Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum, Tækniminjasafn Austurlands á Seyðisfirði og Sjóminjasafn Austurlands á Eskifirði ásamt Gunnarsstofnun, menningar- og fræðasetri á Skriðuklaustri í Fljótsdal, leiddu samstarfsverkefnið Austfirskt fullveldi – sjálfbært fullveldi í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands.

Elsa Guðný Björgvinsdóttir, safnstjóri Minjasafns Austurlands, segir hugmyndina að sýningunni hafa kviknað þegar Austurbrú, þverfagleg stofnun í forsvari fyrir þróun atvinnulífs, rannsókna og menntunar í fjórðungnum, kallaði saman fólk úr menningargeiranum til að ræða hvernig ætti að halda upp á tímamótin á Austurlandi.

„Söfnin á svæðinu voru áhugasöm um að standa fyrir viðburði í tengslum við tímamótin. Niðurstaðan varð sú að þau, ásamt Gunnarsstofnun, myndu sameinast um sýningu í tilefni afmælisins en Austurbrú myndi sjá um verkefnastjórn og halda í alla þræði,“ segir Elsa.

Myndirnar af börnunum voru teknar með gamaldags aðferð til að ná réttri stemmningu.

Á sýningunni var frumlegum aðferðum beitt til að skoða og skapa umræðu um hugtökin fullveldi og sjálfbærni út frá aðstæðum barna. Kjarninn var fjórskipt sýning, sem sett var upp á þessum söfnum og Gunnarsstofnun. Á hverjum stað voru tvö börn í forgrunni, annars vegar barn frá árinu 1918 og hins vegar barn af sama kyni og á sama aldri árið 2018. Aðstæðum barnanna var lýst í fyrstu persónu frásögnum þar sem komið var inn á mismunandi málefni sem tengjast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, svo sem fátækt, hungur, heilsu, menntun, jafnrétti, aðgang að vatni, sjálfbæra orku, atvinnumöguleika og nýsköpun. Sýningin var opnuð þann 17. júní árið 2018 og stóð yfir fram á haustið. Þann 1. desember sama ár var hún sameinuð á einum stað í Menntaskólanum á Egilsstöðum í tengslum við fullveldishátíðarhöldin fyrir austan.

„Sögurnar voru frumsamdar en byggðar á heimildum á aðstæðum barna þá og nú. Þær voru myndskreyttar með ljósmyndum sem voru annars vegar af barni í nútímanum og hins vegar mynd sem var tekin af sama barni með gömlum ljósmyndabúnaði frá Eyjólfi Jónssyni, ljósmyndara á Seyðisfirði. Þannig náðum við gamaldags útliti á myndunum sem kom mjög skemmtilega út. Þetta var kryddað með gripum úr safnkosti safnanna og hlutum úr nútímanum sem tengdust umfjöllunarefnunum. Gestirnir voru hvattir til að líta í eigin barm og spegla sínar eigin aðstæður við aðstæður barnanna þá og nú og við heimsmarkmiðin. Sýningin var vel sótt og fólki fannst gaman að setja sig í spor barnanna,“ segir Elsa.

„Að fá tilnefningu til Íslensku safnaverðlaunanna hefur gríðarlega þýðingu fyrir okkur og er mikil viðurkenning á því sem við erum að gera. Það renndu allir frekar blint í sjóinn með þetta verkefni en það gekk mjög vel. Það er kannski ekki síst að þakka þessu góða samstarfi milli safnanna og allra hinna stofnananna. Það lögðu allir eitthvað af mörkum, einhverja sérþekkingu og hæfileika. Útkoman var þessi sýning sem er mjög gaman að hafi vakið þessa miklu athygli.“

Alls tóku níu mennta-, menningar- og rannsóknastofnanir á Austurlandi þátt í verkefninu. Auk þeirra stofnana sem nefndar hafa verið komu Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Landgræðslan og Skólaskrifstofa Austurlands einnig að því. Sýningarhönnun var í höndum Litten Nyström og Ingva Arnar Þorsteinssonar.