Mikil áhersla er lögð á að starfsfólki líði vel og er það hvatt til að nýta sér þær mörgu leiðir sem Samkaup bjóða upp á til vellíðunar og framgangs, bæði í starfi og persónulega. Þar má helst nefna víðtæka velferðarþjónustu og öflugar námsleiðir sem standa öllu starfsfólki til boða.
Eftirsóknarvert að vinna hjá Samkaupum
„Við viljum að eftirsóknarvert sé að starfa hjá Samkaupum og því tekur starfsfólkið okkar þátt í að þróa og bæta starfsumhverfi sitt,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs. „Samskipti og samtal innan hópsins eru starfsmönnum Samkaupa mikilvæg, en vegna Covid hefur slíkt verið í lágmarki síðustu tvö ár. Haustið 2021 tókst okkur til að mynda að halda lykilfundi með starfsfólki Samkaupa á tíu mismunandi stöðum á landinu þar sem stjórnendur hittu starfsmenn verslana og áttu með þeim notalega kvöldstund og gott spjall um framtíðina, áskoranirnar og tækifærin fram undan,“ segir Gunnur.
„Meginmarkmið Samkaupa er að vera eftirsóknarverður vinnustaður, þar sem áhersla er lögð á jákvæða og heilbrigða menningu, jafnrétti og sterka liðsheild, auk þess sem við höfum lagt okkur fram um að hvetja starfsfólk til aukinnar menntunar og við viljum virkja fólk til að bæta við sig þekkingu. Við höfum mótað öfluga menntastefnu sem mætir starfsfólki hvar sem það er, hvort sem er vettvangur símenntunar, eða í tengslum við hið formlega menntakerfi þar sem starfsfólk hefur tækifæri til að mennta sig samhliða vinnu, með stuðningi Samkaupa.“

Eitt stærsta vildarkerfi á Íslandi í dag
Um mitt ár 2021 var Samkaupaappinu ýtt úr vör og óhætt er að segja að það hafi slegið í gegn. Í árslok 2021 voru notendur orðnir um 40.000 og 20% af sölu verslana fóru í gegnum appið. Þar með er appið orðið að einu stærsta vildarkerfi á Íslandi í dag, sem býður viðskiptavinum upp á afslátt í formi inneignar, sem hann getur síðan nýtt í næstu verslunarferð.
„Við höfum verið öflug í að tileinka okkur tæknina og viljað vera leiðandi þegar kemur að nýstárlegum leiðum til að mæta viðskiptavinum okkar. Netverslunin sem fór í loftið 2017 hefur heldur betur vaxið og hvert metið slegið á fætur öðru í nýtingu hennar í fyrra. Vissulega var um að ræða heimsfaraldur með tilheyrandi samkomutakmörkunum, en við finnum fyrir því að neytendahegðunin hefur breyst til langframa og hlökkum til að stíga næstu skref í þessari vegferð, enda mikil gróska í nýsköpun og nýtingu á tækninni sem verður spennandi að bjóða upp á fyrir viðskiptavini árið 2022,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs.

Samfélagsleg uppskera
Samkaup hafa nú gefið út samfélagsskýrslu fyrir árið 2021 og er það í annað skipti sem slík skýrsla kemur frá félaginu, þrátt fyrir að hafa um árabil lagt ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð í allri sinni starfsemi. Vægi samfélagslegrar ábyrgðar vex sífellt og krafan um að hún sé í hávegum höfð á öllum stigum reksturs, stefnumótunar og í daglegum ákvörðunum verður háværari sömuleiðis.
Stjórnendahópur Samkaupa hefur lagt mikla áherslu á að samfélagsleg ábyrgð sé unnin út frá kerfisbundinni nálgun og raunverulega sýnileg á borði en ekki aðeins í orði.
Dæmi um þetta er að árið 2021 uppskar Samkaup:
Jafnvægisvog FKA, þar sem jöfnu kynjahlutfalli í stjórnendalagi félagsins er náð
Samstarf við Samtökin ’78, Þroskahjálp og Mirru, rannsókna- og fræðslusetur fyrir erlent starfsfólk sett á fót
Hvatningarverðlaun jafnréttismála, bæði á sviði fjölmenningar og atvinnumála fólks með skerta starfsgetu
Samkaup losuðu 27% minna af kolefni en árið á undan
Eldsneytisnotkun dróst saman um 8,36% milli ára
Fyrstu hraðhleðslustöðvunum komið upp við verslanir
Afslættir í gegnum átakið „Minni sóun – allt nýtt“ náðu hámarki í fyrra, eða því sem nemur um 320 milljónum króna
Samkaupsappið með yfir 40.000 notendur og þar með orðið eitt stærsta vildarkerfi á Íslandi
Styrkir út í samfélagið námu um 42 milljónum í fyrra

Umhverfismál ofarlega á baugi
Árið 2021 losaði Samkaup 27% minna af kolefni en árið áður, þrátt fyrir að verslunum hefði fjölgað. Þá dróst eldsneytisnotkun vegna aksturs saman um 8,36%.
„Við gerðum mikið af smærri breytingum sem þó hafa allar gífurleg samlegðaráhrif, svo sem að taka upp rafrænar hillumerkingar í stað límmiða, hófum notkun á rafrænum kvittunum í Samkaupa-appinu og settum upp fyrstu hraðhleðslustöðvarnar við verslanir. Við opnuðum aðra græna Nettó-verslun þar sem öll tæki og starfsemi verslunarinnar eru keyrð áfram með grænu skrefin að leiðarljósi og verður áframhald á umbreytingum verslana úr hefðbundnum í grænar á þessu ári. Loks innleiddum við svo umhverfisstjórnunarhugbúnað frá Klöppum, sem gerir okkur kleift að mæla og fylgjast raunverulega með kolefnisspori fyrirtækisins, auk ýmissa annarra aðgerða með það fyrir augum að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum, bæði beinum og afleiddum,“ segir Heiður Björk Friðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs.
„Umhverfisáhersla Samkaupa og samfélagsleg ábyrgð endurspeglast ekki síður í aðgerðum á innkaupasviði, sem kappkostar að bjóða neytendum upp á umhverfisvænan kost og sjálfbær vörumerki eins og Änglamark, þar sem gæðahráefni og lífræn ræktun mætast. Þá skiptir líka máli að við höfum á undanförnum árum unnið markvisst að því að auka sölu á íslenskum afurðum. Fjölmargar aðgerðir gera að verkum að nú getum við boðið upp á æ fleiri íslenskar afurðir allt árið um kring. Með þessari framþróun náum við að lágmarka innflutning á vörutegundum sem framleiddar eru hérlendis, enda hefur það sýnt sig að neytendur kjósa íslenskt, sé þess kostur,“ bendir Stefán Ragnar Guðjónsson á, en hann er framkvæmdastjóri innkaupasviðs.
Samkaup hvetja til nýsköpunar og stuðla að nýsköpun á öllum sviðum, ekki aðeins í tengslum við tækninýjungar heldur einnig vinnuferli, grænar lausnir, minni sóun, menntun starfsfólks, og svo framvegis.
„Nú í maí, í tengslum við Nýsköpunarviku Íslands, fara Samkaup einnig af stað með nýsköpunarmánuð fyrir starfsfólk og viðskiptavini, sem verður spennandi verkefni að vinna áfram. Þá er áframhaldandi þróun á stafrænni tækni og Samkaupa-appinu, ásamt sjálfvirknivæðingu í þjónustu þar sem Samkaup hafa sérstöðu í að vera tæknilega fremst í verslunarháttum. Áherslur í samfélagslegri ábyrgð og samvinna með starfsfólkinu okkar heldur áfram árið 2022 og því ekki hægt annað en að horfa björtum augum á framtíðina.“ ■
Árs- og samfélagsskýrslu Samkaupa má nálgast á heimasíðu félagsins: samkaup.is