„Orkuklasinn var formlega stofnaður í febrúar 2013 og verður því tíu ára í vetur. Fyrst var farið af stað sem Jarðvarmaklasi með áherslu á sérþekkingu Íslendinga á sviði jarðvarma og fjölnýtingu hans. Frá 2018 útvíkkaði vettvangurinn áherslur sínar með því að horfa til fjögurra orkustrauma: jarðvarma, vatnsorku, vinds og annarra endurnýjanlegra orkugjafa ( X-Power),“ segir Rósbjörg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Orkuklasans.

Orkuklasinn er þverfaglegur samstarfsvettvangur og nær til einkaaðila jafnt sem opinberra aðila og spannar alla virðiskeðju orkuiðnaðarins.

„Aðildarfélagar Orkuklasans eru hátt í 50 og koma víðs vegar að úr keðjunni. Þar á meðal eru allir orkuframleiðendur landsins, þróunaraðilar, helstu ráðgjafarfyrirtæki, vélsmiðjur og viðhaldsfyrirtæki, lögfræðingar og endurskoðendur, fjármálafyrirtæki, menntastofnanir, opinberir aðilar, sveitarfélög og fleiri. Þetta eru lykilaðilar í kröfuhörðum verkefnum sem samfélagið horfist í augu við og þarf að finna lausnir á. Þá vinnur Orkuklasinn með öðrum atvinnugreinum og klasaframtökum, eins og Ferðaklasanum og Sjávarklasanum, sem og öðrum sambærilegum erlendum klasaframtökum, en þverfaglegt samstarf er mikilvægt nú á tímum sem aldrei fyrr,“ segir Rósbjörg.

Byggja brýr á milli ólíkra aðila

Hlutverk og tilgangur Orkuklasans er að efla samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og stofnana á sviði orkuiðnaðar, og efla gagnkvæman virðisauka í samfélögum þar sem félagar hans starfa.

„Klasar eru í eðli sínu brúarsmiðir. Þeir vinna þvert á aðila, byggja brýr á milli ólíkra aðila og skapa aðstæður sem styrkja tengsl og samvinnu sem hraðar nýsköpun. Með því nást sameiginleg markmið hraðar en ella. Í gegnum klasa geta fyrirtæki og frumkvöðlar sótt og deilt þekkingu sín á milli og eflt starf sitt með aukinni og markvissari samvinnu,“ upplýsir Rósbjörg.

Hún segir Orkuklasann einblína á þekkingarmiðlun, þekkingaröflun og nýsköpun í sinni víðustu mynd, sem svo styrki og efli félaga hans.

„Orkuklasinn stendur að og sækir viðburði þar sem ávinningur félaganna er í brennidepli. Hann er vettvangur sem stendur fyrir alþjóðlegum viðburðum, sækir alþjóðlega viðburði, byggir upp samstarf á milli ólíkra aðila, innan lands jafnt sem utan og skapar með því aukin tækifæri fyrir félaga sína. Þá er mikilvægt að horfa inn á við og efla félagana með markvissum hætti og það gerum við með því að standa fyrir námskeiðum og þjálfun sem eflir aðildarfélaga klasans inn á við og gerir þá enn öflugri úti á markaðnum.“

Rósbjörg bætir við að áherslur klasans nýtist öllum, hvar sem þeir eru staðsettir í virðiskeðjunni og að allir sem með einum eða öðrum hætti vinna að orkutengdri starfsemi eigi erindi að borði Orkuklasans.

„Allir eru velkomnir til leiks enda er mikilvægt að fá sem flesta að borðinu. Orkuklasinn hefur verið brautryðjandi í því að byggja upp „sýningargluggann“ Ísland enda hefur þjóðin skapað sér sterkt orðspor sem framúrskarandi á sviði endurnýjanlegrar orku og er öðrum samfélögum til eftirbreytni.

Mikil eftirspurn er eftir íslenskri sérþekkingu enda er saga okkar Íslendinga mikilvæg og getur verið lærdómur fyrir aðra, ekki síst í dag þegar kröfurnar aukast með degi hverjum. Samfélag okkar væri ekki jafn öflugt sem raun ber vitni ef ekki hefði verið fyrir hugrekki, fjárfestingu, samtal og samvinnu um ábyrga nýtingu náttúruauðlinda þegar skórinn kreppti um 1970,“ segir Rósbjörg og heldur áfram:

„Með öflugu klasasamstarfi getum við náð hraðar fram þeim árangri sem til þarf í orkuskiptum, ábyrgri uppbyggingu og viðhaldi samfélaga sem við sem þjóð horfumst í augu við þegar kemur að loftslagsvánni.“

Sjá meira á orkuklasinn.is