Á Háls- og bakdeildinni er veitt greining og sérhæfð meðferð vegna vandamála í stoðkerfi, baki og hálsi. Á deildinni starfa sjúkraþjálfarar, hjúkrunarfræðingar og aðrir starfsmenn. „Markmiðið er að hjálpa einstaklingum svo þeir verði hæfari til að fást við eigin líðan og geti stjórnað eigin verkjum, en láti ekki stjórnast af þeim, og verði þannig virkari í sínu daglegu lífi,“ segir Lucia, sem hefur unnið við deildina frá upphafi.

Markmiðið er að hjálpa einstaklingum svo þeir verði hæfari til að fást við eigin líðan.

„Hingað kemur fólk með verki frá hálsi- og eða baki. Stundum eftir slys eða annað slíkt og hefur ekki fengið bót sinna meina. Flestir hafa þjáðst af langvinnum verkjum sem hafa varað jafnvel í mörg ár. Við fáum til okkar fólk alls staðar að á landinu og jafnvel frá útlöndum,“ segir Hrefna Frímannsdóttir, yfirsjúkraþjálfari.

Til að komast í meðferð á Háls- og bakdeildinni þarf að fá tilvísun frá lækni, sem síðan er metin af sérfræðingum deildarinnar. „Þetta er dagdeild með gistingu og við getum tekið við ellefu einstaklingum hverju sinni. Hér er fólk á hlutlausum stað með takmörkuðu áreiti og hefur möguleika á að einbeita sér að sjálfu sér. Um leið fær fólk tækifæri til að hugleiða hverju það þurfi að breyta í sínu lífi. Það er nefnilega hægt að gera eitt og annað til að fá meiri gæði í líf sitt,“ segir Lucia.

Einstaklingsmiðuð meðferð

Fólk á öllum aldri hefur notið þjónustu Háls- og bakdeildarinnar. Meðferðin tekur tvær vikur, að helgarleyfi undanskildu, sem sagt tíu daga. Meðferðin er einstaklingsmiðuð, enda mismunandi hvað hentar hverjum og einum. Á deildinni er einnig boðið upp á sérhæfða meðferð við hryggskekkju sem kallast Schroth Best Practice og er gagnreynd og árangursrík meðferð fyrir börn, unglinga og fullorðna einstaklinga með hryggskekkju og/eða kyphosis .

„Flestir sem koma til okkar hafa þurft að takast á við verki í nokkur ár. Við kennum fólki liðkandi æfingar og samhliða því að styrkja þá vöðva sem þarf að styrkja til að bæta hreyfistjórn og líkamsbeitingu. Fólk lærir fjölbreyttar æfingar þar sem unnið er með eigin líkamsþyngd. Svo eru sumir sem þurfa að fara í sérhæfðari verkjameðferð. Hún er í umsjón Bjarna Valtýssonar læknis, sem er með mikla reynslu af verkjameðferð í kringum hryggsúluna. Hann starfar í Corpus Medica og við erum í góðu samstarfi. Bjarni er einnig í verkjateymi Landspítalans.“ segir Lucia.

„Þar fyrir utan erum við með fræðslu um svefn og streitu, verki og líkamann í daglegu lífi. Hér er hópmeðferð, slökun og sund. Bjarni heldur einnig fræðslufundi fyrir sjúklinga sem snúast um verki og verkjameðferð. Það er ýmislegt sem fólk getur gert sjálft til að komast út úr þessu ástandi,“ segir Hrefna.

Þær minna á að hreyfing sé eitt af því sem skipti mestu máli þegar kemur að heilsufari. „Rannsóknir sýna að almenn hreyfing, svo sem göngur, sund, útivist, jóga, teygjur og jafnvel veiði, valdi minna álagi og færri líkamlegum einkennum en ef fólk stundar enga hreyfingu. Það er öllum til góðs að hreyfa sig og liðka,“ segja þær Lucia og Hrefna að lokum.