„Fyrirtækið hefur það að leiðarljósi að fullnýta auðlindastrauma úr iðrum jarðar frá nærliggjandi jarðvarmaveri til að skapa verðmæti sem koma fram í upplifun gesta Bláa Lónsins sem og í framleiðslu á húðvörum. Allur rekstur fyrirtækisins er þannig samofinn fjölnýtingu þessara dýrmætu strauma og er einstakt dæmi um fjölnýtingu endurnýjanlegrar jarðvarmaauðlindar og sjálfbæra þróun,“ segir Fannar Jónsson, umhverfis- og gæðastjóri Bláa Lónsins.

Bláa Lónið hefur byggt upp rannsókna- og þróunarsetur á athafnasvæði sínu í Svartsengi þar sem fram fer framleiðsla á lífvirkum efnum úr jarðsjónum til notkunar í húðvörur fyrirtækisins. Sjálfbær nýting auðlindarinnar byggist á hringrásarhagkerfi, svokölluðum visthring jarðsjávar, (geothermal ecocycle), þar sem Bláa Lónið nýtir jarðsjó, gufu og koltvísýring (CO2) sem fellur til við framleiðslu á grænni jarðvarmaorku, sem er einnig nýtt í reksturinn.

Nýjar uppgötvanir og einkaleyfi

„Áhersla á öflugt rannsóknarstarf hefur einkennt starfsemi Bláa Lónsins allt frá upphafi, eða í 30 ár og er fjöldi vísindagreina, sem birtar hafa verið í viðurkenndum vísindatímaritum, sem og einkaleyfi fyrirtækisins góður vitnisburður um það. Bláa Lónið hefur átt í samstarfi við vísindamenn hérlendis og erlendis , og farsælt samstarf við háskólasamfélagið á sviði rannsókna og þróunar. Sem dæmi um rannsóknir má nefna rannsóknir á lækningamætti jarðsjávarins á psoriasis, áhrif innihaldsefna jarðsjávarins á húð og rannsóknir á vistkerfi lónsins,“ segir Ása Brynjólfsdóttir rannsókna- og þróunarstjóri Bláa Lónsins.

„Klínískar rannsóknir á áhrifum þess að baða sig í lóninu á psoriasis leiddu í ljós að jarðsjór Bláa Lónsins hefur einstaka virkni á húðina. Niðurstöður þessara rannsókna voru grunnurinn að því að Bláa Lónið hóf rekstur Lækningalindar árið 1994 en þar er enn í dag boðið upp á náttúrulega meðferð fyrir psoriasissjúklinga. Í kjölfarið voru gerðar ýtarlegar rannsóknir á vistkerfi lónsins og lífvirkni kísils og örþörunga á húð. Niðurstöður þessa leiddu í ljós að jarðsjór Bláa Lónsins er einstakur á heimsvísu hvað varðar efnasamsetningu og lífkerfi örþörunga og var jarðsjórinn útnefndur sem eitt af 25 undrum veraldar af National Geographic árið 2012,“ segir Ása.

Húðvörur byggðar á virkum efnum úr jarðsjó Bláa Lónsins

„Húðvörur Bláa Lónsins byggja á jarðsjónum og virkum innihaldsefnum hans og eru rannsóknir á þeim forsenda vöruþróunar,“ segir Ása.

BL+ húðvörulínan kom á markað 2021 og inniheldur BL+ COMPLEX sem er afrakstur 30 ára rannsóknarvinnu á jarðsjónum og nýtir einkaleyfi þess á lífvirkum örþörungum og kísil sem finnast í honum. BL+ COMPLEX vinnur gegn öldrun húðarinnar með því að vernda kollagenbirgðir, örva nýmyndun kollagens og styrkja náttúrulegt varnarlag hennar.

Fyrstu BL+ vörurnar, BL+ The Serum og BL+ Eye Serum eru vottaðar COSMOS NATURAL af hinum virta alþjóðlega úttektaraðila ECOCERT. COSMOS (COSMetic Organic and natural Standard) er snyrtivörustaðall með ríka áherslu á umhverfisvernd í framleiðsluháttum snyrtivara með áherslu á ábyrga nýtingu auðlinda með tilliti til fjölbreytileika lífs (e. biodiversity) og gæði hráefna með velferð neytenda og umhverfis að leiðarljósi. Bláa Lónið framleiðir COSMOS APPROVED hráefni í allar sínar húðvörulínur sem seldar eru um allan heim.

Vörurnar hafa hlotið frábærar viðtökur bæði innanlands og á erlendum mörkuðum. Fyrstu vörurnar, BL+ The Serum og BL+ Eye Serum, hafa þegar hlotið fjölda viðurkenninga og nýverið var BL+ Eye Serum valið sem besta augnvaran 2022 hjá Allure í flokki „CLEAN BEAUTY“. Nú á dögunum var kynnt til leiks þriðja varan í línunni, BL+ The Cream, sem þegar hefur hlotið góðar viðtökur.