Árið 2020 var fyrsta árið sem Samkaup gáfu út formlega samfélagsskýrslu en um árabil hefur fyrirtækið lagt áherslu á að samfélagsábyrgð sé samþætt allri starfsemi þess. Hugað er að þeirri ábyrgð á öllum stigum rekstursins, í stefnumótun og daglegum ákvörðunum. Það er fyrirtækjum stór áskorun í dag að huga vel að sjálfbærni og samfélagslegri ábyrgð, ekki aðeins því sem skrifað er í samfélagsskýrslu heldur að orðum fylgi raunveruleg markmið og stefna.

Til að mynda skrifuðu Samkaup undir yfirlýsingu, sem afhent var á loftslagsráðstefnunni í París árið 2015, um aðgerðir í loftslagsmálum þar sem helsta markmiðið er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og leggja áherslu á endurvinnslu og endurnýtingu.

„Fyrirtæki í dag eru oft og tíðum að starfa í umhverfi sem einblínir of mikið á rekstrarlegan árangur. Það hefur þó sýnt sig að með aukinni samfélagslegri ábyrgð og sjálfbærni verður samkeppnishæfni fyrirtækja meiri. Neytendur okkar og samfélagið í heild gerir sívaxandi kröfur um að við stöndum okkur vel í því verkefni,“ segir Heiður Björk Friðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs.

Innkaupasvið Samkaupa leggur til dæmis mikinn metnað í að velja inn vörur sem eru umhverfisvænni og miða að breyttu neyslumynstri viðskiptavina, bætir Stefán Guðjónsson, framkvæmdastjóri innkaupasviðs, við.

„Dæmi um þetta er Anglamark vörumerkið, sem stendur fyrir sjálfbærni, en þær vörur eru lífrænar, umhverfisvænar og án ofnæmisvaldandi efna.“

Valdís Eyrún Sigurðardóttir og Jóhanna Salvör Erlendsdóttir, starfsmenn Iceland Seljabraut.

Fjölbreytni og sveigjanleiki

Samkaup reka 62 verslanir víðs vegar um landið. Þær spanna allt frá lágvöruverðsverslunum til hverfisverslana. Helstu vörumerki Samkaupa eru Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin og Iceland.

„Samkaup er leiðandi fyrirtæki í viðskiptaháttum, vörugæðum og þjónustu sem og virkur þátttakandi í samfélaginu. Við störfum á íslenskum dagvörumarkaði og byggjum reksturinn á gæðum, góðri þjónustu og fjölbreyttu vöruvali á eins hagstæðu verði og völ er á,“ segir Ómar Valdimarsson, forstjóri Samkaupa.

„Grunnurinn í þjónustu Samkaupa er fjölbreytni og sveigjanleiki til þess að uppfylla hinar ýmsu þarfir viðskiptavina sem og tengsl við viðskiptavini í öllum byggðum landsins. Samkaup leggja áherslu á að vera eftirsóttur vinnustaður með öflugt lið starfsmanna sem eru um 1.300 talsins þar sem markvisst er lögð áhersla á jafnrétti, menntun fyrir alla og heilsu og velferð starfsmanna.“

Samfélagið styrkt

Samfélagsverkefni Samkaupa beinast aðallega að því sem tengist starfsemi fyrirtækisins beint og varðar einkum starfsfólk, viðskiptavini, birgja og samstarfsaðila, vörur og þjónustu. Þá er einnig stuðningur við verkefni sem stuðla að betra samfélagi án þess að þau tengist starfseminni, segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs.

„Verkefni ársins eru afar fjölbreytt. Áfram er unnið markvisst í umhverfismálum, en Samkaup hafa innleitt umhverfisbókhald sem heldur utan um losun á CO2 og sett sér markmið um að lágmarka áhrif okkar og fara í mótvægisaðgerðir. Við stefnum ótrauð áfram í að gera verslanir okkar að grænum verslunum, þar sem unnið er eftir orkuskiptaáætlun, þar sem freon er skipt út fyrir CO2.“

Utan þess er áframhaldandi áhersla á styrki út í samfélagið, meðal annars gegnum Samfélagssjóð Samkaupa.

„Markmið Samkaupa er að vinna markvisst að því að bæta samfélagið hvort sem um er að ræða nærsamfélagið, landið allt eða á heimsvísu. Til þess kappkosta Samkaup að vera með skýra samfélagsstefnu, siðareglur um hegðun fyrirtækisins og metnaðarfull markmið ár hvert sem fylgja þeim heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem samræmast starfsemi fyrirtækisins. Lykilverkefni félagsins, lítil sem stór og allt að 200 talsins, endurspegla þessi markmið á hverju ári.“

Að sögn hans hafa Samkaup, eftir ítarlega skoðun, tekið ákvörðun um að einblína á eftirfarandi 8 af 17 heimsmarkmiðum: Heilsu og vellíðan, menntun fyrir alla, jafnrétti kynjanna, góða atvinnu og hagvöxt, nýsköpun og uppbyggingu, ábyrga neyslu og framleiðslu, aðgerðir í loftslagsmálum og samvinnu um markmiðin.

Rebekka Magnúsdóttir – starfsmaður í Kjörbúðinni Sandgerði.

Lærdómsríkt ár

Árið 2020 var óvenjulegt á marga vegu og hægt er að draga lærdóm af þeim áskorunum sem upp hafa komið í samfélagi okkar.

„Á þessum fordæmalausu tímum höfum við hjá Samkaupum lagt áherslu á að styðja vel við öfluga framlínu okkar og vera þannig í forsvari fyrir velferð starfsmanna. Við erum afskaplega stolt af þeim aðgerðapakka sem við lögðum fram fyrir okkar starfsfólk auk þess að setja upp til framtíðar víðtæka velferðarþjónustu Samkaupa, sem snýr alfarið að heilsu og vellíðan starfsmanna og um leið styrkir okkar samfélag,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs.

Það er í gegnum fræðslu og aukna menntun starfsmanna sem helsta áhersla fyrirtækisins liggur í að gera starfsfólk meðvitaðra um samfélagslegu ábyrgð, umhverfið og hvernig hver og einn starfsmaður getur haft áhrif til góðs.

„Við nýtum margs konar leiðir til fræðslunnar, hvort sem það er rafræn fræðsla eða staðbundin. Árið 2020 hlutu Samkaupa Menntasprotann fyrir nýsköpun í menntun og fræðslu. Við erum mjög þakklát fyrir þessa viðurkenningu sem hvetur okkur til að gera enn betur og halda áfram þeirri vegferð sem Samkaup eru á, um að vera eftirsóknarverðasti vinnustaður á Íslandi.“

Í fararbroddi í nýsköpun

Mörg spennandi verkefni eru fram undan á árinu sem endurspeglar að Samkaup er framsækið verslunarfyrirtæki sem er þekkt fyrir að fara alla leið í þágu vörugæða og þjónustu ásamt því að vera í fararbroddi í nýsköpun.

„Áhersla ársins mun vera í nýsköpun og nýtingu á tækni til að stuðla að minni sóun, umhverfisvænni aðferðum við verslun og hagstæðari leiðir fyrir viðskiptavini og samfélagið. Við erum spennt fyrir komandi tímum,“ segir Ómar Valdimarsson.

„Styrking á innviðum Samkaupa á vettvangi samfélagsábyrgðar og umhverfis hefur verið sérstakt áhersluverkefni síðustu ár. Mikill kraftur hefur verið settur í málaflokkinn og frekari styrking hans er ein af lykiláherslum í stefnumótun félagsins til framtíðar. Eins og komið hefur fram, þá markar 2020 ákveðin tímamót, þar sem Samkaup gefa út fyrstu samfélagsskýrslu sína en hana er hægt að nálgast á vef okkar innan tíðar, á samkaup.is.“