Lyfjaskammtarar eru byltingarkennd velferðartækni sem nýtist einkar vel í fjarheilbrigðisþjónustu að sögn Stefaníu Fanneyjar Björgvinsdóttur, viðskiptastjóra á heilbrigðissviði Icepharma.

„Tilkoma þeirra hér á landi styður enn frekar við sjálfstæða og lengri búsetu fólks í heimahúsum, bætir gæði þjónustunnar, eykur skilvirkni og tryggir einstaklingum örugga og rétta lyfjagjöf á tilsettum tíma,“ segir hún.

Rétt lyf á réttum tíma

Evondos sjálfvirki lyfjaskammtarinn hefur nú þegar byrjað að þjóna íbúum sem nýta sér heimaþjónustu Reykjavíkurborgar og víða utan höfuðborgarsvæðisins. Þeir sem hafa nýtt sér Evondos lyfjaskammtarann búa heima en þurfa daglega eða oftar aðstoð og eftirfylgni við lyfjainntöku.

„Í lyfjaskammtarann eru settar hefðbundnar lyfjarúllur og les tækið þær upplýsingar sem fram koma á hverjum lyfjapoka og skammtar rétt lyf á réttum tíma. Lyfjaskammtarinn er með bæði texta- og raddleiðbeiningum á íslensku, sem styður enn betur við meðferðarheldni,“ segir Stefanía.

„Lyfjaskammtarar hafa verið til prófunar hjá Reykjavík síðan í nóvember 2021, þar sem notendur heimaþjónustunnar hafa fengið lyfjaskammtara til þess að aðstoða þá við lyfjagjöf á heimili sínu. Stór partur af þeirri þjónustu sem heimaþjónustan í Reykjavík veitir er aðstoð við lyfjagjöf. Með lyfjaskammtaranum fá skjólstæðingar lyfin sín á réttum tíma í réttum skammti án beinnar aðkomu starfsmanns, en starfsmenn fylgjast með í gegnum miðlægt kerfi og fá tilkynningar ef lyf eru ekki tekin og geta þá brugðist við,“ segir Kristín Sigurðardóttir, verkefnisstjóri í Velferðartæknismiðju Reykjavíkurborgar.

„Lyfjaskammtarar hafa reynst vel í heimaþjónustu Reykjavíkurborgar, starfsfólk hefur öðlast meiri tíma til að sinna öðrum þjónustuþáttum og notendur eru almennt ánægðir með tæknina og upplifa öryggi við það að hafa hann á heimilinu.“

Evondos, sjálfvirkur lyfjaskammtari.

Getur spurt um líðan

Stefanía segir að hægt sé að senda persónuleg skilaboð inn í lyfjaskammtarann, til dæmis til að minna viðkomandi á að hann þurfi að drekka vatn með lyfjum, mæta til sjúkraþjálfara á ákveðnum tímum og/eða að viðkomandi eigi von á heimavitjun.

„Einnig er hægt að spyrja um líðan sem einstaklingurinn svarar síðan í gegnum lyfjaskammtarann. Ef einstaklingur gleymir að taka lyfin innan ákveðins tímaramma koma skilaboð eða viðvaranir í miðlægt kerfi svo heimaþjónustan getur brugðist strax við. Þetta eftirlit veitir einstaklingum mikið öryggi, til dæmis þeim sem búa einir eða í mikilli fjarlægð frá aðstandendum,“ segir hún.

Lyfjaskammtarinn er frá finnska fyrirtækinu Evondos og þjónustar það í dag um 200 heilbrigðisumdæmi á Norðurlöndunum.

„Evondos er frumkvöðull og leiðandi á þessu sviði og samkvæmt The Financial Times er það eitt af þeim fyrirtækjum sem vaxa hvað hraðast í Evrópu. Evondos er með fjarvöktun á öllum sínum lyfjaskömmturum allan sólarhringinn, allan ársins hring og jafnframt sér Icepharma um þjónustu og viðhald hér á landi,“ segir Stefanía.

Nýsköpun í velferðartækni

Mikil nýsköpun á sér stað í velferðartækni og lausnum sem stuðla að því að fólk getur búið lengur heima hjá sér í öryggi og með þjónustu sem er því mikilvæg, að sögn Stefaníu.

„Sjálfvirki lyfjaskammtarinn er gott dæmi um slíka lausn og fram undan er hröð þróun í notkun velferðartækni við hönnun íbúða fyrir þá sem þurfa á þjónustu að halda.“

Nánari upplýsingar má nálgast hjá Icepharma í síma 540-8000 eða hjá stefaniaf@icepharma.is