Það er hátíðlegt að keyra að Skíðaskálanum fyrir jólin, sérstaklega ef umhverfið er þakið snjó. Skíðaskálinn er þjóðþekkt hús sem staðsett er rétt áður en komið er á Hellisheiði. Þegar aðventan gengur í garð breytist staðurinn í sannkallaða jólaveröld. Stórglæsilegt jólahlaðborð með margvíslegum kræsingum verður allar helgar til jóla. Á sunnudögum verður jólamaturinn sérstaklega settur upp fyrir fjölskyldufólk en þá mun jólasveinninn koma úr fjöllunum í kring með glaðning handa börnunum. Benni Sig sér um hátíðlega tónlist en á meðan á borðhaldi stendur heilsar hann upp á gesti og þenur nikkuna. Ekki er ólíklegt að Benni stjórni hópsöng þegar fjörið verður í hámarki.

„Það eru ekki mörg veitingahús með jafn fallega umgjörð fyrir jólahlaðborð og Skíðaskálinn,“ segir Ólöf Ása, sem rekur skálann ásamt eiginmanni sínum, Gretti Rúnarssyni. „Við bjóðum einnig upp á jólamarkað á jarðhæðinni, kakó og kökuhlaðborð í veislusalnum þar sem rithöfundar lesa upp úr jólabókum og árita, stúlknakór mun mæta og syngja jólalög og jólatrésala verður við húsið, svo eitthvað sé nefnt. Það verður því jólastemming hér hjá okkur,“ upplýsir hún.

Ólöf og Grettir við fallega arininn en þar finnst mörgum kósí að setjast niður. MYNDIR/BRYNJA KRISTINSDÓTTIR

Jákvæð viðbrögð

„Við höfum fundið fyrir mikilli ánægju meðal fólks að boðið sé upp á jólahlaðborð á ný í Skíðaskálanum. Við buðum upp á hlaðborð í sumar sem var vel tekið. Sömu fjölskyldur hafa komið til okkar áratugum saman og notið ljúffengrar veislumáltíðar saman. Við erum hálf orðlaus yfir viðbrögðum sem urðu vegna jákvæðrar umfjöllunar á Facebook en nú þegar er uppselt hjá okkur nokkur kvöld fyrir jólin. Þess vegna ákváðum við að byrja fyrr og fyrsta jólahelgin verður því 19.-21. nóvember,“ segir Ólöf Ása. Í Skíðaskálanum er rekin alhliða veisluþjónusta með fjölbreytta matseðla og frábæra aðstöðu fyrir smærri og stærri hópa. Salirnir taka frá 50 til 300 manns í sæti en þeir kallast Gamla stofan, Koníaksstofan og Arinstofan.

Á jarðhæðinni eru hjónin með jólamarkað með kertum og ýmsu fallegu jólaskrauti.

Löng og merkileg saga

Saga Skíðaskálans spannar mörg ár og hann á sér mikla sögu. Skíðafélag Reykjavíkur reisti skálann árið 1934 og rak hann til ársins 1971 þegar Reykjavíkurborg keypti hann. Frá 1985 var skálinn í eigu Carls Johansen veitingamanns og fjölskyldu hans. Að kvöldi sunnudagsins 20. janúar 1991 brann skálinn til kaldra kola en nýr skáli í svipuðum stíl var reistur á sama stað og tekinn í notkun 4. apríl árið eftir. Ólöf Ása og Grettir eignuðust Skíðaskálann árið 2013. Árlega stoppa þúsundir erlendra gesta við Skíðaskálann og skoða jarðhitasvæðið sem er mjög aðgengilegt. Ólöf Ása og Grettir hafa ákveðið að blása til sóknar á svæðinu, opna húsið af krafti og virkja enn frekar þennan risastóra sumar- og vetrarleikvöll.

Hátíðleikinn umleikur salinn í Skíðaskálanum í Hveradölum.

Giftu sig í skálan

„Við byrjuðum starfsemina á hefðbundnum forsendum þegar við tókum við húsinu á sínum tíma. Buðum upp á matarveislur, aðallega fyrir hópa. Við höfum verið með alls kyns viðburði, brúðkaup, stórafmæli, árshátíðir og jólahlaðborð svo eitthvað sé nefnt. Við giftum okkur sjálf hérna viku eftir afhendinguna enda þykir okkur mjög vænt um húsið,“ segja hjónin en nú stendur til að stækka baðaðstöðu við skálann en þær hugmyndir voru á tímabili þróaðar töluvert lengra. „Okkur dreymdi um að gera baðlón í dalnum fyrir innan Skíðaskálann, fengum fjárfesta að verkefninu með okkur, en til að gera langa sögu stutta þá enduðu allar hugmyndirnar í umhverfismati eftir mörg ár í skipulagsvinnu og eru þar enn í dag,“ segir Grettir. „Síðan komu auðvitað þessir skrítnu tímar sem fylgdu Covid en fyrr á þessu ári skiptum við verkefninu upp og eigum við nú skálann og svæði í kringum hann aftur ein,“ segir Grettir og bætir við að þau hafi fært áherslur sínar aftur að Skíðaskálanum með ríkari áherslu á útivist og afþreyingu tengda henni. Öll fjölskyldan hjálpast að við reksturinn.

Borðin svigna undan kræsingunum á jólahlaðborði Skíðaskálans.

Paradís fyrir útivistarfólk

„Íslendingar eru duglegir að stunda útivist, jafnt fjallahlaup sem fjallahjól, göngur hvers konar, gönguskíði og fjallaskíði. Flest af þessu kallar ekkert endilega á skíðalyftur eins og var áður forsenda lífs í fjallinu. Þá er ótalið allt jeppa- og snjósleðafólkið sem hefur nýtt heiðina á veturna um áratugaskeið. Nú þarf fólk bara bílastæði og aðstöðu til að hlýja sér, fá sér mat og drykk eftir ferð með vinum og kunningjum eftir útivistina. Við ætlum að vera miðstöð þessa fólks hérna svæðinu,“ segir Ólaf Ása.

„Fram undan er uppbygging á göngu- og hjólaleiðum út frá Skíðaskálanum og tenging frá honum inn á þekktar leiðir sem liggja hérna um allt svæðið,“ segir hún enn fremur en nýlega fóru þau Ólöf og Grettir í samstarf við Víkingamótaröðina sem er stærsta mótaröð sinnar tegundar á Íslandi og Skíðaskálinn er því orðinn heimavöllur Landsnets MTB, eins stærsta fjallahjólamóts landsins. „Mótið í september tókst frábærlega. Það var mjög gaman að sjá svipinn á hjólreiðafólkinu þegar það kom hérna í mark.

Ekki síður þegar það kom inn í skálann og gat hlýjað sér við arininn. Síðan gat það sest að glæsilegu hlaðborði sem við höfðum útbúið,“ segir Ólöf Ása og bætir við að þetta hafi verið einstaklega ánægjulegt.

Skíðaskálinn í Hveradölum er einstaklega fallegur fyrir jólin, sérstaklega ef jörð er hvít.

Frábærir göngustígar

Skíðaskálanum hefur verið vel við haldið og hluti hússins var nýverið tekinn í gegn og uppfærður. Í lok sumars voru svo teknir í notkun nýir stígar yfir friðlýsta hverasvæðið við Skíðaskálann. „Þetta er ný lausn til að auðvelda aðgengi og vernda viðkvæm svæði í náttúrunni fyrir ágangi. Þessir stígar eru bylting fyrir fólk í hjólastólum þar sem því verður gert auðvelt að skoða heillandi hverasvæðið við bestu aðstæður með hámarks upplifun. Göngutúr frá bílastæði skálans og upp á fjallstoppinn fyrir ofan er ekki langur en býður upp á gríðarlega fallegt útsýni í allar áttir um suðvesturhorn landsins. Skemmtileg tilbreyting við Esjuna, Úlfarsfell og Helgafell,“ segja þau hjónin.

Fyrir þá sem vilja kynnast Skíðaskálanum í Hveradölum í allri sinni jóladýrð er hægt að panta borð í síma 567 2020 eða á netfanginu skidaskali@skidaskali.is. Einnig er hægt að skoða hvað er í boði á heimasíðunni skidaskali.is