Stefán Gunnarsson er annar stofnenda Solid Clouds. „Fyrirtækið var stofnað með það í huga að búa til tölvuleiki og við sáum ákveðið tækifæri í að koma inn á markaðinn í gegnum herkænskuleiki þar sem strategíur eru í fyrirrúmi,“ greinir hann frá.

„Upprunalegt markmið var að búa til fjölspilunarleiki þar sem þúsundir af spilurum gátu komið saman og byggt upp geimveldi á sameiginlegu leikkorti. Margir líktu þessu við að taka Civilization sem er mjög þekktur tölvuleikur og blanda saman þessu massive multiplayer-elementi inn í hann.“

Úr varð geimleikurinn Starborne Sovereign Space. „Hann var fyrst gefinn út til almennings 2. apríl í fyrra og viðtökurnar hafa verið nokkuð góðar. Við höfum fengið 350.000 spilara til að prófa leikinn og hann lifir nokkuð góðu lífi enn þá.“

Flókið í framkvæmd

Stefán segir fjölspilunarvörur og leiki vera bæði flókin og stór í framkvæmd. „Við vildum því búa til ákveðið framework eða tæknigrunn til að auðvelda okkur og stytta leiðir til að búa til margar vörur í framtíðinni,“ útskýrir hann. „Fyrsta varan er erfiðust og síðan náum við einhverjum takti og getum þá kannski komið með nýjar vörur á tveggja til þriggja ára fresti út frá þessari tækni.“

Stefán nefnir þá fleiri aðila sem hafi beitt þessari nálgun með góðum árangri. „Það má líta til fyrirtækja eins og Paradox í Svíþjóð, en þeir hafa einmitt búið til ákveðinn tæknigrunn sem þeir halda svo áfram að vinna með.“

„Þessi tæknigrunnur er í dag kominn á góðan stað hjá okkur. Það tók alveg fjögur, nánast fimm ár, að búa til fyrstu vöruna en núna er búið að klára helminginn af vinnunni.“

Blómstrandi iðnaður

Stefán segir margt hafa breyst og muni breytast á komandi árum hvað tölvuleiki snertir. „Það er mikil spilun í dag miðað við þegar ég var krakki og foreldrar hafa oft áhyggjur af börnunum sínum í kringum þetta. En tölvuleikjamarkaðurinn er í gríðarlegum vexti og á eftir að vera það næstu árin,“ segir hann.

„Núna eru líka komnar eldri kynslóðir spilara og svo er þetta líka vaxandi iðnaður í þróunarlöndum sem hefur í för með sér ákveðin margföldunaráhrif. Þessi iðnaður er nú þegar orðinn stærri en kvikmyndaiðnaðurinn og hefur alla burði til þess að verða skapandi iðnaður á Íslandi,“ upplýsir Stefán.

„Við höfum þegar séð keim af því en eitt af fyrstu fyrirtækjunum var auðvitað CCP og í dag starfa ansi margir við tölvuleikjagerð og það á bara eftir að aukast. Þetta eru yfirleitt mjög skemmileg störf þar sem tæknin, listin og sköpunargleðin fá að njóta sín saman, sem er ekki alltaf sjálfgefið í öðrum iðnaði.“

Þessa þróun megi meðal annars greina hjá Solid Clouds þar sem starfsfólki fer sífellt fjölgandi. „Við erum alltaf að leita að hæfileikaríku starfsfólki. Í dag erum við 17 talsins og það lítur út fyrir að við bætum við átta starfsgildum í ár.“

Norðurlöndin framarlega

Stefán segir mikla gæfu að geta unnið þetta hér á landi. „Ísland er að mörgu leyti mjög hentugt fyrir þennan iðnað. Hér er hátt tjáningarfrelsi, við búum við mikið öryggi í þjóðfélaginu og hátt menntunarstig. Norðurlöndin eru mjög framarlega í tölvuleikjagerð og þessi nýsköpun kemur oft frá þeim enda hafa mörg stærstu tölvuleikjafyrirtæki í heimi sprottið upp á Norðurlöndum.“

Ljóst sé að þetta sé verðugt framtak að styrkja, fyrir stjórnvöld sem aðra. „Við erum mjög þakklát íslenskum stjórnvöldum, þau hafa lagt stuðning við okkur í gegnum Tækniþróunarsjóð Rannís og greitt götur til dæmis með því að fá erlenda sérfræðinga til landsins og eins hefur verið boðið upp á endurgreiðslu ef þú kaupir hlutabréf í nýsköpunariðnaði.“

Stefán segir það geta verið kostnaðarsamt og tímafrekt að búa til tölvuleiki og því sé mikilvægt að búa til tæknilegan grunn sem stytti og auðveldi gerð næstu leikja. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Fjármagn mikilvægt

Stefán segir helstu áskorunina felast í því hversu kostnaðarsöm og tímafrek tölvuleikjagerð geti verið. Því sé brýnt fyrir fyrirtæki að tryggja fjármagn. „Þú þarft kannski að vera með tíu starfsmenn í vinnu í mörg ár við að skapa nýja vöru. Það getur því verið mikill kostnaður á bak við hvern leik en þetta er ekki ósvipað bíómyndum þar sem þarf að skapa ákveðið umhverfi. Það er því mikilvægt sem fyrirtæki að geta náð í fjármagn.

Rétt eins og hægt er að gera low budget indie-kvikmyndir, og það eru dæmi um að það gangi vel, þá er það frekar undantekningin en reglan. Það er ekki óalgengt að tölvuleikjagerð kosti á bilinu milljarð í framleiðslu en það er mikilvægt að búa til þennan tæknilega grunn, sem þýðir að við getum þá gert þetta ódýrara í framtíðinni. Að ná því var mikill sigur fyrir okkur og við stefnum á fleiri útgáfur en það er nokkuð sem við hefðum aldrei getað gert nema fyrir þessa vinnu.“

Sögusmíðin skemmtileg

Stefán segir hugmyndavinnuna að baki tölvuleikjagerð vera sérstaklega skemmtilega. „Ég var hugmyndasmiður að upphaflegu hugmyndinni, síðan gerist það þegar margir koma að, þú færð að búa til teymi og færð innspýtingu frá mörgum stöðum. Þessi saga og heimsmynd hefur þróast mikið frá því að ég átti hugmyndina upphaflega.“

Nú er Stefán með fólk sem vinnur við að skrifa á hverjum degi. „Annar er rithöfundur og framhaldsskólakennari í Kanada og hinn er tæknimenntaður frá Þýskalandi. Þetta er skemmtilegt dúó, annar sér um persónusköpunina og hinn er með nitty gritty- tæknimálin,“ segir hann og hlær.

„Þetta er ofsalega gaman og oft mjög gefandi. Þetta er samt líka iðnaður eins og hver annar, sumt af þessari vinnu er bara handavinna og þegar uppi er staðið eru þetta vissulega fyrirtæki sem eru sköpuð til að skila sinni fjárfestingu, það er alveg raunveruleiki í þessu. En þarna eru oft skemmtilegustu mómentin.“

Hægt er að skoða heimasíðu fyrirtækisins á: http://www.solidclouds.com