Fyrirtækið Formenn var stofnað árið 2007 og var Elvar Þór Ásgeirsson einn af stofnendum fyrirtækisins. Haustið 2013 tók fyrirtækið við þróun á Xadd-hugbúnaðinum sem var notaður til að vinna með gögn í Excel í miðlægum gagnagrunni. Ólafur Róbert Rafnsson varð einn eigandi Formanna um það leyti.

„Lausnin sem Formenn hafa þróað síðastliðin ár hefur einna helst verið nýtt við framkvæmd áhættumats, skráningu og utanumhald eigna-, úttekta- og atvika, ásamt því að vinna Excel-líkön fyrir mat á álagi starfsmanna,“ útskýrir Ólafur.

Þegar Excel-skjal er unnið er það opnað og tengist þá gagnagrunni, gögnin eru sótt í vinnsluskjal, upplýsingar uppfærðar og vistaðar aftur í gagnagrunninn.

„Þannig er tryggt að upplýsingarnar séu á einum stað og er þá töluvert auðveldara að tryggja öryggi þeirra eins og kostur er.“

Skjöld fyrir áhættuvalda

Undanfarin ár hafa Formenn unnið náið með jafnt stórum sem smáum fyrirtækjum í orku- og tæknigeiranum, opinberum aðilum sem og fjármála- og tryggingafyrirtækjum við innleiðingu og útfærslu á samræmdri nálgun við áhættustjórnun.

„Afurð þessa samstarfs er ný lausn sem fengið hefur nafnið Skjöld og er einkar lýsandi fyrir hlutverk kerfisins,“ upplýsir Elvar Þór. „Með Skjöld er auðvelt að skilgreina flokka og viðmið fyrir áhættutöku, halda utan um skrá yfir áhættuvalda, stýringar og áhættu ásamt mótvægisaðgerðum sem taldar eru líklegar til að hafa áhrif á áhættuna. Með lausninni fylgir gagnabanki fyrir áhættuvalda og stýringar sem auðvelt er að viðhalda ásamt skráningu fyrir hlítingu tengda við eignaskrá.“

Eitt af markmiðum Formanna er að viðskiptavinir hafi möguleika á að miðla þekkingu og reynslu sín á milli með viðhaldi á áhættugagnabanka.

„Meðal annars er hægt að nýta Office 365-lausnir til að auka sjálfvirkni með notkun á verkflæði við einkunnagjöf og samþykki áhættu og úthlutun mótvægisaðgerða,“ útskýrir Elvar.

Einn af hornsteinum Skjöld-kerfisins er að hjálpa notendum að ná utan um áhættumat á sem skipulagðastan hátt.

„Ekki síst sökum ástandsins sem nú ríkir um heim allan vegna COVID-19. Það er mikill kostur að hafa aðgang að og geta valið úr mögulegum áhættuvöldum og stýringum, þegar verið er að velta ýmsum sviðsmyndum fyrir sér og til hvaða mótvægisaðgerða hægt er grípa til,“ segir Elvar.

Styður við ákvarðanatöku

Áhættumatið sem slíkt er ekki mjög flókið í framkvæmd en það er vandasamt verk þegar útfæra á skipulag fyrir áhættustjórnun, stefnumótun viðmiða, flokkun áhættu, áhættuvalda, stýringar og fleira.

„Einkum vegna þess að mjög misjafnt er hvaða aðferðum er beitt við áhættumat. Við endurmat á áhættu getur liðið langur tími frá því að matið fer fram og þegar áhætta er endurmetin. Einfaldasta leiðin er að meta áhrif með x-líkum og vinna flestir eftir þeirri aðferðafræði. Flækjustigið kemur svo síðar, til dæmis við útfærslu áhættusamþykkis, endurmat, val mótvægisaðgerða, skýrslugjöf og hvar eigi að vista allar þessar upplýsingar,“ upplýsir Ólafur og heldur áfram:

„Kerfið Skjöld hjálpar notendum að halda skipulega utan um áhættumatið og styðja við ákvarðanatöku og forgangsröðun mótvægisaðgerða eftir vægi áhættu.“

Allar nánari upplýsingar á formenn.is