RVK Brewing og hefur rekið litla bruggstofu við hlið brugghússins í Skipholti undanfarin þrjú ár. Þrátt fyrir takmarkaðan opnunartíma og erfiða staðsetningu hefur bruggstofan notið vinsælda meðal þeirra sem þangað hafa ratað. Hún var meðal annars valin best geymda leyndarmálið fyrir drykki árið 2020 í Reykjavík Grapevine. Vegna vinsælda bruggstofunnar og brugghússins var tekin sú ákvörðun að stækka á báðum sviðum. Annars vegar verður opnuð ný bruggstofa ásamt veitingastaðnum Honkítonk BBQ á Snorrabraut og hins vegar er verið að innrétta afkastameira brugghús við hlið þess gamla.

Bruggstofan & Honkítonk BBQ verða á Snorrabraut 56 í húsi sem er nátengt bjórsögu Íslands, því þar var Ríkið við Snorrabraut þann 1. mars 1989 þegar bjór var fyrst leyfður á Íslandi.

„Nýi staðurinn er svo að segja tvískiptur, annars vegar er bruggstofa með 16 tegundir af handverksbjór beint af krana og hins vegar veitingastaður þar sem verður boðið upp á fyrsta flokks hægeldað amerískt BBQ,“ segir Valgeir Valgeirsson, bruggmeistari hjá RVK Brewing.

Valgeir hefur gaman af að prófa óvenjuleg innihaldsefni þegar hann þróar nýjar bjóruppskriftir. Hann er með meistaragráðu í eimingu og bruggun.

Valgeir er með meistaragráðu í eimingu og bruggun frá Skotlandi en hann hefur unnið á Íslandi sem bruggmeistari frá árinu 2007.

„RVK Brewing, eða RVK Bruggfélag eins og við köllum það á íslensku, var stofnað árið 2017 og við byrjuðum að brugga árið 2018. Þetta er skapandi brugghús, þar sem hafa verið framleiddar yfir 100 tegundir mismunandi bjóra,“ útskýrir hann.

„Við erum komnir á þann stað núna að við önnum ekki eftirspurn í litla brugghúsinu okkar, þrátt fyrir Covid og algjöra uppstokkun á sölunni hjá okkur vegna þess. Fyrir Covid treystum við algjörlega á sölu á aðra bari og veitingahús ásamt kútasölu og sölu á litlu bruggstofunni okkar. Það hrundi allt saman í Covid. Þá fórum við að einbeita okkur meira að ÁTVR og þar hefur salan verið að tvöfaldast á milli ára.“

Fjölbreytni nauðsynleg

Valgeir útskýrir að vegna smæðar íslenska markaðarins einbeiti RVK Bruggfélag sér ekki að einni tegund af bjór heldur bruggi allt frá ljósum lagerum yfir í þroskaða súrbjóra og rammsterka „stouta“.

„Það er nauðsynlegt í þessum bransa að geta bruggað bjór af mörgum tegundum og bjóða upp á fjölbreytni,“ segir hann.

„Það er mikil vöruþróun í gangi hjá okkur, nýjar tegundir detta reglulega inn. Við höfum unnið með ýmsum aðilum að því að búa til áhugaverða bjóra. Ég hef til dæmis gert samstarfsbjór með kokteilameistara. Við endursköpuðum uppáhaldskokteilinn hans í bjór. Eins hef ég búið til bjór með tónlistarmönnum, íslenskum hjólaframleiðanda og rakaranum mínum. Ég hef líka gert fjölda bjóra með öðrum brugghúsum, bæði erlendum og innlendum. Maður leitar víða.“

Valgeir hefur gaman af því að prófa óvenjuleg hráefni í bjórinn og nefnir að í einum jólabjórnum sem hann gerir árlega stingi hann bókstaflega heilu jólatré út í pottinn.

„Ég set líka Mackintosh, þrjár tegundir af smákökum og mandarínur út í pottinn. Hugmyndin var að nota allt sem mér finnst jólalegt í uppskriftina fyrir utan sjálft skrautið auðvitað,“ segir Valgeir og hlær.

„Ég hef líka gert morgunverðarbjór. Út í hann setti ég það sem mér þykir gott að borða í morgunmat eins og kókópöffs, hafragraut, pönnukökur, smávegis af beikoni og auðvitað kaffi. Núna erum við að gera slatta af súrbjórum og þá nota ég íslenska skyrið til að sýra bjórinn. Maður finnur þetta samt ekki allt á bragðinu. Þegar ég bý til uppskriftir þá snýst þetta um jafnvægi svo það er ekki eitt ákveðið bragð sem poppar upp.“

Valgeir segir að RVK Bruggfélag leggi mikinn metnað í að gera gæðavöru, bæði hvað varðar bragð, útlit og framsetningu. Bjórinn frá þeim er handverksbjór sem er ógerilsneyddur og ósíaður til að varðveita sem mest bragðgæði. Teiknararnir Linda Ólafsdóttir, Rán Flygenring og Sölvi Dúnn Snæbjörnsson voru fengnir til að myndskreyta umbúðir og auka á fjölbreytileikann í vörulínunni.

Gunnar Georg Gray er spenntur fyrir að opna alvöru amerískan BBQ-stað í Reykjavík. fréttablaðið/valli

Ekta bandarískur BBQ-staður

Eins og áður kom fram opnar RVK Bruggfélag fljótlega bar á nýjum veitingastað á Snorrabraut. Veitingastaðurinn heitir Honkítonk BBQ og mun bjóða upp á bandarískan grillmat. Bruggstofan og Honkítonk BBQ er samstarfsverkefni eigenda RVK Bruggfélags og Vínstúkunnar Tíu sopa á Laugavegi. Undanfarna mánuði hefur mikill metnaður verið lagður í að innrétta vinalegan og þægilegan veitingastað fyrir unnendur góðs matar og drykkjar. Það verður eitthvað í boði fyrir alla, konur, karla, börn og fullorðna og vegan fólk er ekki út undan.

Gunnar reykir allt kjöt sjálfur á veitingastaðnum en svínarifin eru sérskorin fyrir hann hjá SS.

Yfirkokkur á Honkítonk BBQ er Gunnar Georg Gray. Gunnar útskrifaðist sem kokkur árið 2018 og hefur unnið víða, bæði á Íslandi og erlendis. Hann er mikill áhugamaður um bandaríska grillmenningu og hefur lengi átt sér þann draum að opna grillstað á Íslandi.

„Það má segja að ég hafi dottið í lukkupottinn þegar Ragnar Egilsson hjá Vínstúkunni hafði samband við mig. Hann var yfir Dillinu þegar þau fengu Michelin-stjörnuna en hann hefur verið ráðgjafi minn og hefur fengið að smakka matseðilinn sem er núna alveg tilbúinn,“ segir Gunnar.

„Þetta er alvöru „low and slow“ BBQ-staður. En slíkur staður af þessari stærðargráðu hefur ekki sést áður á Íslandi. Það verður ekki hamborgari og franskar á matseðlinum heldur alvöru amerískur seðill. BBQ-menningin í Bandaríkjunum er mjög stór en ég hef valið það besta frá hverjum stað en set mitt tvist á réttina,“ útskýrir hann.

„Norður-Karólína er til dæmis með besta kjúklinginn og svínið að mínu mati þannig að ég fæ áhrif frá þeim í mínum réttum. Þegar ég bý til brisket og nautarif þá færi ég mig til Texas og þegar ég bý til sósur þá horfi ég mikið til Kansas.“

Gestir velja sjálfir meðlæti með kjötinu eða vegan réttinum.

Allt kjöt reykt á staðnum

Kjötið fær Gunnar frá SS en þar eru svínarifin sérskorin fyrir hann svo það er meira kjöt á þeim en venjan er.

„SS býr líka til pylsur fyrir okkur eftir uppskrift frá okkur en ég reyki allt kjöt sjálfur á veitingastaðnum,“ segir hann.

„Við erum líka með gott úrval fyrir vegan fólk. Það verður til dæmis loksins hægt að fá reykta vatnsmelónu á Íslandi sem sumir segja að komi í staðinn fyrir roast beef eða grafinn lax. Mér sjálfum finnst áferðin minna á grafinn lax. Við erum líka með góðar seitan steikur fyrir vegan fólk svo það er eitthvað í boði fyrir alla.“

Matseðillinn virkar þannig að fólk velur sér skammt af kjöti eða vegan rétt og velur sér svo það meðlæti sem það vill. Þannig geta viðskiptavinirnir stjórnað því hversu mikið kjöt og meðlæti þeir fá.

„Við ætlum líka að vera með amerískan BBQ-bröns þar sem lagt verður upp úr góðum amerískum pönnukökum en við Valli bjuggum til bjórsíróp til að setja út á pönnukökurnar. Við verðum svo með barseðil sem passar mjög vel með bjórnum,“ segir Gunnar.

Valgeir hefur í gegnum tíðina haldið fjölda námskeiða þar sem bjór og matur eru paraðir saman og hann segir að það verði örugglega í boði á Honkítonk BBQ seinna meir. En til að byrja með verða ákveðnir bjórar tengdir við ákveðna rétti á matseðlinum.

Gunnar og Valgeir eru spenntir fyrir opnum staðarins og Gunnar segir að þetta sé draumur að verða að veruleika.

„Það verður gaman að bæta þessum veitingastað inn í veitingaflóruna í Reykjavík. Covid er að verða búið og ég hlakka til að opna dyrnar og hleypa öllum inn.“

Honkítonk BBQ verður opnaður á næstu vikum á Snorrabraut þar sem ÁTVR var til húsa árið 1989 þegar bjór var aftur leyfður á Íslandi. fréttablaðið/valli