Í Marvel-myndinni Thor: Love and Thunder er þrumuguðinn í leiðangri sem er ólíkur nokkru því sem hann hefur áður staðið frammi fyrir – hann er að leita að sjálfum sér, sínu innra sjálfi. En Thor fær ekki frið til þess vegna þess að Gorr – slátrari guðanna, illskeyttur raðmorðingi sem lætur til sín taka um alla vetrarbrautina, er staðráðinn í að útrýma guðunum.

Til að berjast gegn þessari ógn fær Thor til liðs við sig Valkyrie, konung Ásgarðs, Korg og fyrrverandi kærustuna, Jane Foster, sem, Thor til mikillar undrunar, beitir hamri hans, Mjölni, á óskiljanlegan hátt sem hinn máttugi Thor.

Saman leggja þau upp í alheimsævintýraför til að komast að leyndardómnum að baki hefndarþorsta slátrara guðanna og stöðva hann áður en það er um seinan.

Aðdragandi söguþráðarins er sá að Thor sest í helgan stein og fer í sjálfsleit. Flestir sem fara í sjálfsleit eru að flýja eitthvað og Thor er í raun að flýja ástina vegna þess að hans reynsla er sú að allt sem hann elskar deyr. Ómeðvitað telur hann bölvun hvíla á sér.

Eins og fyrr segir varir friðurinn ekki lengi. Gorr – slátrari guðanna herjar á guðina, drepur þá einn af öðrum og ferð hans liggur bersýnilega til Nýja Ásgarðs.

Gorr hafði verið friðsamur og guðrækinn en gengið í gegnum áföll sem umturna honum. Honum finnst guðirnir hafa svikið hann og verður heltekinn af hefndarhug. Heift hans og bræði gagntaka hann svo gersamlega að yfir hann færist forn og illur máttur og leggur upp í hefndarför sína til að losa alheiminn við guði sem passa ekki upp á mennina.

Christian Bale leikur Gorr og gerir það af slíkri snilld að meðleikarar hans voru hálfsmeykir við hann á tökustað. Tessa Thompson sem leikur Valkyrie konung lýsir því svo: „Christian sem Gorr var dáleiðandi. Hann gerir það sem Marvel-illmenni gera svo vel, sem er að illmennska þeirra stafar af sársauka frá einhverju áfalli sem þeir hafa ekki unnið úr.“

Sambíóin, Laugarásbíó, Smárabíó og Háskólabíó

Fróðleikur

  • Í leikarateymi myndarinnar eru fimm óskarsverðlaunahafar – Christian Bale, Matt Damon, Natalie Portman, Taika Waititi og Russel Crowe – tvö sem tilnefnd hafa verið – Bradley Cooper og Melissa McCarthy
  • Eftir Batman-myndina The Dark Knight Rises (2012) ætlaði Christian Bale aldrei aftur að koma fram í mynd um ofurhetjur eða sem byggð er á myndasögu. Hann heillaðist hins vegar af hæfileikum Taika Waititi og handriti hans og lét til leiðast að vera með í þessari.

Frumsýnd 6. júlí 2022

Aðalhlutverk:
Chris Hemsworth, Taika Waititi (rödd), Chris Pratt, Natalie Portman, Melissa McCarthy og Christian Bale

Handrit:
Taika Waititi og Jennifer Kaytin Robinson

Leikstjórn:
Taika Waititi

Bönnuð innan 12.