Loftslagsmál eru orkumál og orkuskipti úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega orkugjafa er lykillinn að sjálfbærum heimi og besta vopnið í baráttunni við loftslagsvána. Með orkuskiptum getum við gert heiminn grænan saman.

Landsvirkjun hefur einmitt haldið því slagorði á lofti: Gerum heiminn grænan saman. Kristín Linda Árnadóttir aðstoðarforstjóri og Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis, heyrðu það slagorð enduróma með ýmsum hætti á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow, COP26. Þær eru sammála um að ráðstefnan hafi verið mikilvægur vettvangur fyrir þjóðir heims. Það sé mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að fylgjast með straumum og stefnum í loftslagsmálum og þá sérstaklega hvað varðar orkuskipti.

„Eitt megin stefið á ráðstefnunni var að allir ætla sér að reyna að skipta sem fyrst yfir í endurnýjanlega orku,“ segir Kristín Linda. „Þar búum við Íslendingar afskaplega vel, með alla okkar grænu orku. Bæði íslensk stjórnvöld og Landsvirkjun hafa sett sér metnaðarfull markmið um græna framtíð og við getum verið fyrirmynd fyrir aðra.“

Jóna bendir á að Íslendingar hafi þegar gengið í gegnum orkuskipti. „Rafmagnið okkar er unnið úr grænum og endurnýjanlegum auðlindum og við nýtum jarðvarma til að hita upp húsin okkar. Ef við einbeitum okkur að orkuskiptum í samgöngum getum við orðið fyrst allra þjóða í heiminum til að verða óháð jarðefnaeldsneyti.“

Samvinna, nýsköpun, jöfnuður

Þær Kristín Linda og Jóna eru sammála um að meginskilaboð COP26 hafi verið nauðsyn samvinnu, nýsköpunar og jöfnuðar. Samvinnan verði að ná um allt samfélag, milli almennings, stjórnvalda, hagsmunasamtaka og atvinnulífs. Með nýsköpun þurfi að bæta nýtingu, minnka sóun og finna nýjar leiðir til vinnslu endurnýjanlegrar orku. Þá sé jafnt aðgengi jarðarbúa að grænni, endurnýjanlegri orku grundvöllur þess að þjóðir nái að bregðast sameiginlega við loftslagsmálum. „Það var áberandi í Glasgow að stærstu fyrirtæki heims hafa tekið við sér, sem er auðvitað að kröfu neytenda og almennings,“ segir Kristín Linda. „Þau leitast nú við að vera loftslagsvænni í starfsemi sinni, í stað þess að flytja t.d. aðföng jafnt sem unna vöru um langan veg. Þau gera sér grein fyrir að ef þau ætla að vera enn starfandi eftir 10 ár þurfa þau að umbylta mörgu hjá sér. Það var góð tilfinning að vera á ráðstefnunni sem fulltrúi Landsvirkjunar, fyrirtækis í eigu almennings sem vinnur 100% endurnýjanlega orku.“

Loftslagsmál í allri starfsemi

Hjá Landsvirkjun eru loftslagsmálin tekin mjög alvarlega og eru í raun samþætt allri starfsemi orkufyrirtækis þjóðarinnar. „Við þekkjum til dæmis vel hver okkar losun er og höfum birt upplýsingar um hana um árabil, sem er forsenda þess að geta sett sér markmið og forgangsraðað aðgerðum þannig að sem mestur árangur náist,“ segir Jóna. „Bókhaldið sýnir að við erum á réttri leið en losun á orkueiningu hefur lækkað um 67% frá 2005 og kolefnissporið okkar minnkað um 65%. En þrátt fyrir góðan árangur til þessa og mjög lágt kolefnisspor erum við hvergi nærri hætt. Við stefnum að því að starfsemin verði kolefnishlutlaus árið 2025. Við höfum sett okkur markmið um samdrátt í losun fyrir mismunandi rekstrarþætti og vinnum áfram að uppgræðslu landsins sem felur í sér aukna bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi.“

Jóna segir að forgangsröðun Landsvirkjunar sé skýr og miði að því að draga úr losun áður en gripið sé til mótvægisaðgerða. „Við stefnum að því að hafa minnkað beina losun um 50% árið 2025, miðað við stöðuna 2008. Þar mun vega þyngst 60% samdráttur í losun vegna vinnslu jarðvarma. Þeim samdrætti náum við með því að skila um 90% af koldíoxíði frá Þeistareykjastöð aftur niður í jörðina og draga úr losun koldíoxíðs frá Kröflustöð með stýringu á borholum.“

Burt með olíu og bensín

Kristín Linda bætir við að Landsvirkjun hafi einsett sér að hætta að kaupa jarðefnaeldsneyti árið 2030. „Núna notum við olíu og bensín á stærstan hluta fjölbreytts tækja- og bílaflota fyrirtækisins en við fylgjumst grannt með nýjustu tækni og skiptum búnaði út um leið og færi gefst. Frá og með áramótunum gildir sú regla að við kaupum eingöngu notaða fólksbíla, ef ekki er hægt að fá hreinorkubíl til verksins sem gengur fyrir rafmagni, metan eða vetni.“

Hægt er að fylgjast með framvindu mála á loftslagsmælaborði í rauntíma á vef Landsvirkjunar. Þá gefur Landsvirkjun árlega út loftslagsbókhald og var fyrst íslenska fyrirtækja til að fara þá leið. Orkufyrirtæki þjóðarinnar var líka fyrst íslenskra fyrirtækja til að fá A(-) í einkunn hjá alþjóðlegum samtökum sem meta frammistöðu og upplýsingagjöf fyrirtækja í loftslagsmálum. Einkunnin þýðir að Landsvirkjun er leiðandi í loftslagsmálum og temur sér bestu starfsvenjur við upplýsingagjöf.

Vilji til að vinna að bættri framtíð

Kristín Linda og Jóna eru á einu máli um að það sé bæði fróðlegt og hvetjandi að sækja alþjóðlega ráðstefnu á borð við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Vissulega takist þar á margvíslegir hagsmunir en vilji til að vinna að bættri framtíð sé þó hinn sterki grunnur sem ráðstefnan hvíli á. „Það má ekki heldur gleyma kröftugum mótmælunum í Glasgow á meðan á ráðstefnunni stóð, en þau minntu alla fundarmenn á hvað væri í húfi,“ segir Kristín Linda. „Þetta er stórt og flókið verkefni, en við eigum ekki annarra kosta völ en að leysa það farsællega. Þarna voru til dæmis fulltrúar ríkja og þjóða sem þegar verða fyrir miklum áhrifum af loftslagsbreytingum og eru að þrýsta á betur stæð iðnríki að gera meira og gera það strax. Þessi barátta við loftslagsbreytingar verður mun áþreifanlegri þegar hlustað er á sögur þessa fólks, sem eru margar átakanlegar.“

Jóna tekur undir að ráðstefna á borð við COP26 gegni veigamiklu hlutverki við að skapa samkennd, sem sé frumforsenda þess að árangur náist. „Við búum öll á sama hnettinum. Við getum ekki lengur stundað það að færa losun frá einu landi til annars, við getum ekki flutt hættulegan úrgang frá vestrænum ríkjum til þróunarríkja, sem eiga þess ekki kost að ganga tryggilega frá honum. Við þurfum að draga úr neyslu okkar og beita öllum ráðum til að draga úr losun. Í því liggja líka tækifæri til framtíðar.“