Græna planið er framtíðarsýn um efnahagslega endurreisn borgarinnar eins og hún birtist í fjármálastefnu, í fimm og tíu ára fjármálaáætlun og fjárfestingaráætlun til tíu ára. Græna planið skírskotar meðal annars til heimsmarkmiða Sameinuðu Þjóðanna um sjálfbæra þróun. Með Græna planinu er stefnt að kröftugum og sjálfbærum vexti borgarinnar sem styður við markmið um kolefnishlutleysi, vernd náttúrusvæða, líffræðilega fjölbreytni og um samkeppnishæft, lífvænlegt, réttlátt og fjölbreytt borgarsamfélag.

Græna planið er framtíðarsýn um borgarsamfélag sem einkennist af heilnæmu umhverfi, jöfnum tækifærum og öflugu atvinnulífi sem gengur ekki á náttúruauðlindir. Með þessu vill Reykjavíkurborg styðja við þróun fjölbreyttrar og sjálfbærrar borgar sem leggur áherslu á lífsgæði íbúa og fjölbreytt atvinnulíf.

Fjölmargar stefnur og áætlanir borgarinnar verða hluti af Græna planinu og tryggja framgang þess. Ein lykilafurð Græna plansins er öflug fjárfestingaráætlun til 10 ára, til að byggja nýjar undirstöður fyrir grænan hagvöxt framtíðarinnar. Öflug uppbygging á íbúðarhúsnæði og grænir samgönguinnviðir, ásamt sterkum félagslegum innviðum, skapa grunn fyrir góð lífsgæði í borginni. Unnið verður með fjölbreyttum hópi að því að marka atvinnu- og nýsköpunarstefnu til að tryggja nýjum og nauðsynlegum vaxtarsprotum góð skilyrði, byggja á styrkleikum núverandi stöðu og vinna gegn veikleikum og skapa þannig nýjan grundvöll fyrir atvinnulíf, vöxt og verðmætasköpun framtíðarinnar. Samkeppni um skipulag og hönnun fjárfestingarverkefna verður flýtt og gerð deiliskipulags uppbyggingarsvæða og stafræn umbreyting borgarinnar og þjónustu hennar verður sett í forgang.

Í framtíðarsýn Græna plansins til ársins 2030 er Reykjavík kolefnishlutlaus, blómleg, skemmtileg og heilbrigð borg.

Hvað er Græna planið?

Græna planið er áætlun Reykjavíkurborgar um hvernig sé rétt að bregðast við stöðu efnahagsmála og áætlun borgarinnar um efnahagslega endurreisn eftir heimsfaraldur. Að borgin sæki fram og fjárfesti í stað þess að draga sig til hlés og beini þessum fjárfestingum í innviði sem stuðla að því að borgin verði kolefnishlutlaus og sterkari sem samfélag.

Áherslur Græna plansins

Græna planið er sóknaráætlun Reykjavíkurborgar til efnahagslegrar viðspyrnu og grænnar endurreisnar sem dregur saman á einn stað meginlínur í fjármálum, fjárfestingum og grænum lykilverkefnum næstu tíu ára.

Græna planið byggir á þremur meginstoðum sjálfbærni; það er, umhverfislegri sjálfbærni, félagslegri sjálfbærni og efnahagslegri sjálfbærni.

Þróttmikið og fjölbreytt borgarhagkerfi er besta leiðin upp úr samdrætti. Á grunni Græna plansins mun Reykjavíkurborg beita sér fyrir kraftmikilli innviðafjárfestingu í víðtækri samvinnu með það fyrir augum að byggja upp borg tækifæranna. Grænar áherslur og græn skref munu á komandi árum vera leiðarljós borgarinnar á öllum sviðum.

Í samfélagslegum áherslum Græna plansins verður hlustað á raddir íbúa og grunnþörfum þeirra mætt um lífsskilyrði og öryggi.

Framtíðarsýn Græna plansins til 2030

Kolefnishlutlaus borg: Reykjavík er kolefnishlutlaus, blómleg, skemmtileg og heilbrigð borg.

Grænn vöxtur: Í Reykjavík er kraftmikill grænn vöxtur, samkeppnishæft borgarsamfélag og frjósamur jarðvegur fyrir skapandi hugmyndir sem laðar fólk að til búsetu, heimsókna og athafna.

Enginn skilinn eftir: Í Reykjavík verður græna umbreytingin byggð á réttlæti, sanngirni og þátttöku. Íbúar búa við öryggi og geta haft jákvæð áhrif á eigið líf og annarra í nútíð og framtíð.

Helstu áherslur í efnahagsmálum til 2030:

Þéttum byggð, 1.000 íbúðir á ári.

Fjárfestum í grænum og fjölbreyttum samgönguinnviðum.

Þróum ný atvinnutækifæri til framtíðar.

Helstu áherslur í umhverfismálum til 2030:

Drögum úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Eflum græn svæði og kolefnisbindingu.

Undirbúum borgina undir áhrif loftslagsbreytinga.

Helstu áherslur í samfélagsmálum til 2030:

Mætum grunnþörfum íbúa um lífsskilyrði og öryggi.

Mætum fjölbreyttum hópi íbúa með notendamiðaðri þjónustu.

Hlustum á raddir íbúa.

Bætt lýðheilsa – heilsuborgin.

Menntum okkur öll.

Græna planið og uppbygging íbúða

Nýjustu upplýsingar um framkvæmdir á húsnæðismarkaði í Reykjavík verða kynntar í beinni útsendingu í dag, 30. október, klukkan 9 til 11. Sent verður út á vef Reykjavíkurborgar – reykjavik.is/ibudir og þar má einnig sjá dagskrá.