „Í safni Torfhildar fáum við einstakt tækifæri til að sjá konu safna sögum annarra kvenna. Sögur hennar eru frábrugðnar öðrum þjóðsögum. Þar birtist kynbundið ofbeldi í skýrara ljósi en hjá öðrum söfnurum og finnast hlutfallslega fleiri sögur af heimilisofbeldi. Þá er ákveðinn munur á sjónarhorninu í sögunum. Tilfinningar kvenna fá þá meira rými.“

Sögurnar eru flestar um eitthvað annað. Ofbeldið er nefnt í framhjáhlaupi.

Ofbeldið ekki í brennidepli

Í sögum af kynferðisofbeldi finnst Dagrúnu merkilegt að ofbeldið er ekki aðalatriðið. „Sögurnar eru flestar um eitthvað annað. Ofbeldið er nefnt í framhjáhlaupi. Þarna er sérstakur flokkur draugasagna sem fjalla um hetjur sem drepa drauga. Draugarnir hafa gert ýmsan óskunda af sér eins og að nauðga konum. Konunum eða ofbeldinu gegn þeim er þó ekki gefinn mikill gaumur.“

Hvað er svona merkilegt við það?

Í sögum af konum sem brjóta gegn ríkjandi hugmyndum um kvenleika skiptir það meginmáli hversu lengi þær gera það. „Kona sem tekur að sér karlahlutverk í stuttan tíma í þjóðsögu, er hrósað. Jafnvel sögð vera karlmannsígildi í hverju starfi, gefið að hún snúi aftur í kynbundið hlutverk. Þannig er með margar þjóðsögur sem fjalla um konur sem vilja ekki verða mæður. Flestar enda á sama hátt og konurnar uppfylla skyldur sínar að lokum. Konur sem ganga gegn sínu hlutverki í lengri tíma eru hins vegar sagðar sköss og nornir.“

Efri og lægri stétt kvenna

„Konur í efri stéttum eins og bónda- eða prestsdætur eiga meiri möguleika en konur af lægri stéttun til að fara út fyrir kynbuniða hlutverk og fá fyrirgefningu fyrir að brjóta gegn ríkjandi hugmyndum. Sama gildir um sögur af ofbeldi. Langflestar þjóðsögur, þar sem ofbeldi gegn konum birtist, eru sögur af konum í efri stétt. En eflaust var ofbeldi gegn konum í lægri stéttum enn algengara. Það var hörmuleg niðurstaða að komast að því að ofbeldi gegn konum í lægri stétt hefur líklega ekki þótt í frásögur færandi.“

Þá hafa þessar sögur kennt konum hvernig þær geti komið í veg fyrir að verða fyrir ofbeldi af hálfu eiginmannsins.

Konur segja konum af ofbeldi

Dagrún segir áhugavert að skoða hver sé að segja þessar sögur. „Margar ofbeldissagnanna eru sagðar af konum, en virðast ekki þó hliðhollar þeim. Sögur af heimilisofbeldi birtast fremur sem áhrifarík leið til þess að aga konur. Þá hafa þessar sögur kennt konum hvernig þær geti komið í veg fyrir að verða fyrir ofbeldi af hálfu eiginmannsins. Konurnar sem sögðu sögurnar koma úr sama ríkjandi hugmyndakerfi og karlarnir. Þær staðfesta skyldu eiginmanna og feðra til að aga óþekkar eiginkonur og dætur með ofbeldi. Sögurnar hafa þó eflaust veitt konum á þessum tíma huggun og opnað á umræður sem er líka mikilvægt.“

Á þeim tíma sem þjóðsögunum er safnað virðast þær hafa kennt fólki um ríkjandi viðmið og gildi, um hlutverk og hegðun kynjanna. En þrátt fyrir að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan á fyrri hluta tuttugustu aldar þá geta þessar sögur kennt okkur ýmislegt. „Þjóðsagnirnar eru ekki sagnfræðilegar heimildir, en bera með sér sannleika um heimsmynd og viðhorf fólksins sem fæðir þær. Það er mikilvægt að heimsækja gömul gögn og skoða út frá nýjum sjónarhornum. Það sýnir okkur hve gamlar og rótgrónar ákveðnar hugmyndir eru í samfélaginu. Það er mikilvægt að þekkja hvaðan maður kemur til þess að geta betur ákvarðað hvert maður er að fara.“