Margrét Dögg Guðgeirsdóttir Hjarðar, leiðbeinandi með umsjón í grunnskólanum á Egilsstöðum, er sjálfboðaliði í viðbragðshópi Rauða krossins á Austurlandi. Tveimur dögum eftir að jólafríið hófst í skólanum var viðbragðshópurinn kallaður út um kaffileytið, föstudaginn 18. desember 2020. Alrýming hafði verið fyrirskipuð á Seyðisfirði vegna mikilla rigninga og aurskriðna sem ógnuðu byggðinni.

Langflestir íbúar Seyðisfjarðar voru samankomnir í grunnskólanum á Egilsstöðum þar sem sett hafði verið upp fjöldahjálparstöð en hluti viðbragðshópsins var sendur til Eskifjarðar þar sem hlutarýming stóð yfir af sömu orsökum.

Margrét segir verkefni viðbragðshópsins vera af ýmsum toga. „Yfirleitt eru þetta afmarkaðir atburðir. Einhver atburður verður, slys eða áfall, og við erum virkjuð til að aðstoða og veita nokkurs konar sálræna fyrstu hjálp. Í framhaldinu vísum við fólki á fagaðila.“

Margir komu að þessari stóru aðgerð á aðventu. Prestar gengu á milli fólks, félagsþjónustan hjá Múlaþingi var á staðnum og ýmsir sérfræðingar. „Við vorum þarna til að hjálpa,“ segir Margrét. „Ef fólk þurfti fékk það stuðning. Þetta byrjaði á föstudag og stóð í nokkra sólarhringa. Við unnum á vöktum og alltaf voru að minnsta kosti tvær manneskjur á staðnum.

Fyrst var opnuð miðstöð í Herðubreið á Seyðisfirði þar sem viðbragðsaðilar voru til staðar. Fólk skráði sig þar og var svo sent í fjöldahjálparmiðstöðina í grunnskólanum á Egilsstöðum. Þetta voru fimm sólarhringar og við lokuðum á Þorláksmessu. Þá var opnuð þjónustumiðstöð í Herðubreið á Seyðisfirði sem starfaði fram eftir janúar.

Það sem stendur upp úr hjá mér, fyrir utan hvað þetta var gríðarlega stórt verkefni að rýma heilt bæjarfélag, var hve óvissan var mikil. Venjulega er verkefnið afmarkað. Slys verður og við bregðumst við. Í framhaldinu leitar fólk til sérfræðinga. Það sem reyndi mest á þarna var að sjá ekki fyrir endann á þessu. Enginn gat svarað því hvenær fólk mætti fara heim. Hvort það gæti haldið jólin heima.“

Margrét segir þessa sólarhringa greypta í minni sér. „Núna, þegar aftur eru rýmingar vegna vatnsveðurs og hættu á aurskriðum, er þetta mér í ljósu minni. Allt rifjast upp.“