Aðalbjörg, Helga Gunnarsdóttir og Helga Berglind eru eigendur Dýralæknaþjónustu Eyjafjarðar. Aðalbjörg er fagdýralæknir sjúkdóma hunda og katta og Helga Gunnarsdóttir er sérmenntuð í hestalækningum. Stofan hefur verið í rekstri frá árinu 1998. Stofan þjónar Eyjafjarðarsveit og Þingeyjarsýslu. Helga Gunnarsdóttir segir að þær sinni allri hefðbundinni dýralæknaþjónustu ásamt sérhæfðri þjónustu fyrir hesta og gæludýr, auk dýralækninga í sveitum. „Við erum með neyðarþjónustu allan sólarhringinn alla daga vikunnar.

Við erum með stafrænt röntgentæki og tannröntgentæki sem við getum ferðast með um sveitir ef á þarf að halda. Auk þess bjóðum við upp á allar ómskoðanir jafnt á hestum, gæludýrum og kúm. Þá getum við einnig framkvæmt allar blóðrannsóknir og erum með leysitæki sem við notum við stoðkerfisvandamál jafnt hjá hrossum sem gæludýrum.

Hjá okkur starfa sjö dýralæknar og fjórir aðstoðarmenn. Þetta er því stór stofa. Við fáum til okkar alls kyns vandamál hjá dýrum og segja má að starfið sé afar fjölbreytt. Í því felst mikil þjónusta við bændur í héraðinu og hestamenn,“ segir Helga Gunnars, sem þjónustar að auki hestamenn um allt land. Helga Berglind segir að nú sé að fara í gang mikill annatími þegar sauðburður hefst. „Þá förum við á sveitabæina hér í kring og aðstoðum bændur eftir því sem þörf krefur. Stundum þurfum við að taka á móti kindum á stofuna þegar um keisaraskurð er að ræða. Einnig veitum við bændum ýmsa ráðgjöf en hún er stór þáttur í þessu starfi.“

Hulda Jónsdóttir er hér að fangskoða kú með sónartæki í fjósi í Hörgársveit. FRÉTTABLAÐIÐ/AUÐUNN

Krefjandi starf

Dýr geta fengið alls kyns sjúkdóma, rétt eins og mannfólkið. „Það sem við höfum núna sem ekki var til áður fyrr eru tæki sem greina sjúkdóma. Tækin eru mjög fullkomin og þau hafa breytt starfinu til betri vegar. Viðhorf fólks gagnvart dýraeign hefur sömuleiðis breyst til batnaðar. Fólk hugar að dýravelferð og hugsar almennt mjög vel um dýrin sín. Þess vegna getur það verið mjög sárt ef þau eru alvarlega veik,“ segir Helga Berglind. „Almenn fræðsla til dýraeigenda er alltaf mikilvæg í starfinu ásamt heilsufarsskoðun, bólusetningum, örmerkingum og fyrirbyggjandi meðferðum.“

Hér er Helga Gunnarsdóttir dýralæknir að ómskoða sinar á hesti. FRÉTTABLAÐIÐ/AUÐUNN

Dýralækningar heilluðu

Þegar Helga Berglind er spurð af hverju hún hafi valið þetta starf, segir hún að það hafi verið tilviljun. „Ég er alin upp á sveitabæ og langaði eiginlega að prófa eitthvað nýtt þegar ég kláraði framhaldsskólanámið. Ég ákvað að fara í dýralækningar sem ég heillaðist síðan af og þess vegna er ég hér,“ segir hún. „Ég lauk námi í Danmörku árið 2000. Vann fyrst þar í landi áður en ég hélt heim og keypti mig inn í þetta fyrirtæki árið 2004.“

Lena Tómasdóttir aðstoðarkona er hér að leysi-meðhöndla hvutta

Í doktorsnámi með starfi Helga Gunnarsdóttir hóf störf hjá Dýrey árið 2002 eftir nám. Fyrst í Þýskalandi, en síðan fór hún í sérhæft nám í hestalækningum í Belgíu. „Ég ætlaði alltaf að verða dýralæknir. Var allt frá barnæsku mikið fyrir dýr og sérstaklega hesta. Ég er fædd og uppalin í Reykjavík en kom hingað norður til að vinna í smátíma en hef ekkert farið aftur.

Starfið felur meðal annars í sér mikil ferðalög. Núna er ég að vinna að doktorsverkefni meðfram starfinu og finnst það mjög skemmtilegt. Það er nokkuð merkilegt að ég er sú eina í minni fjölskyldu sem hefur áhuga fyrir dýrum,“ segir hún.

Helga Ragnarsdóttir dýralæknir tekur hér tannröntgenmynd af einum sjúklinga sinna.

Gæludýrum fjölgar

Aðalbjörg segist, eins og Helga Gunnars, alltaf hafa verið ákveðin í að læra dýralækningar. Hún er líka borgarbarn og það var tilviljun að hún settist að á Akureyri. „Ég lærði í Danmörku og lauk þar námi árið 1986. Þegar ég kom heim fór ég beint út á land í afleysingar. Ég fór síðan að vinna hjá Dýrey með tveimur öðrum kollegum og við byggðum fyrirtækið upp. Um það leyti sem Helga Gunnars var að hefja störf hjá Dýrey keypti ég hina tvo út og stelpurnar komu með mér inn í fyrirtækið. Við höfum unnið vel saman og þetta er mjög gott teymi. Hér áður fyrr þótti það mjög sérstakt að konur væru dýralæknar í sveitum, en það hefur breyst mikið. Ég held samt að þetta sé eina stofan á landinu þar sem einungis konur starfa. Við höfum fundið mikinn styrk í að vinna saman, getum skipst á vöktum og haft sveigjanlegan vinnutíma.

Gæludýraeign landsmanna er alltaf að aukast og fyrir sex árum útskrifaðist ég úr sérnámi í sjúkdómum hunda og katta frá Kaupmannahöfn. Mikill tími í okkar vinnu fer einmitt í að lækna gæludýr, hvort sem það eru kettir, hundar, mýs, kanínur, naggrísir eða hamstrar. Einn aðstoðarmaður okkar, Maríanna Garðarsdóttir, er hundaþjálfari að mennt, sem kemur oft að góðum notum,“ segir Aðalbjörg.

Þær eru allar sammála um að þetta sé skemmtilegt starf en krefjandi. „Starfið getur líka verið erfitt, sérstaklega þegar kemur að kveðjustund hjá besta vininum.“

Dýralæknaþjónusta Eyjafjarðar er að Perlugötu 11 og í Kaupangi á Akureyri, sími 461 4950. Einnig er hægt að kynna sér starfsemina á heimasíðunni dyrey.i