Það er rífandi gangur hjá okkur,“ segir Kjartan Ólafsson, eigandi og framkvæmdastjóri Reglu, og bætir við: „Við þurfum ávallt að vera á tánum til að geta brugðist við þörfum viðskiptavina, en á tímum COVID koma upp ýmis verkefni sem við viljum leysa. Við teljum að heimsfaraldurinn muni breyta mörgu til framtíðar og þarf hugbúnaður eins og Regla að sjálfsögðu að bregðast við því. Það er til dæmis öllum ljóst að vefverslanir eru komnar til að vera og það hefur verið mikil sókn í vefverslunartengingar Reglu á undanförnum mánuðum. Bæði hafa núverandi viðskiptavinir okkar í Reglu verið að bæta vefverslun við sinn rekstur og svo sækjast nýir viðskiptavinir eftir kerfi með rauntíma uppfærslum á sölu og birgðum. Við erum með mjög góðar tengingar milli Reglu og Shopify og Woocommerce vefverslana og höfum eiginlega ekki haft undan við að innleiða þær undanfarna mánuði, sem er auðvitað mjög ánægjulegt vandamál. Eins hefur afgreiðslukerfið okkar slegið í gegn og hafa innleiðingar á því á tímum COVID verið miklu fleiri en við reiknuðum með,“ segir Kjartan.

Kjartan Ólafsson, eigandi og framkvæmdastjóri Reglu, segir nóg að gera hjá Reglu við að leysa vandamál sem komið hafa upp hjá fyrirtækjum í COVID-19 faraldrinum.

Rafrænir reikningar áskorun og tækifæri fyrir marga

Önnur áskorun sem blasir við viðskiptavinum Reglu er aukinn þrýstingur á rafræna reikninga, en mörg fyrirtæki og opinberar stofnanir eru farin að gera kröfu um að fá eingöngu rafræna reikninga. „Hvað þetta varðar höfum við reyndar um árabil boðið upp á þessa virkni í Reglu og verið í fararbroddi. Enda er þetta mjög í samræmi við þá þróunarstefnu sem við settum í upphafi og höfum haldið okkur við, sem er að auka sjálfvirkni og minnka vinnuna við bókhaldið eftir því sem kostur er. Rafrænir reikningar, hvort sem er sending eða móttaka, er gríðarleg framför í fjárhagskerfum. Þetta er mikill tímasparnaður, villuhættan er mun minni og svo er þetta umhverfisvænt, sem skiptir okkur öll miklu máli, því ekki er gerð krafa um útprentun á reikningum, þar sem þeir ferðast þess í stað rafrænt á milli fyrirtækja. Rafrænir reikningar eru alltaf aðgengilegir inni í Reglu og er engin þörf á útprentun eða skönnun á þeim.“

Regla hentar jafnt í heimavinnu og á skrifstofunni

Heimsfaraldurinn hefur neytt marga til að vinna heima við og þar hefur Regla reynst haukur í horni því hugbúnaður Reglu er allur á veraldarvefnum og notandi getur unnið í honum hvar sem er. „Nýtt skönnunarapp Reglu fyrir fylgiskjöl hefur líka komið sér vel en það gerir viðskiptavinum okkar kleift að nýta símann til að koma myndum af fylgiskjölunum sínum beint inn í sína Reglu þar sem er svo unnið úr þeim. Þetta er ekki síst hentugt fyrir viðskiptavini bókhaldsstofa sem nota í auknum mæli Reglu. Engin þörf er á heimsóknum milli aðila heldur færast skjölin rafrænt. Viðskiptavinir okkar í Reglu geta því heldur betur hlýtt þríeykinu góða og sleppt óþarfa fundum, en haft samt óhindraðan aðgang að öllum sínum gögnum.“

Kjartan segir að Regla megi vel við árangur ársins 2020 una. „Auðvitað hefur vöxtur ekki verið eins mikill og mörg undanfarin ár því margir viðskiptavinir Reglu hafa því miður átt undir högg að sækja í þessum mikla faraldri.“ Þá segir hann að fyrirtækið hafi komið til móts við sitt fólk eftir fremsta megni og reynt að létta undir meðan ástandið gengur yfir. Hann horfir þó björtum augum til framtíðar því fram undan er bólusetning heimsbyggðarinnar og atvinnulífið snýst aftur í gang. „Regla er hugbúnaður sem á erindi við nútímann og framtíðina líka. Sjálfvirkni og vinnusparnaður eru sígild markmið og þar erum við á heimavelli. Við erum með hugbúnað sem stækkar með fyrirtækjunum, er einfaldur í notkun og mjög öflugur,“ segir Kjartan.

Bryndís Sigurðardóttir, Pétur Sigurðsson, Þórður Örn Helgason og Sveinn Baldursson.

Skrifstofan í símann

Kjartan segir að árið 2020 hafi þróunarhugmyndin verið „Skrifstofan í símann“ og þó talsvert hafi unnist á þeim vettvangi er því verkefni langt frá því lokið. „Skönnunarapp í símanum hefur farið vel af stað og skráning í verkbókhald sömuleiðis, en nú er hægt að skrá bæði tíma og efni í verk í símanum. Fyrir athafnafólk á ferðinni getur verið gott að geta klárað að gera reikninga strax og hefur það verið útfært í smáforriti í símann, bæði fyrir Android síma og Iphone.“

Við leggjum áherslu á þjónustu

„Við höfum alltaf lagt mikla áherslu á góða þjónustu og gott gengi Reglu á undanförnum árum má ekki síst þakka henni. Við höfum líka ávallt lagt áherslu á að vera með sanngjarnt verð en þjónustan verður alltaf númer eitt,“ segir Kjartan. Regla býður upp á ókeypis námskeið tvisvar í mánuði fyrir viðskiptavini. „Þau voru alltaf haldin hér í fundarherberginu á Suðurlandsbraut 50, en COVID henti okkur í djúpu laugina og nú eru öll námskeið á netinu. Það hefur gengið ótrúlega vel og við höfum útrýmt biðlistum. Í stað þess að hafa pláss fyrir fimm eins var áður geta allir mætt á námskeið sem vilja og síðasta námskeið sátu tæplega 50 nemendur.“

Framtíðin er björt

Það er augljóst að Regla rifar ekki seglin þrátt fyrir heimsfaraldur. Á undanförnum vikum hefur fyrirtækið ráðið sex starfsmenn í fullt starf og hefur nú þrefaldað starfsmannafjöldann á fimm árum. „Já, það eru kannski ekki mörg fyrirtæki að fjölga starfsmönnum á þessum tíma en það eru mörg mikilvæg verkefni sem við verðum að leysa fyrir okkar viðskiptavini og í þessum „bransa“ þýðir ekkert að staldra mikið við. Þróunin er á fleygiferð og við verðum að vera á tánum,“ segir Kjartan að lokum.

Regla ehf. er staðsett að Suðurlandsbraut 50. Sími: 520-1200. Nánari upplýsingar á regla.is.