ÁTVR hefur frá upphafi unnið markvisst að því að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni í ferla fyrirtækisins, en sex markmiðanna falla sérstaklega vel að áherslum ÁTVR. Þau eru Heilsa og vellíðan (3), Jafnrétti kynjanna (5), Góð atvinna og hagvöxtur (8), Ábyrg neysla og framleiðsla (12), Aðgerðir í loftlagsmálum (13) og Samvinna um markmiðin (17),“ upplýsir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR.

Markmiðið Heilsa og vellíðan birtist meðal annars í því að stöðugt er unnið að því að vinnustaðurinn sé heilsueflandi. Öryggi og heilsa starfsfólks eru ávallt forgangsverkefni.

„Við framfylgjum stefnu stjórnvalda um bætta lýðheilsu og samfélagslega ábyrgð í áfengis- og tóbaksmálum, í sátt við samfélagið. Hornsteinninn í samfélagsábyrgð ÁTVR er ábyrg sala áfengis sem endurspeglast meðal annars í því að engar söluhvetjandi aðgerðir eru í starfseminni, heldur er megináherslan á góða og ábyrga þjónustu. Önnur mikilvæg áhersla í samfélagsábyrgð er skilríkjaeftirlit til að tryggja að allir viðskiptavinir hafi náð áfengiskaupaaldri,“ útskýrir Sigrún Ósk.

Með 5. heimsmarkmiði SÞ, Jafnrétti kynjanna, njóti allt starfsfólk sömu virðingar og hafi jafna stöðu innan fyrirtækisins. Jafnlaunavottun er viðhaldið og unnið er eftir jafnréttisáætlun fyrirtækisins.

„Áttunda heimsmarkmiðið er Góð atvinna og hagvöxtur. Þar leitumst við eftir að vinnustaðurinn sé eftirsóknarverður þar sem samskipti einkennast af lipurð, þekkingu og ábyrgð. Við leggjum áherslu á að starfsfólk geti vaxið í starfi og aflað sér þekkingar sem stuðlar að starfsánægju og framúrskarandi þjónustu. Stefnt er að því að söluvörur Vínbúðanna séu framleiddar samkvæmt alþjóðlegum samþykktum og siðareglum og við aðstæður sem eru góðar, bæði fyrir starfsfólk og umhverfið.“

Góð norræn samvinna

Með því að framfylgja 12. heimsmarkmiði SÞ, Ábyrgri neyslu og framleiðslu, beinir ÁTVR sjónum sínum að vöruumbúðum. Á vef Vínbúðanna má meðal annars sjá útreikning á áætluðu kolefnisfótspori allra áfengisumbúða. Lögð er áhersla á sjálfbært efnisval og endurvinnslu í Vínbúðunum. ÁTVR hefur sett sér stefnu í umhverfismálum þar sem markvisst er unnið að því að ná 98 prósent endurvinnsluhlutfalli árið 2030. Í dag er stefnan að ná 94 prósent hlutfalli.

Þrettánda heimsmarkmið SÞ er Aðgerðir í loftlagsmálum og segir Sigrún Ósk að loftlagsmarkmið ÁTVR til ársins 2030 sé 40 prósent samdráttur á útblæstri gróðurhúsalofttegunda, miðað við árið 2016.

„Við höfum orkusparnað í fyrirrúmi ásamt því að draga úr losun koltvísýrings (CO2). Sjónum er beint að orkunotkun fyrirtækisins og áhersla lögð á endurnýjanlega orku í öllu framleiðsluferlinu, ásamt sjálfbærum ræktunaraðgerðum, til dæmis bindingu kolefnis.“

Samvinna um markmiðin, er 17. heimsmarkmiðið sem ÁTVR fylgir.

„ÁTVR styrkir samvinnu við ýmsa aðila, jafnt innanlands og á alþjóða vettvangi, í því skyni að ná markmiðum. Við leggjum áherslu á norræna samvinnu, samstarf við alþjóðleg samtök auk samtaka innan iðnaðarins, vottunaraðila og frjáls félagasamtök,“ útskýrir Sigrún Ósk.

Heimsmarkmiðin áskorun

ÁTVR vinnur með systurfyrirtækjum sínum á Norðurlöndunum og eru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna notuð sem rammi utan um sameiginleg verkefni. Norrænu einkasölurnar eru Alko í Finnlandi, Systembolaget í Svíþjóð, Vinmonopolet í Noregi, Rúsdrekkasøla Landsins í Færeyjum og Vínbúðin.

„Nú er til að mynda unnið í vatni og mannréttindum í aðfangakeðjunni og þar áður var unnið í orkunotkun og kolefnisspori umbúða sem tengist heimsmarkmiði um aðgerðir í loftlagsmálum. Á næsta ári verður unnið með líffræðilegan fjölbreytileika,“ upplýsir Sigrún Ósk.

„Núverandi verkefni felst í að kanna hvaða áhrif vatnsnotkun við áfengisframleiðslu hefur í framleiðslulöndunum og vekja athygli á hugsanlegum neikvæðum áhrifum í aðfangakeðjunni sem vatnsnotkun í framleiðslu afurða getur haft á mannréttindi.“

Í næsta mánuði verður svo haldin ráðstefna í netheimum um vatns- og mannréttindi þar sem ný skýrsla og helstu áskoranir til úrbóta verða kynntar.

„Að vinna í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er áskorun sem snertir alla þætti í rekstri. Mikilvægt er að setja sér raunhæf en metnaðarfull markmið, þannig getum við stuðla að betra samfélagi,“ segir Sigrún Ósk.

Sjá nánar á vinbudin.is