Árið 2020 ætlaði Ingibjörg reyndar að útvíkka áhugamálin, taka upp karate og jafnvel ferðalög. Svo skall kórónu-veiran á og allar slíkar áætlanir runnu út í sandinn. „Svo ég hélt mig bara við það að pæla í rekstri,“ segir hún, létt í bragði.

„Að byggja upp sterkan rekstrargrunn er stærsta áskorun þeirra sem standa í rekstri. Ef þeim tekst vel í þeim efnum er það grunnurinn að árangri til langs tíma, bæði fyrir rekstraraðila og samfélagið í heild. Það er þó ekki nóg að byggja upp sterkan rekstrargrunn heldur þarf einnig að viðhalda honum, sem getur verið jafnmikil áskorun og að byggja hann upp. Í gegnum störf mín sem lögmaður, rekstrarráðgjafi, bókari en ekki síður sem fyrirtækjaeigandi hef ég öðlast mikið rekstrarlæsi.

Rekstur og skipulag hefur verið mitt áhugamál í gegnum tíðina líkt og ég sagði og lítið annað komist að en að skipuleggja rekstur jafnt nýjan sem gamlan,“ segir Ingibjörg, sem finnst fátt ánægjulegra en að sjá árangurinn af vel gerðu skipulagi, framkvæmdu af framúrskarandi teymi. Karate-iðkunin verði að bíða betri tíma að sinni.

Ingibjörg Björnsdóttir segir að rekstrarráðgjöfin hafi nýst félagsmönnum vel á tímum kórónuveirunnar, sérstaklega við að greina rekstur sinn og hvernig megi byggja ofan á hann þegar fer að rofa til. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Fyrirtæki af öllum stærðum skipa mikilvægan sess

Hún segir aðild SA hafa mikið að segja fyrir fyrirtæki af öllum stærðargráðum. „Það liggja mörg tækifæri í aðildinni en hana viljum við hjá SA þróa áfram og aðlaga að þörfum félagsmanna okkar enn frekar. Nýjasta viðbótin við aðild að SA er rekstrarráðgjöfin sem ég sinni en áður höfðu SA og aðildarfélög boðið upp á margvíslega rekstrarfræðslu í gegnum samvinnuverkefnið Litla Ísland. Rekstrarráðgjöfin hefur nýst félagsmönnum vel á tímum kórónuveirunnar, sérstaklega við að greina rekstur sinn og hvernig megi byggja ofan á hann þegar fer að rofa til.“

Þjónustan er ekki eingöngu hugsuð fyrir fyrirtæki í rekstrarvanda heldur nýtist hún ekki síður fyrir fyrirtæki í örum vexti, sameiningarferli og þau sem þurfa að sýna fram á rekstrarhæfi sitt í tengslum við fjármögnun. „Auk rekstrarráðgjafar er mikið virði í beinni þjónustu lögfræðinga vinnumarkaðssviðs samtakanna sem aðstoða félagsmenn við túlkun kjarasamninga, starfsmannamál og samskipti við stéttarfélög og lögmenn þeirra þegar ágreiningsmál koma upp. Margvíslega fræðslu er að finna innan SA og aðildarfélaga, til dæmis inn á vinnumarkaðsvef SA, sem er gagnleg fyrir félagsmenn og svo eru auðvitað mörg tækifæri í því fólgin að sinna tengslanetinu sínu með því að hitta aðra félagsmenn á hinum ýmsu viðburðum, bæði á staðnum og í gegnum fjarfundabúnað,“ segir Ingibjörg.

82 prósent sem nýttu sér úrræðin voru lítil fyrirtæki

Ingibjörg segir félagsmenn Samtaka atvinnulífsins ólíkan hóp fólks, sem standi í ólíkum rekstri. „Það er gríðarlega mikilvægt fyrir SA að heyra sjónarmið fyrirtækja, hlusta vel og framkvæma. Samtalið við félagsmenn er tækifæri fyrir SA til að gera betur fyrir sína félagsmenn og samtökin munu ávallt leggja sig fram við að mæta þörfum þeirra, jafnt lítilla sem stórra fyrirtækja.

Hagsmunabarátta SA fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki hefur verið gríðarlega virk í kórónaveirufaraldrinum. Árangur af baráttu SA við að koma sjónarmiðum sinna félagsmanna á framfæri við mótun úrræða af hálfu stjórnvalda má best sjá af tölfræði yfir þá sem hafa nýtt sér úrræðin.

Lítil fyrirtæki eru nú 82% þeirra sem nýttu sér úrræðin. Það má meðal annars rekja til þeirra umbóta sem gerðar voru á úrræðunum á umræðustigi að tillögu SA vegna sjónarmiða sinna félagsmanna. Þá sérstaklega lítilla og meðalstórra fyrirtækja,“ skýrir hún frá.

Ingibjörg segir enn fremur að þó ekki hafi verið tekið tillit til allra sjónarmiða SA við útfærslu úrræða stjórnvalda, til dæmis varðandi tekjuviðmið, hafi engu að síður náðst fram mikill árangur fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. „Við fögnum öllum tillögum og hugmyndum sem geta gagnast fyrirtækjum. Við munum áfram beita okkur eins og hægt er fyrir okkar félagsmenn. Huga þarf vel að götum í framkvæmd og sérstaklega að þeim fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir miklu tekjufalli eða tjóns vegna kórónuveirunnar en hafa einhverra hluta vegna fallið utan úrræða stjórnvalda. Því fleiri fyrirtæki sem eru innan SA því sterkari verður rödd þeirra og öll hagsmunabarátta öflugri.“

Bankarnir gegni lykilhlutverki

Ingibjörg segir eitt mikilvægasta hagsmunamál fyrirtækja um þessar mundir vera aukið aðgengi að fjármagni. „Eigendur hafa oft sett allt sitt í reksturinn og hafa ekki frekara fjármagn eða ábyrgðir að veita. Viðskiptabankar gegna því oft lykilhlutverki og mat þeirra á rekstrarhæfi fyrirtækja getur skipt úrslitum. Það er mikilvægt að rekstrarhæf fyrirtæki geti haft aðgengi að fjármagni og þannig varðveitt þau verðmæti sem skapast hafa í rekstrinum,“ útskýrir Ingibjörg og heldur áfram.

„Lánveitendur hafa oft einungis ársreikninga til grundvallar lánaákvörðunum sem eru stundum ekki nægilegur grundvöllur fyrir frekari lánveitingum. Til að geta metið rekstur heildstætt getur gefið góða raun að láta lánveitendur fá frekari upplýsingar um rekstur fyrirtækisins sem um ræðir. Rekstrarúttekt sem sýnir styrkleika rekstrargrunnsins, ásamt upplýsingum úr ársreikningum, ætti að auka líkur fyrirtækis á jákvæðri afgreiðslu síns banka, sé rekstrargrunnur þess á annað borð sterkur og tækifæri í kortunum.“

Líkt og fyrr segir þurfi að huga að þeim fyrirtækjum sem mögulega lenda milli skips og bryggju í úrræðum stjórnvalda og skoða möguleika á viðspyrnulánum. Lán sem tækju ekki bara til nýsköpunar heldur einnig fyrirtækja í hefðbundnum rekstri, fyrirtækja sem búin eru að standa af sér bylinn sjálf án aðstoðar en geta ekki hreyft sig frekar og veitt viðspyrnu, að mati Ingibjargar. „Mikilvægt er að þau geti vaxið og unnið að þeim sóknartækifærum sem eru til þess fallin að skapa verðmæti, og ekki síður atvinnu, til framtíðar. Langtímalán á hagkvæmum kjörum er lykillinn hér.“

Ingibjörg segir að í starfi samtaka á borð við SA, bæði í hagsmunabaráttunni og í þjónustunni, sé mikilvægt að huga alltaf að því hvað við gerum vel, hverju má breyta og hvað má bæta. „Við erum um þessar mundir að fara að kanna hjá félagsmönnum okkar hvaða mál brenna helst á þeim. Ekki síður munum við spyrja félagsmenn hvaða þjónustu þeir vilja sjá eflast hjá okkur frekar. Við viljum auðvitað stilla aðildina þannig að sem flestir rekstraraðilar sjái sér hag í henni. Rödd lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem eru grasrót íslensks atvinnulífs þarf að heyrast betur og því er mikilvægt að fjölga þeim enn frekar innan SA. Saman eru lítil og meðalstór fyrirtæki sterkari og saman getum við náð fram úrbótum og eflt samkeppnishæfni landsins og verðmætasköpun öllum til hagsbóta.“

Rekstrarráðgjöf Litla Íslands er nú hluti beinnar þjónustu SA til félagsmanna og hefur þjónustan verið efld á síðustu tveimur árum.

Til staðar fyrir félagsmenn - hvað felst í rekstrarráðgjöf SA?

Rekstrarráðgjöf Litla Íslands er nú hluti beinnar þjónustu SA til félagsmanna og hefur þjónustan verið efld á síðustu tveimur árum. Þjónustan hefur þó ekki verið auglýst mikið opinberlega en það er eitthvað sem unnið er að svo fyrirtæki viti hvað er í boði hjá SA. Auk almennrar rekstrarfræðslu geta félagsmenn fengið sérsniðna rekstrarráðgjöf fyrir sinn rekstur og með því hefur SA verið til staðar fyrir félagsmenn sína á erfiðum tímum. Fyrirtæki geta bókað tíma í rekstrarviðtal þar sem farið er almennt yfir lykilþætti í rekstri en það hefur nýst félagsmönnum vel að geta nýtt tímann til að huga að rekstrargrunni sínum og styrkja hann til að auka viðspyrnugetu eftir kórónuveiruna. Eins geta félagsmenn pantað rekstrarúttekt sem er greining og úttekt á stöðu rekstrar. Í framhaldi er hægt að bóka í endurskipulagningu og aðstoðar SA þá félagsmenn í að halda utan um úrbætur sem þarf mögulega að ráðast í eða vísa áfram á sérfræðinga í atvinnulífinu til að styrkja rekstrargrunn fyrirtækis samkvæmt niðurstöðum rekstrarúttektar.