„Jólaandinn svífur yfir vötnum á Árbæjarsafni þar sem búið er að skreyta húsin og safnsvæðið svo fallega. Í safnbúðinni og krambúð safnsins eru dýrindis jólavörur og sælgæti til sölu, bæði til yndisauka fyrir heimilið og sem freistandi gjafir í jólapakkana,“ segir Guðbrandur Benediktsson, safnstjóri Árbæjarsafns.

Guðbrandur er kominn í sannkallað jólaskap enda staddur í töfrandi umgjörð jóla fortíðar, þar sem heimagerð jólatré, liðnar jólaminningar og aldagamalt jólaskraut prýddu áður hátíðleg heimili landsmanna, jafnt látlaus sem íburðarmeiri.

„Heimsókn á Árbæjarsafn gefur þannig notalega tilfinningu fyrir jólum liðinna alda, allt frá torfbæjarstemningu til heimilis betri borgara í upphafi 20. aldar,“ greinir Guðbrandur frá.

Jólaljós tendruð á kertum sem prýða heimagert jólatré.
Krambúðin er heillandi heimur með fágætum varningi.
Þá sem nú tíðkast sá ljúfi jólasiður að borða kökur og sötra heitt súkkulaði.

Hann stendur í uppábúinni stofu þar sem búið er að leggja á borð íslenskar jólatertur og smákökur sem fylgt hafa matarsmekk Íslendinga lengi og eru enn bakaðar á mörgum íslenskum heimilum fyrir jólin.

„Árbæjarsafn er töfrandi staður heim að sækja í aðdraganda jóla og ómissandi upplifun og jólagleði hjá svo mörgum sem þar hafa dansað í kringum jólatré á torginu sem er innrammað af gömlum húsum sem öll geyma sína sögu og sjarma,“ segir Guðbrandur á heillandi strætum Árbæjarsafns sem nú ljóma af birtu jólaljósa.

Ekki verður hægt að bjóða upp á hefðbundna jóladagskrá sem er rík hefð fyrir á Árbæjarsafni á aðventunni nú, sökum sóttvarna og samkomutakmarkana, en slíkir viðburðir hafa notið mikilla vinsælda síðustu ár og áratugi.

„En þrátt fyrir allt þá koma nú jól og enginn ætti að vera svikinn af jólastemningunni á Árbæjarsafni. Því bjóðum við alla velkomna að gera sér glaðan dag og fá gömlu jólin og fagra jólastemningu í hjarta og huga fyrir þessi jól, þar sem opið verður alla daga fyrir gesti og gangandi frá klukkan 13 til 17 á aðventunni,“ segir Guðbrandur.

Safnbúðin á Árbæjarsafni geymir fjársjóði í jólagjafir.
Músastigar og bómullasnjór á kirkjuþaki liðinna jóla.
Einstakt og öðruvísi jólaskraut fæst í safnbúðinni.

Jólaleg söfn um alla borg

Nú þegar aðventan hefur gengið í garð fer að verða jólalegt um að litast á söfnum Reykjavíkurborgar, sem heyra undir Borgarsögusafn.

„Á Sjóminjasafninu úti á Granda og á Landnámssýningunni í Aðalstræti er búið að skreyta, og mikið af fallegum varningi er til sölu í safnbúðunum þar sem má tvímælalaust finna skemmtilegar jólagjafir sem koma á óvart og gleðja,“ segir Guðbrandur.

Sama má segja um Ljósmyndasafn Reykjavíkur og má mæla sérstaklega með eigulegri ljósmyndabók sem var að koma úr prentun.

„Útgáfa ljósmyndabókarinnar er í tilefni 40 ára afmælis Ljósmyndasafnsins. Þar verður síðar í mánuðinum opnuð áhugaverð sýning á verkum ungra ljósmyndara úr Ljósmyndaskólanum, sem verður spennandi að sjá. Verður hún uppi fram í byrjun janúar, eða þangað til Ljósmyndahátíð Íslands gengur í garð,“ upplýsir Guðbrandur. ■

Allt um Borgarsögusafn Reykjavíkur á borgarsogusafn.is. Sími 411 6300.

Starfsfólk Árbæjarsafns tekur á móti gestum klætt íslenskum þjóðbúningum.
Jólaljósin glitra nú í öllum vistarverum Árbæjarsafns.