Bjarni Haukur Þórsson, leikari, leikstjóri og handritshöfundur, var að senda frá sér sína fyrstu barnabók. Bókin nefnist Þrúður þruma – hvirfilbylurinn frá Nýborg og segir frá brettastelpunni Þrúði sem uppgötvar yfirnáttúrulega krafta sína.

Bjarni Haukur segir að þetta sé metnaðarfull bók fyrir börn og hann hafi notið stuðnings og hvatningar frá sonum sínum sem eru 8 og 18 ára gamlir. „Bókin fjallar um kraftinn sem býr í börnum en þau eru stundum rög við að nota. Halda að þau geti ekki gert hluti sem þau síðan geta vel gert,“ útskýrir hann. „Þannig að bókin ýtir svolítið undir að treysta á eigin getu og gera krakkana sjálfstæðari,“ bætir hann við.

Sat við skriftir í Covid

Það var í Covid sem Bjarni Haukur fékk þá hugmynd að setjast niður og skrifa barnabók þegar hann var á milli verkefna. Stór sýning sem hann var að setja upp í Osló stoppaði þegar heimsfaraldur skall á en Bjarni hefur búið í Stokkhólmi í mörg ár og starfað víða á Norðurlöndunum. Flestir minnast hans kannski best fyrir Hellisbúann og Pabbann sem hann samdi og lék á sviði. Verkin urðu afar vinsæl hér á landi. „Það eru nú komin 25 ár síðan Hellisbúinn var og 15 ár síðan Pabbinn var,“ segir Bjarni Haukur en hann hefur áður gefið út bókina Pabbinn, sem byggð var á leikverkinu og var gefin út af hinni virtu bókaútgáfu Random House árið 2014.

Það er mikill hasar og nóg að ævintýrum í Þrúði þrumu.

„Ég hef lengi verið áhugasamur um Íslendingasögurnar og lesið Snorra Sturluson, Heimskringlu og fleiri slíkar bækur. Mig langaði að vekja forvitni barna á þessum sögum og gera þær aðgengilegri fyrir þau. Þá datt mér í hug að sniðugt væri að búa til barnabók sem hefði innblástur frá gömlu, íslensku bókmenntunum og norræna goðaheiminum. Ég vildi að þetta væri bæði fyndin bók og skemmtileg en samt með miklum krafti og hasar. Ég hef áður unnið með Pétri Stefánssyni teiknara sem er mjög flinkur og nefndi þetta verkefni við hann. Pétur fór á flug og kom með þessar frábæru myndir sem gefa bókinni mikið líf. Það eru yfir 300 myndir í bókinni, litríkar og líflegar,“ segir Bjarni Haukur.

Þetta eru hverfin í Nýborg sem eru sögusvið bókarinnar Þrúður þruma – hvirfilbylurinn frá Nýborg.

Sannkölluð Þruma

„Ég hef lesið bókina fyrir yngri soninn sem skemmti sér konunglega yfir lestrinum en ég hef alltaf lesið mikið fyrir þá báða. Með því að lesa fyrir þá hef ég uppgötvað hvað það er sem virkar vel fyrir krakka. Ég hef umgengist fjölda barna í gegnum syni mína og svo hef ég þjálfað yngri flokka í fótbolta og tel mig því vita hvernig best er að ná til þeirra,“ segir hann.

Aðalsöguhetja bókarinnar er Þrúður þruma, níu ára brettastelpa sem þeysist um Nýborg á hjólabrettinu sínu. Þegar pabbi hennar, Þór Óðinsson, hverfur skyndilega uppgötvar Þrúður yfirnáttúrulega krafta sem hún er fær um að leysa úr læðingi. Með hjálp besta vinar síns, klifurgarpsins Asks og drapplituðu dúndrunnar (ömmu Frigg), leggur hún í mjög tvísýnan leiðangur og upp hefst æsispennandi ævintýri. Mun Loki, viðskiptafélagi Þórs og forstjóri Þitt veður ehf. ná sínu fram og breyta Nýborg um ókomna tíð?

Það eru yfir 300 teikningar í bókinni eftir Pétur Stefánsson.

Þrúður leggur allt í sölurnar til þess að komast að sannleikanum, finna föður sinn og bjarga Nýborg. „Það gerast mikil ævintýri í bókinni og hún er æsispennandi,“ segir höfundurinn. „Bókin fjallar um kraftinn sem býr í börnum og hvernig það er að finna út úr því hvernig manneskja maður er eða vill vera. Hún fjallar um hvernig maður verður að góðri manneskju og sterkri. Hvað er rétt eða rangt í lífinu og hvað er hið góða eða hið illa?“ segir hann enn fremur.

Fangar athygli barnanna

Þegar Bjarni Haukur er spurður hvort það verði framhald af Þrúði eða hvort hún eigi eftir að birtast í kvikmynd segir hann ekkert ákveðið í þeim efnum. „Við sjáum bara til ef viðtökur verða góðar,“ segir hann. „Ég er núna að byrja að kynna bókina fyrir krökkum og unglingum en hún er ætluð þeim sem eru byrjaðir að lesa og alveg upp í 14 ára. Hins vegar er ekkert að því að lesa hana fyrir yngri börn,“ segir hann. „Mér hefur gengið vel að fanga athygli þeirra krakka sem hafa hlustað á söguna. Þau eru opin og fljót að meðtaka enda alltaf eitthvað að gerast á hverri blaðsíðu með skemmtilegum myndum. Bókin er þykk og ég hef tekið eftir því að krakkarnir eru stoltir af að lesa svona margar blaðsíður. Ég hafði mjög gaman af því að skrifa þessa bók og held hún sé eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert,“ segir Bjarni Haukur.

Krakkarnir gleyma sér yfir öllum myndunum í bókinni.