„Mannvit finnur fyrir miklum áhuga á verkefnum á sviði sjálfbærni hjá sínum viðskiptavinum og er með öflugt þverfaglegt teymi innan fyrirtækisins sem kemur að ráðgjöf og þjónustu fyrir viðskiptavini á sviði sjálfbærni. Meðal þess sem dregur áfram áhuga viðskiptavina eru aukin sjálfbærnivitund í samfélaginu, vilji til að gera vel og græn fjármögnun,“ segir Sandra Rán Ásgrímsdóttir, sjálfbærniverkfræðingur hjá Mannviti.

Græn fjármögnun og vottanir

Á síðustu misserum hefur orðið mikil aukning í svokallaðri grænni fjármögnun. Það þýðir að verkefni sem teljast hafa minni loftslagsáhrif en hefðbundin verkefni hafa möguleika á að fá hagstæðari fjármögnun. Þar má nefna græn húsnæðislán og græn bílalán hjá viðskiptabönkum, og græna skuldabréfaútgáfu hjá fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum.

Inn í græna fjármögnun falla mörg verkefni sem Mannvit kemur að, svo sem vottaðar byggingar, endurnýjanlegir orkugjafar og uppbygging innviða fyrir orkuskipti í samgöngum.

„Við sjáum vel í okkar verkefnum að græn fjármögnun hefur mikil áhrif á okkar viðskiptavini þegar kemur að því að huga að sjálfbærni í sínum verkum. Gjarnan er viðskiptavinur að fara nýjar, ótroðnar slóðir sem hefur meiri óvissu í för með sér eða er kostnaðarsamari en hefðbundnar aðferðir. Þá vegur græn fjármögnun upp á móti þessum kostnaði,“ greinir Sandra Rán frá.

„Mannvit aðstoðar sína viðskiptavini í að kortleggja aðgerðir sem geta fallið inn í græna fjármögnun ásamt því að skilgreina svokallaða græna ramma fyrir græna skuldabréfaútgáfu.“

Áhugi viðskiptavina Mannvits er vegna aukinnar sjálfbærnivitundar í samfélaginu, vilja til að gera betur og grænnar fjármögnunar.

Hvaða hverfi eru sjálfbærnivottuð?

Hið byggða umhverfi hefur meiri áhrif á umhverfi og samfélag en margan grunar. Meðal annars þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda, mengun, nýtingu auðlinda, og upplifun og hegðun íbúa. Með vottunarkerfum er lögð áhersla á að lágmarka lífsferilsáhrif framkvæmda og auka jákvæð áhrif á bæði umhverfi og samfélag.

„Áhugi á BREEAM Communities-sjálfbærnivottun á skipulagi hefur aukist undanfarin ár. Urriðaholt og Vífilsstaðaland í Garðabæ eru vottuð og Mannvit vinnur nú að vottunum á fjórum öðrum verkefnum; Orkureit og Ártúnshöfða í Reykjavík, miðbæ Selfoss og atvinnukjarna í Blikastaðalandi í Mosfellsbæ,“ upplýsir Ólöf Kristjánsdóttir, fagstjóri samgangna hjá Mannviti.

„Vottun á byggingum hefur aukist til muna, bæði Svansvottun og BREEAM-vottun, og kemur Mannvit meðal annars að Svansvottun á Kársnesskóla og BREEAM-vottun nýs hjúkrunarheimilis á Húsavík, ásamt fjölmörgum öðrum verkefnum,“ segir Sandra.

Hvaða þýðingu hefur vottun bygginga og hverfis fyrir íbúa?

„Matskerfi eins og BREEAM er einkunnakerfi; því hærri einkunn sem verkefni fær, því meira hefur skipulags- og hönnunarvinnan verið í samræmi við ýmis atriði í matskerfinu til að auka sjálfbærni þess. Að fylgja matskerfi eins og BREEAM er eins og að vinna með risastóran gátlista, og því meira sem unnið er samkvæmt honum því meiri verða gæði og sjálfbærni skipulagsvinnunnar og hverfisins til framtíðar,“ útskýrir Ólöf.

Nýtt og glæsilegt hjúkrunarheimili á Húsavík er eitt af verkefnum Mannvits verkfræðistofu þegar kemur að BREEAM-sjálfbærnivottun. MYND/ARKÍS

Verslun og þjónusta í nærumhverfinu

Dæmi um kröfur BREEAM-vottunar er að samráð við yfirvöld, stofnanir, íbúa og fleiri sé rauður þráður í gegnum alla vinnuna og að gerð sé samráðsáætlun, þannig að hagsmunaaðilar eigi þátt í mótun skipulagsins eða hönnun byggingarinnar.

„Uppbyggingin skal efla atvinnustarfsemi í nærumhverfinu þegar horft er til skipulags en almennt skal horfa til þess að uppfylla þarfir íbúa og notenda varðandi húsnæði, þjónustu og aðstöðu. Við skipulagsvinnu skal til að mynda gera ráð fyrir verslun og þjónustu, að stutt göngufjarlægð sé í skóla og að gönguleiðir séu aðlaðandi og öruggar,“ segir Sandra.

Mannvit aðstoðar sína viðskiptavini í að kortleggja aðgerðir sem geta fallið inn í græna fjármögnun ásamt því að skilgreina svokallaða græna ramma fyrir græna skuldabréfaútgáfu.

Vellíðan notenda í fyrirrúmi

Mikil áhersla er á gæði opinna svæða og að þau henti fjölbreyttum aldurshópum og stuðli að hreyfingu.

„Kröfur eru um veðurfarsmiðað skipulag, staðaranda, hljóðvist, lýsingarhönnun, aðgengi að grænum svæðum, gróðurval og algilda hönnun. Þá er lögð sérstök áhersla á innivist við vottun bygginga og að tryggja gæði innilofts og vellíðan notenda. Við vottun skipulags skal gera mengunarrannsókn, flóðahættumat og vistfræðistefnu, og auka líffræðilegan fjölbreytileika ef mögulegt er. BREEAM leggur ríka áherslu á sjálfbæra meðhöndlun vatns og innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna,“ skýrir Ólöf frá.

Ólöf Kristjánsdóttir, fagstjóri samgangna, og Sandra Rán Ásgrimsdóttir sjálfbærniverkfræðingur hjá Mannvit verkfræðistofu. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Einnig skal skipulagið styðja við aðgengi fólks að vinnu, þjónustu og afþreyingu með sjálfbærum ferðamátum.

Auðlindanotkun og endurvinnsla skiptir máli

Orku- og auðlindanotkun, hvort sem er nýrra skipulagssvæða eða nýrra bygginga, er töluverð og mikilvægt að huga að því hvernig hægt sé að gera hana sem skilvirkasta.

„Dæmi um þetta í skipulagsvinnu er þegar byggingar nýta dagsbirtu sem best, notuð er vélræn loftræsting með varmaendurvinnslu eða settar eru kvaðir um einangrunargildi til að lágmarka orkunotkun. Gerðir eru svokallaðir orkuútreikningar til að áætla orkunotkun. Þá skal leggja mat á núverandi byggingar og innviði og meta hvað sé hægt að endurnota eða endurvinna. Einnig er hvatt til þess að endurvinna eða endurnýta efni eins og kostur er í öllu hönnunar- og framkvæmdaferli uppbyggingarinnar. Þá er hvatt til þess við hönnun og framkvæmd nýrra bygginga að gera greiningu á heildar umhverfisáhrifum byggingar á hönnunarstigi og taka ákvarðanir með það að markmiði að lágmarka þau áhrif,“ upplýsir Sandra.

Mannvit vinnur nú að BREEAM Communities sjálfbærnivottun á Orkureitnum í Reykjavík. MYND/ALARK

Sjálfbærar samgöngur hverfis

Við vottun skipulags skal gera samgöngumat og bæta umhverfislega sjálfbærni hverfisins.

„Til dæmis með því að minnka ferðaþörf og -lengdir með bílum og styðja við sjálfbæra ferðamáta með bættum innviðum fyrir göngu, hjólreiðar og almenningssamgöngur,“ greinir Ólöf frá.

Einnig skal skipulagið styðja við aðgengi fólks að vinnu, þjónustu og afþreyingu með sjálfbærum ferðamátum.

„Kröfur eru um örugg og aðlaðandi göturými, hjólaleiðir og -stæði, þjónustutíma og tíðni almenningssamgangna og gæði stoppistöðva. Það á við um bæði vottun skipulags og byggingar. Stig fást ef bílastæðafjöldi er ákvarðaður út frá framboði almenningssamgangna, að hvaða leyti skipta megi bílferðum út fyrir sjálfbærari samgöngumáta og því að nota landrými á hagkvæman hátt. Einnig að hönnun bílastæða, að þau falli vel inn í byggðina og séu örugg,“ upplýsir Ólöf.

Mannvit verkfræðistofa er í Urðarhvarfi 6 í Kópavogi. Sími 422 3000. Allar nánari upplýsingar um Mannvit á mannvit.is.