Baldur Pálsson framkvæmdastjóri segir að einingahús frá SG Húsum hafi verið sett upp um allt land. Mikill áhugi sé á einingahúsum úr timbri og að SG Hús geti boðið margvíslega hönnun, stærð og lögun. „Við smíðum 40-60 íbúðir á ári um allt land. Bæði eru þetta íbúðar- og sumarhús. Þá hafa ferðaþjónustubændur einnig nýtt sér kosti SG Húsa.

Timbrið vinsælt

Einnig höfum við smíðað færanlegar kennslustofur fyrir leik- og grunnskóla. Hér eru um fimmtíu fastir starfsmenn fyrir utan undirverktaka sem eru fjölmargir, til dæmis píparar og rafvirkjar,“ segir Baldur. „Mér finnst hafa orðið einhver vakning í samfélaginu gagnvart timburhúsum og eftirspurnin er alltaf að aukast. Einingahúsin eru mun ódýrari kostur en steinsteypt hús, að minnsta kosti þessi einföldu,“ segir hann. „Reyndar hafa timburhúsin alltaf verið mjög vinsæl hér á Suðurlandi en mér finnst áhuginn vera að aukast annars staðar á landinu.“

Baldur segir að töluvert sé flutt inn af einingahúsum úr timbri en SG Hús séu fyllilega samkeppnishæf við þá framleiðslu og að mörgu leyti hentugri þar sem þau séu unnin frá grunni hérlendis. „Það er komin löng og góð reynsla af húsunum okkar,“ segir hann og bendir á að SG Hús selji einnig einingar fyrir aðra, utanhússklæðningar, þaksperrur, gólfbita og fleira.

Óþrjótandi möguleikar

Möguleikarnir í einingahúsunum eru nánast óþrjótandi og við reynum ávallt að aðlaga húsin að óskum viðskiptavinarins þar sem tekið er tillit til staðsetningar, sólaráttar, útsýnis og fleiri þátta. Við erum með okkar eigin hönnunardeild sem vinnur allar arkitekta- og verkfræðiteikningar og eru þær innifaldar í verðinu okkar, sem og raflagnateikningar,“ segir hann.

Baldur segir að einfalt einingahús geti orðið fokhelt á fimm dögum. „Við forsmíðum á verkstæði en það fer eftir vali á klæðningu hvort við setjum hana upp á verkstæðinu eða þar sem húsið er reist. Algengast í dag er beiðni um einbýlishús af meðalstærð. Þau hafa verið pöntuð víðs vegar um landið. Einnig höfum við verið að byggja raðhús og fjögurra íbúða fjölbýlishús sem hafa komið vel út. Það eru ódýrar litlar íbúðir úr timbri sem er nýjung á Íslandi. Við höfum smíðað nokkur slík á Selfossi.“

Fjögurra íbúða hús á Selfossi en íbúðirnar hafa verið mjög vinsælar. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Fyrirtæki í örum vexti

Sigurður Guðmundsson stofnaði SG Hús árið 1966 og í fyrstu var það einungis fjölskyldufyrirtæki. Núna er félagið í eigu nokkurra starfsmanna sem allir hafa langa reynslu. „Við hönnum, reisum og byggjum,“ segir Baldur. „Um áramótin flytur fyrirtækið í mun stærra og hentugra verksmiðjuhúsnæði að Háheiði 3 á Selfossi og sameinast þá fyrirtæki sem heitir Eðalbyggingar. Framleiðslugetan við flutninginn í nýju verksmiðjuna okkar verður mun meiri því á sama tíma munum við taka í notkun nýja öfluga tölvustýrða bútsög sem talar beint við hönnunarforritið okkar. Við munum einnig geta byggt minni hús og allar húseiningar innandyra við bestu mögulegu aðstæður. Við höfum starfað mikið með Eðalbyggingum undanfarin fjögur ár svo það verður mun hagkvæmara fyrir okkur að vera undir einu þaki,“ segir Baldur enn fremur.

„SG Hús hafa unnið markvisst að því í gegnum árin að auka við gæði framleiðslunnar og er vinna við CE-merkingu húsanna frá SG Húsum langt komin. Það verður komið á eftir stuttan tíma,“ segir Baldur. „Til að öðlast CE-merkingu framleiðslunnar þarf félagið að gangast undir gífurlegan sjálfsaga, þar sem allt framleiðsluferlið er nákvæmlega skilgreint. Unnið er eftir virku gæðaeftirliti þar sem gerðar eru reglulegar prófanir á hinum ýmsu húshlutum auk þess sem allar byggingarvörur sem við kaupum inn og notum til framleiðslunnar þurfa að uppfylla ákveðna gæðastaðla.“

Falleg raðhús frá SG Húsum á Selfossi. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Timbur er umhverfisvænt byggingarefni

Á undanförnum árum hefur orðið vitundarvakning á Íslandi varðandi mikilvægi umhverfisverndar en húsbyggingar úr timbri hafa til dæmis mun minna kolefnisspor en steinsteypt hús. Timbrið hefur einnig margvíslega aðra eiginleika að sögn Baldurs. „Timbur er auðvinnanlegt, sterkt miðað við þyngd, hefur gott einangrunargildi og er fallegt byggingaefni sem hentar vel þar sem burðarvirki og aðrir byggingarhlutar eru sýnilegir. Þar að auki er timbur vistvænt og leggjum við okkar af mörkum til umhverfisverndar með því að kaupa eingöngu timbur sem unnið er úr sjálfbærum skógum,“ segir Baldur að lokum.

Á heimasíðunni www.sghus.is má skoða alls kyns teikningar af húsum og fá ýmsar upplýsingar um starfsemi SG Húsa. Þá má hafa samband í gegnum tölvupóst sghus@sghus.is eða í síma 547 3344.

SG Hús flytja í nýtt húsnæði um áramótin. Að sjálfsögðu er það byggt úr timbri og unnið af SG Húsum. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI