Ed Sheeran hefur þegar slegið tónleikamet sem hljómsveitin U2 átti. Söngvarinn hefur þénað meira á núverandi tónleikaferð sinni en írsku rokkararnir U2 gerðu þegar þeir settu heimsmetið. Tónleikatúr Eds Sheeran, Divide Tour, hófst í mars 2017 og mun klárast síðar í þessum mánuði í Chantry Park í Ipswich á Englandi. Ed þakkaði áheyrendum sínum á Instagram fyrir nokkrum dögum fyrir áhugann og aðsóknina. Hátt í tíu milljónir hafa séð hann á þessu ferðalagi þar sem hann hefur haldið 260 tónleika um allan heim.

Þegar tónleikaferðinni lýkur verður Ed búinn að túra í 893 daga sem er nýtt met. Þetta þykir ótrúlegt afrek hjá tónlistarmanninum sem er aðeins 28 ára. Þá hefur lagið No. 6 Collaborations Project setið nokkrar vikur á topplista breska vinsældalistans. Ed Sheeran er mest spilaði tónlistarmaður í útvarpi á Bretlandseyjum og hefur slegið enn eitt metið þar líka. Hann hefur selt meira en 150 milljónir hljómplatna um heim allan sem gerir hann að einum mest selda tónlistarmanni heims. Tvær plötur hans eru á lista yfir mest seldu plötur sögunnar í Bretlandi.

Ed Sheeran hefur unnið til margra viðurkenndra alþjóðlegra verðlauna. Áhorfendur á Laugardalsvelli geta farið að hlakka til að sjá þessa risastjörnu tónlistarsögunnar á sviði á Íslandi.