Fjölgað hefur í hópi hjólandi vegfarenda undanfarin ár og eru hjólreiðar orðnar hluti af daglegri borgarumferð á höfuðborgarsvæðinu, ekki bara yfir sumarmánuðina heldur líka á veturna. Jafnvel í svokallaðri „gulri viðvörun“ má sjá einstaka vegfaranda á hjóli. Þessi þróun er eðlileg. Nútíma borgir um allan heim eru farnar að gera kröfur um vistvænar samgöngur og eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu þar ekki undanskilin.

Vegagerðin hefur undanfarin ár styrkt gerð hjólastíga á höfuðborgarsvæðinu, í þeim tilgangi að tryggja bætt umferðaröryggi hjólreiðafólks. Helstu áskoranir varðandi innviðauppbyggingu fyrir hjólreiðar eru hversu fjölbreyttur hópur hjólandi vegfarenda er. Aldursbilið er breitt, börn jafnt sem aldnir hjóla. Reiðhjól eru líka fjölbreytt, og það getur reynst áskorun að hanna hjólastíga sem henta hefðbundnum reiðhjólum, rafmagnsvespum, keppnishjólum, rafmagnshjólum og reiðhjólum með eftirvagni.

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, SSH, og Vegagerðin hafa reynt að bregðast við þessum áskorunum með gerð sérstakra hönnunarleiðbeininga fyrir hjólreiðar, sem verkfræðistofan Efla vann. Tilgangur leiðbeininganna er einnig að samræma útfærslu innviða á borð við hjólastíga af ýmsum gerðum, brýr og undirgöng, fyrir hjólreiðar á milli sveitarfélaga. Í ritinu er tiltekið hvaða útfærsla hentar best við ákveðnar aðstæður, tekið er á hönnunarstærðum og einnig er lögð áhersla á sjónlengdir og umhverfi. Með þessu er verið að stuðla að auknu umferðaröryggi hjólandi vegfarenda og fólki einnig auðveldað að komast á milli staða.

Næstu skref hjá SSH og Vegagerðinni eru að skilgreina svokallað stofnhjólanet fyrir höfuðborgarsvæðið og mun uppbyggingin byggja á hinum nýútkomnu hönnunarleiðbeiningum.