Ólafur Eggertsson gekk til liðs við Sólar fyrir um ári en hann býr yfir víðtækri reynslu á sviði ræstinga eftir að hafa rekið eigið fyrirtæki um árabil. „Við erum byrjuð í vorverkunum,“ segir Ólafur léttur í bragði en hann leiðir nú kröftuga sérverkefnadeild Sólar.

Fjölbreytt verkefnasvið

Á þessum tíma árs er mikið um að húsfélögin leitist eftir þrifum á sameign. „Sérverkefnadeildin sér um öll verkefni fyrir utan venjulega ræstingu og er því stuðningsdeild við ræstingadeildina,“ skýrir Ólafur frá.„Við erum mikið að háþrýsti­þvo fyrir húsfélög, heimili, fyrirtæki og stofnanir. Við erum þá meðal annars að djúphreinsa stéttirnar og klæðninguna ásamt því að há­þrýstiþvo plönin úti, bílastæðahúsin, ef því er að skipta, og sópum upp allt rusl og þess háttar. Í háþrýstiþvottinum notum við sérstakar og öflugar háþrýstivélar sem skila góðum árangri í hreinsun á stéttum, plönum, húsum og svo framvegis.“

Einnig sjá Sólar um teppahreinsun og nota til þess sérhæfðar djúphreinsivélar. „Við erum líka að djúphreinsa teppin í stigagöngum og þrífa gluggana í leiðinni.“

Umhverfisvænt og alhliða

Þá biðja viðskiptavinir oft um þrif og sérverkefni af ýmsum toga en eitt af því sem Sólar leggja ríka áherslu á eru umhverfismálin, enda fyrsta ræstingaþjónustan sem hlaut Svansvottun hér á landi. „Við bjóðum einnig upp á umhverfisvæna gróðureyðingu áður en stéttin og grasið er hreinsað. Við erum ekki að nota neitt eitur eða slíkt, við erum að nota kvoðu sem er alveg umhverfisvæn. Þetta er eina umhverfisvæna gróðureyðingin sem er til á landinu, nema að menn séu að nota heitt vatn en það snýst þá um að halda heitu hitastigi í lengri tíma.“

Sólar leggja einnig mikla áherslu á að veita viðskiptavinum alhliða þjónustu. „Við erum búin að byggja upp deild og kjarna undanfarið ár til að sinna viðskiptavinum Sólar bara á einum stað. Þannig að ef viðskiptavinurinn biður um einhverja aðra þjónustu en hefðbundin þrif þá er hægt að leita bara beint til okkar, hvort sem það eru útiþrif eða viðhald á gólfefnum og þess háttar. Að bjóða upp á heildarlausnir hefur reynst með afbrigðum vel og fallið í góðan jarðveg.“