Hulda Stefánsdóttir er sviðsforseti akademískrar þróunar í Listaháskóla Íslands. Hún segir að nefna megi til dæmis viðamikið fimm ára rannsóknarverkefni dr. Þórhalls Magnússonar, rannsóknarprófessors, og hans teymis:

„INTENT snjallhljóðfæri: Að skilgreina gervigreind 21. aldar gegnum skapandi tónlistartækni. Verkefnið hlaut stærsta styrk sem veittur er einstökum rannsakanda frá Evrópska rannsóknarráðinu árið 2020. Um er að ræða fimm ára þverfaglegt verkefni sem hýst er við Listaháskólann þar sem skoðuð eru áhrif gervigreindar á skapandi vinnu í gegnum smíði hljóðfæra og tónlistarflutnings. Þátttakendur í verkefninu verða á staðnum í Laugardalshöll með fjölda hljóðfæra sem verkefnið hefur þegar leitt af sér og gefst gestum færi á að upplifa og kynna sér nánar þær áleitnu spurningar sem verkefnið vekur um þátt og vægi gervigreindar í daglegu lífi okkar. Brýnar áskoranir samtímans eru þannig í brennipunkti rannsókna í listum, eins og á öðrum rannsóknasviðum.“

Ísbirnir á villigötum og FishSkin

„Útgáfan Óræð lönd fjallar um listrannsóknir Bryndísar Snæbjörnsdóttur, prófessors í myndlist, og samstarfsmanns hennar Marks Wilson. Rannsóknarverkefni þeirra, Ísbirnir á villigötum, hlaut styrk úr Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs árið 2019. Í verkefninu beina þau sjónum að misvísandi hegðun innan vistkerfisins sem birtist í einstöku samspili manna, dýra og annarra lífvera. Alþjóðlega samstarfsverkefnið Baráttan gegn örplastmengun (Plastic Justice) fól í sér rannsókn á því hvernig nýta megi aðferðir grafískrar hönnunar og sjónrænnar miðlunar til að vekja athygli samfélaga á langtíma heilsuáhrifum mengunar sem stafar af ofgnótt örplasts í umhverfinu. Lóa Auðunsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir, lektorar í grafískri hönnun, leiddu verkefnið fyrir hönd skólans og hlaut það styrk úr Horizon 2020 áætlun Evrópusambandsins. Annað verkefni innan hönnunardeildar sem kynnt verður, FishSkin, fjallar um möguleika sjávarleðurs sem umhverfisvæns valkosts við framleiðslu lúxusefna í fatahönnun. Katrín María Káradóttir, dósent í fatahönnun, er fulltrúi Listaháskólans í þessu stóra alþjóðlega verkefni sem styrkt var af Marie Curie-áætlun Evrópusambandsins.“

Þýðing birkis í menningu og listum

Hulda nefnir að þverfaglegt samstarf milli háskóla, stofnana og ólíkra fagsviða hér á landi hafi færst mjög í aukana á síðustu árum og Listaháskólinn sé áfram um að nýta krafta sína og sérþekkingu sem framlag til slíks samstarfs.

„BirkiVist er þverfræðilegt rannsókna- og þróunarverkefni sem miðar að þróun skilvirkra leiða við endurheimt birkiskóga á landsvísu. Auk þess að greina helstu hindranir og tækifæri fyrir náttúrulegt landnám birkis eru samfélagslegir þættir skoðaðir, þar með talið þýðing birkis í listum og menningu. Fulltrúar LHÍ eru þær Rúna Thors, lektor í vöruhönnun, og Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, dósent í umhverfisheimspeki við listkennsludeild.“

Á mörkum dans og myndlistar

„Loks er það verkið ALDA sem er innsetning á mörkum dans og myndlistar, innblásin af sögu og líkamlegri vinnu kvenna. Höfundur þess er Katrín Gunnarsdóttir, dósent í samtímadansi, en verkið var sett upp á sýningu í Gerðarsafni í Kópavogi síðasta sumar. Verkefnið er eitt dæmi um hvernig félagssögulegir þættir eru virkjaðir með nýstárlegum hætti með aðferðum listanna. Það felst sögn í því hvernig við hreyfum okkur í umhverfinu, rétt eins og hvernig við hugsum.

Við val á framlagi Listaháskólans til Vísindavöku horfðum við til þess að kynna nýleg rannsóknarverkefni sem unnin eru innan vébanda skólans fyrir tilstilli styrkja úr ytri styrktarsjóðum, bæði innlendum sjóðum og Evrópusjóðum, og leitumst við að draga fram mikilvægi slíkra styrkja fyrir framgang og þróun rannsóknarverkefna í listum, rétt eins og í öðrum greinum. Um er að ræða fjölbreytt verkefni og markmið okkar var að draga fram breidd þeirra rannsókna sem listirnar spanna og samvirkni þeirra, ef ekki oft á tíðum skörun, við önnur fræðasvið.

Sýn okkar til nánustu framtíðar er að halda áfram að styrkja aðkomu lista, hönnunar og arkitektúrs að rannsóknarumhverfinu og brýnum málefnum samtímans.Við erum sannfærð um að enginn einn einstaklingur eða eitt sérfræðisvið þekkingar geti leitt fram lausnir eða umbreytt nálgun okkar og sýn á þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Til þess að skapa nýja haldbæra þekkingu þurfi að leiða saman ólík þekkingarsvið, ólíkar nálganir og raddir, til samtals og greininga. Það er engin tilviljun að yfirskrift nýafstaðinnar ráðstefnu Listaháskólans bar yfirskriftina Enginn er eyland.“